Ákvæði um áheyrnarfulltrúa

Ákvæði um áheyrnarfulltrúa

HofudborgAðalfundur Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fór fram í Félagsgarði í Kjós í gær föstudag 20. nóvember. Á fundinum gerði Íbúahreyfingin grein fyrir tillögu um að samtökin innleiddu ákvæði um áheyrnarfulltrúa í samþykktir sínar sem tæki mið af 50. gr. sveitarstjórnarlaga.

Ný sveitarstjórnarlög tóku gildi í byrjun árs 2012. Í þeim lögum er nýtt ákvæði sem leyfir framboðum, sem ekki hafa fengið nægilegt magn atkvæða til að fá fulltrúa kjörinn í bæjarráð og aðrar nefndir, að tilnefnda áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt en þó ekki atkvæðisrétt.

Frumvarp þess efnis að festa ákvæðið í lög var fyrst flutt af þingmönnum VG á 133. löggjafarþingi 2006-2007. Þeir sóttu sína fyrirmynd til Reykjavíkurborgar sem þáþegar hafði innleitt þetta verklag. Mosfellsbær innleiddi sama verklag 2006 og eftir því sem ég best veit var það Ragnheiður Ríkharðsdóttir þáverandi bæjarstjóri sem var svo framsýn að standa fyrir því.

Rökin sem þingmennirnir færðu fyrir frumvarpinu í upphafi voru að því væri ætlað að efla lýðræði í sveitarfélögum og gæta þess að framboðum væri ekki mismunað á grundvelli þess hvort þau væru í meirihlutasamstarfi eða ekki. Það gæti hæglega komið upp sú staða að lítið framboð ætti fulltrúa í öllum nefndum á meðan stærra framboð ætti engan fulltrúa. Í þessu fælist mismunun gagnvart kjósendum því það ætti ekki að skipta máli hvort listi sem þeir kjósa er í meirihlutasamstarfi eða ekki. Þessi hætta er raunveruleg á höfuðborgarsvæðinu í þeim sveitarfélögum sem ekki hafa innleitt ákvæðið til fulls.

Nú er það svo að Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki innleitt ákvæðið í sínar samþykktir. Og það er staðreynd að umrætt misrétti er fyrir hendi. Í nefndum á vettvangi SSH eru fulltrúar framboða sem ekki fengu nægilegt magn atkvæða til að ná inn manni. Þeir eiga sæti í nefndum SSH einungis af því að þeir eru í meirihlutasamstarfi. Einfaldasta leiðin til að að leiðrétta misréttið er að innleiða ákvæði um áheyrnarfulltrúa þannig að öll framboð sem eiga fulltrúa í sveitarstjórn geti tilnefnt fulltrúa.

Ég veit að það er mótstaða gegn tillögu minni á þessum vettvangi.  Stjórn SSH sér ekki ástæðu til innleiða ákvæðið. Mig langar samt að biðja fundargesti að hugleiða málið vel því í núverandi fyrirkomulagi felst lýðræðishalli. Framboðin eru jú öll jöfn fyrir lögum.

SSH er samstarfsvettvangur þar sem mótuð er stefna í veigamiklum málum eins og svæðisskipulagi. Ég er þeirrar skoðunar að í því felist mikil menntun fyrir sveitarstjórnarfólk að taka beinan þátt í þannig starfi. Að mínu viti snýst málið því ekki síst um jafnan rétt til upplýsinga og tel ég þann þátt ekki síður mikilvægan en að leiðrétta þann lýðræðishalla að framboð sem þó eiga fulltrúa í sveitarstjórn skuli ekki geta tekið þátt í samstarfi og stefnumótun á vettvangi SSH.

Af erindum frummælenda á fundinum mátti ráða að vonir standi til að efla samstarfið ennfrekar á næstu árum. Satt best að segja er erfitt að sjá að grundvöllur sé fyrir því á meðan  framboðum sem þó hafa hlotið kosningu í sveitarstjórn er gert að standa utan við starf samtakanna.

Atkvæðagreiðsla um tillöguna bíður næsta árs þar sem láðist að senda hana til bæjarstjórnarmanna á höfuðborgarsvæðinu með fundarboði.

**********

Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar felur í sér breytingu á 6. gr. Samþykktar SSH og hljóðar svo:

“Framboð sem eiga fulltrúa í sveitarstjórn en ná því ekki að fá kjörinn fulltrúa í fulltrúaráð SSH eiga rétt til að tilnefna einn áheyrnarfulltrúa til setu á fundum fulltrúaráðs með tillögurétt og málfrelsi. Það sama gildir um nefndir á vegum samtakanna.”

Sigrún H Pálsdóttir

Meira lýðræði í stjórnmálastarfi

pudiÞátttakendum á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga​ gæti fjölgað um 55 ef sú tillaga Íbúahreyfingarinnar nær fram að ganga á þinginu nú í apríl að öll framboð sem eiga fulltrúa í sveitarstjórn öðlist rétt til að tilnefna einn áheyrnarfulltrúa til setu á landsþingi með tillögurétt og málfrelsi.

Frá sjónarhóli lýðræðis er ávinningurinn ótvíræður. Eins og staðan er í dag njóta framboð ekki jafnræðis og minni framboð hafa hvorki möguleika á að láta rödd sína heyrast né sama aðgang að upplýsingum og stærri framboð um þau mál sem verið er að ræða á þessum stefnumótandi samráðsvettvangi sveitarfélaga á Íslandi.

Í sveitarstjórnarlögum er opnað á að framboð sem ekki ná því að fá kjörinn aðalmann í nefndir en eiga fulltrúa í sveitarstjórn eigi rétt á að tilnefna áheyrnarfulltrúa. Tillaga Íbúahreyfingarinnar gengur út á að samskonar ákvæði verði virkja á vettvangi landsþings.

Meirihlutaræði hefur lengi verið lenska í stjórnmálastarfi á Íslandi. Í sveitarstjórnarlögum er hins vegar ekkert sem heitir meirihluti eða minnihluti, heldur eru kjörnir fulltrúar allir jafn réttháir fyrir lögum og beinlínis þeirra hlutverk að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í undirbúningi pólitískrar ákvarðanatöku.  Eins og fyrirkomulagið er í dag einoka stærri framboð víða málefnavinnuna. Það sem verra er er að skilningur á lýðræðislegum leikreglum er nokkuð almennt ekki meiri en svo að það þykir bara sjálfsagt að útiloka minni framboð frá þátttöku í undirbúningsvinnu. Lýðræðið fer því fyrir lítið og meirihlutaræði eða öllu heldur stjórnmál kúgunar tryggja sig í sessi.

Frá sjónarhóli jafnræðis verður ekki séð hvernig slík vinnubrögð geta viðgengist mikið lengur. Allavega er nokkuð ljóst að á meðan að þessi grunnstoð lýðræðisins öðlast ekki meira vægi í stjórnmálastarfi verður því takmarki seint náð að innleiða samræðustjórnmál á Íslandi. Íbúahreyfingin bíður því spennt eftir niðurstöðu landsþings.

Pin It on Pinterest