Í hvernig bæ viljum við Mosfellingar búa? Ætlum við að vera úthverfi í Reykjavík eða sjálfstætt bæjarfélag með sterkan staðarbrag? Hingað til hefur slagorðinu „Sveit í borg“ og hugmyndinni um heilsueflingarbæinn verið haldið á lofti. En hvað blasir við ferðalöngum sem keyra í gegnum bæinn okkar? Jú, helstu kennileitin eru firmamerki skyndibitastaða og bensínstöðva.
Mikil gróska er í listalífi Mosfellsbæjar, umhverfið veitir innblástur og tækifæri til listsköpunar eru fjölmörg. Þetta þekki ég af eigin raun en ég hef búið og starfað í bænum í tvo áratugi. Ég hef komið að ýmsum menningarviðburðum og á síðasta kjörtímabili var ég varafulltrúi Íbúahreyfingarinnar í menningarmálanefnd og kynntist menningarmálunum frá þeirri hlið.
Það styrkir ímynd sveitafélagsins að inntak sköpunar spretti úr því félagslega umhverfi sem við hrærumst í ásamt náttúru þess og sögulegri arfleið. Til að efla hinn félagslega þátt þarf að hafa stað til að vera á. Einn slíkur er Bókasafn Mosfellsbæjar en þar er hægt að hitta sveitunga, setjast niður við borð, fá sér kaffisopa og lesa blöð eða bækur. Listunnendur geta einnig notið listar í Listasalnum og öll höfum við tækifæri til þess að spjalla við starfsfólk um daginn og veginn. Íbúahreyfingin leggur áherslu á að þetta góða starf verði stutt enn frekar í framtíðinni enda menningarperla í þjónustukjarnanum.
Hins vegar vantar sameiginlegan vettvang þar sem hægt er að skapa list og menningu, vettvang þar sem félagsskapur og sköpun tengjast. Við í Íbúahreyfingunni viljum öflugra samráð við íbúa um menningarmál og nú þegar leigusamningur staðarhaldara Hlégarðs verður ekki framlengdur er tækifæri til að finna nýtt hlutverk fyrir félagsheimili Mosfellinga. Íbúahreyfingin hefur lagt til að íbúar hafi beinni aðgang að Hlégarði. Okkar hugmynd er setja saman vinnuhóp til að fara yfir hugmyndir um nýtingu Hlégarðs og efna síðan til íbúasamráðs og jafnvel kosninga um framtíðarhlutverk hans.
Þá eru húsnæðismál tónlistarskólans ekki frágengin eftir að leigusamningur um húsnæði í Þverholti rennur út og við í Íbúahreyfingunni teljum heppilegt að færa tónlistarkennslu nær grunnskólunum og tengja hana þannig betur skóladegi nemenda. Þá má benda á að reglulega koma fram efnilegir tónlistarmenn í bænum en æfingahúsnæði sárvantar fyrir fyrir þá.
Íbúahreyfingin leggur áherslu á að styrkjaumhverfi menningarmála sé endurskoðað og framlag til þeirra aukið. Við teljum að menningarlíf Mosfellsbæjar bjóði upp á fjöldamörg sóknarfæri sem myndu, ef þau eru nýtt, gera bæinn okkar bæði betri og skemmtilegi. Slík þróun gæti líka stuðlað að menningartengdri atvinnusköpun í bæjarfélaginu.
Hildur Margrétardóttir