Samningur um Blikastaðaland – Rauð viðvörun

Samningur um Blikastaðaland – Rauð viðvörun

RISAVAXINN SAMNINGUR GERÐUR VIÐ EINKAFYRIRTÆKI KORTERI FYRIR KOSNINGAR – RAUÐ VIÐVÖRUN I
Í þessu máli vekur athygli að ekki virðist hafa verið efnt til samkeppni meðal arkitekta um hönnun skipulags í Blikastaðalandi.
Líka virðist íbúasamráð hafa farið forgörðum. Snemma í skipulagsferlinu ber þó sveitarstjórn að kanna vilja bæjarbúa. Umrætt skipulagssvæði þekur jú hvorki meira né minna en 87 hektara lands. Svæðið býður því upp á mikla möguleika sem íbúar eru líklegri en aðrir til að koma auga á og leggja í púkk hönnuða.
En af fréttum að dæma er augljóst að þarna stýra fjármagnseigendur málum, sveitarstjórnin með skipulagsvaldið, sem á að gæta almannahagsmuna, trítlar niðurlút þeim við hlið og skrifar undir samning áður en samtalið hefst við íbúa.
Að samningur skuli vera undirritaður um þetta risavaxna verkefni korteri fyrir kosningar vekur hreint út sagt óhug um framtíð þess.
SAGAN HRÆÐIR
Saga meirihluta D- og V-lista í skipulags- og framkvæmdamálum í Mosfellsbæ hræðir. Við höfum heyrt öll fögru fyrirheitin um vistvæna byggð áður. Dapurlega lítið af þeim hefur staðist.
SMÁ UPPRIFJUN MISTAKA
Helgafellslandið og hrunið. Þar varð stærsta gjaldþrot sögunnar í byggingariðnaði. Tíminn í kjölfarið einkenndist af endalausum skipulagsbreytingum og dekri við vildarvini og einkaaðila á kostnað ásýndar byggðarinnar og lífsgæða íbúa.
Svo kom Prima Care og erlent einkasjúkrahús í eigu skúffufyrirtækis með pósthólf á afviknum stað í Hollandi. Þjóðin hafði vart við að trúa.
Nú síðast steinsteypuvirkin og alltumlykjandi malbiksbreiður í miðbænum, þ.m.t. við Sunnukrika og Bjarkarholt, samkrullið við Upphaf (GAMMA), Kviku o.s.frv.
KJÓSENDUR HAFA FRAMTÍÐINA Í HÖNDUM SÉR
Er ekki komið nóg? Kominn tími til að slá botninn í þessa sorgarsögu 14. maí?
Gera Blikastaðaland að landi hinna raunverulegu tækifæra íbúum í nútíð og framtíð til heilla?

AFLEIÐINGAR SAMNINGS UM UPPBYGGINGU Í BLIKASTAÐALANDI FYRIR LÝÐRÆÐIÐ – RAUÐ VIÐVÖRUN II
Með samningi um uppbyggingu í Blikastaðalandi nú korteri fyrir kosningar er meirihluti D- og V-lista ekki einungis að binda hendur komandi bæjarstjórnar, heldur líka að takmarka rétt íbúa til að hafa áhrif á skipulagsgerðina í gegnum lögbundið aðal- og deiliskipulagsferli. Samningar eru bindandi og skýrt að samningnum sem verið var að undirrita má ekki breyta nema með samþykki beggja samningsaðila.
Samningurinn felur nefnilega í sér ákveðnar skipulagsforsendur. Hvorki vilji íbúa, né heldur þess meirihluta sem myndaður verður eftir kosningar getur breytt samningsbundnum forsendum nema Blikastaðaland ehf. veiti samþykki sitt.
Frelsi íbúa til að nota sinn lögbundna rétt til að koma sjónarmiðum sínum að hefur því verið takmarkað og pólitískt umboð verðandi meirihluta sömuleiðis.
Sú spurning er áleitin af hverju bæjarstjórinn fráfarandi lét sér ekki nægja að undirrita viljayfirlýsingu, eins og upphaflega stóð til. Það væri alltént lýðræðislegi hátturinn.
BÆJARSTJÓRINN EINRÁÐI SETUR FJÖLSKIPAÐA BÆJARSTJÓRN ÚT Í KULDANN
Hvernig staðið var að vali á fulltrúum í stýrihópinn sem bæjarstjóri sjálfur fer fyrir og rýnihópa undirmanna hans vekur upp spurningar. (Frumkvæði að stofnun þessara hópa kom að sögn frá landeigendum. Það gæti skýrt ýmislegt en réttlætir ekki ólýðræðislega samsetningu hópanna.)
Enginn fulltrúi minnihlutans átti sæti í þessum hópum og heldur ekki íbúa.
Lýðræðislega leiðin í þessu spennandi verkefni hefði verið að mynda stýrihóp allra framboða í bæjarstjórn og skapa áhuga á verkefninu meðal íbúa. Embættismenn hefðu eins og vera ber verið þeim til fulltingis.
FÖGUR FYRIRHEIT BREIÐA YFIR LÝÐRÆÐISHALLANN
Fyrirheit um vistvæna byggð í samspili við náttúruna eru vissulega lokkandi. Hreinasta draumsýn! Sagan kennir okkur þó að hún gæti verið tálsýn.
Ólýðræðisleg vinnubrögð eru heldur ekki líkleg til að skapa traust. Þau rýra það og grafa undan lýðræðinu. Það hvernig meirihluti D- og V-lista stendur hér að málum er skólabókardæmi um vonda stjórnarhætti. Það hefði verið sterkt að sjá alla fulltrúa minnihlutans hafna þeim.
L-LISTI GREIDDI EINN ATKVÆÐI GEGN SAMNINGNUM
Fulltrúar M-, S- og C-lista sátu hjá við afgreiðslu samningsins. Fulltrúar D- og V-lista gáfu honum sín atkvæði. Eini bæjarfulltrúinn sem mælti á móti var fulltrúi L-lista.
Mikið hefði það nú verið sterkt að sjá minnihlutann fara að dæmi L-lista og hafna gerræðinu afdráttarlaust. Það á sér þó vonandi einhverjar skýringar í því hvað stutt er til kosninga og erfitt að koma réttum upplýsingum um ástæður þess að hafna samningi til kjósenda, þ.e. að það að hafna samningi þýði ekki að framboðin séu á móti uppbyggingu í Blikastaðalandi.
Gott væri að fá skýr svör við því frá M-, S- og C-lista af hverju fulltrúar þeirra sátu bara hjá.

Birt á FB-síðunni Íbúar í Mosfellsbæ 6. og 8. maí.

Pin It on Pinterest