Á kjördegi 2014

Kjörstaður vegna bæjarstjórnarkosninganna er í Lágafellsskóla við Lækjarhlíð og stendur kjörfundur frá kl. 09-22. Aðsetur yfirkjörstjórnar á kjördag verður á sama stað. Munið efitr að hafa með ykkur skilríki.
Ef þig vantar akstur á kjörstað hringdu í síma 866-9376.
Kosningavaka Íbúahreyfingarinnar verður á Ásláki og hefst kl. 21.30. Allir eru velkomnir!
Við minnum á að algengasta ástæðan fyrir því að kjörseðlar eru ógildir er sú að fólk merkir við einn lista en strikar svo frambjóðanda út á öðrum lista. Þó að mikil umræða hafi verið um persónukjör hefur engum lögum verið breytt í þá átt og því má fólk bara kjósa einn lista og heimilt er að strika út af honum. Svo segir í lögum um kosningar til sveitarstjórna:
▪ 58. gr. Kjósandi greiðir atkvæði við bundnar hlutfallskosningar á þann hátt að hann markar með ritblýi kross á kjörseðilinn fyrir framan bókstaf þess lista sem hann vill kjósa af þeim sem í kjöri eru.
▪ Vilji kjósandi breyta nafnaröð á lista þeim er hann kýs setur hann tölustafinn 1 fyrir framan það nafn er hann vill hafa efst, töluna 2 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa annað í röðinni, töluna 3 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa það þriðja o.s.frv., að svo miklu leyti sem hann vill breyta til.
▪ Ef kjósandi vill hafna frambjóðanda á þeim lista sem hann kýs strikar hann yfir nafn hans.
▪ 59. gr. Atkvæðagreiðsla við óbundnar kosningar fer fram með þeim hætti að kjósandi skrifar í kjörklefa á kjörseðilinn fullt nafn og heimilisfang aðalmanna á þann hluta kjörseðilsins sem ætlaður er fyrir kjör aðalmanna.
▪ Á þann hluta seðilsins sem ætlaður er fyrir kjör varamanna skal hann rita nöfn varamanna og heimilisföng þeirra í þeirri röð sem hann kýs að þeir taki sæti allt að þeirri tölu sem kjósa á.
▪ 60. gr. Kjósandi gætir þess, hvernig sem hann kýs, að gera engin merki á kjörseðilinn fram yfir það sem segir í lögum þessum.
▪ 61. gr. Kjósandi má ekki hagga neitt við listum sem hann kýs ekki, hvorki strika yfir nöfn á þeim né breyta á þeim nafnaröð.

Mosfellsk menning

Í hvernig bæ viljum við Mosfellingar búa? Ætlum við að vera úthverfi í Reykjavík eða sjálfstætt bæjarfélag með sterkan staðarbrag? Hingað til hefur slagorðinu „Sveit í borg“ og hugmyndinni um heilsueflingarbæinn verið haldið á lofti. En hvað blasir við ferðalöngum sem keyra í gegnum bæinn okkar? Jú, helstu kennileitin eru firmamerki skyndibitastaða og bensínstöðva.
Mikil gróska er í listalífi Mosfellsbæjar, umhverfið veitir innblástur og tækifæri til listsköpunar eru fjölmörg. Þetta þekki ég af eigin raun en ég hef búið og starfað í bænum í tvo áratugi. Ég hef komið að ýmsum menningarviðburðum og á síðasta kjörtímabili var ég varafulltrúi Íbúahreyfingarinnar í menningarmálanefnd og kynntist menningarmálunum frá þeirri hlið.
Það styrkir ímynd sveitafélagsins að inntak sköpunar spretti úr því félagslega umhverfi sem við hrærumst í ásamt náttúru þess og sögulegri arfleið. Til að efla hinn félagslega þátt þarf að hafa stað til að vera á. Einn slíkur er Bókasafn Mosfellsbæjar en þar er hægt að hitta sveitunga, setjast niður við borð, fá sér kaffisopa og lesa blöð eða bækur. Listunnendur geta einnig notið listar í Listasalnum og öll höfum við tækifæri til þess að spjalla við starfsfólk um daginn og veginn. Íbúahreyfingin leggur áherslu á að þetta góða starf verði stutt enn frekar í framtíðinni enda menningarperla í þjónustukjarnanum.
Hins vegar vantar sameiginlegan vettvang þar sem hægt er að skapa list og menningu, vettvang þar sem félagsskapur og sköpun tengjast. Við í Íbúahreyfingunni viljum öflugra samráð við íbúa um menningarmál og nú þegar leigusamningur staðarhaldara Hlégarðs verður ekki framlengdur er tækifæri til að finna nýtt hlutverk fyrir félagsheimili Mosfellinga. Íbúahreyfingin hefur lagt til að íbúar hafi beinni aðgang að Hlégarði. Okkar hugmynd er setja saman vinnuhóp til að fara yfir hugmyndir um nýtingu Hlégarðs og efna síðan til íbúasamráðs og jafnvel kosninga um framtíðarhlutverk hans.
Þá eru húsnæðismál tónlistarskólans ekki frágengin eftir að leigusamningur um húsnæði í Þverholti rennur út og við í Íbúahreyfingunni teljum heppilegt að færa tónlistarkennslu nær grunnskólunum og tengja hana þannig betur skóladegi nemenda. Þá má benda á að reglulega koma fram efnilegir tónlistarmenn í bænum en æfingahúsnæði sárvantar fyrir fyrir þá.
Íbúahreyfingin leggur áherslu á að styrkjaumhverfi menningarmála sé endurskoðað og framlag til þeirra aukið. Við teljum að menningarlíf Mosfellsbæjar bjóði upp á fjöldamörg sóknarfæri sem myndu, ef þau eru nýtt, gera bæinn okkar bæði betri og skemmtilegi. Slík þróun gæti líka stuðlað að menningartengdri atvinnusköpun í bæjarfélaginu.

Hildur Margrétardóttir

Allt upp á borð – Kjósum X-M

Íbúahreyfingin tók sæti í fulltrúaráði Eirar haustið 2010. Eitt af því fyrsta sem Guðbjörg Pétursdóttir fulltrúi okkar gerði var að óska eftir því að fá að sjá fundargerðir stjórnar Eirar. Hún bað líka um að fá í hendur ársreikningana. Þessu var hafnað.
Nú upphófst mikið argaþras sem að lokum leiddi til þess að nokkrir fulltrúar tóku sig saman og upplýstu fjölmiðla um stjórnarhætti á Eir. Þá grunaði ekki að búið væri að veðsetja íbúðir íbúðarétthafa í öryggisíbúðum upp í rjáfur án þeirra vitneskju.
Það má geta þess að fulltrúi Sjálfstæðisflokks Mosfellsbæjar í stjórn Eirar, Hafsteinn Pálsson, staðhæfði við Guðbjörgu að þetta væri nú bara elliheimili þar sem allt væri í lagi. Annað koma á daginn.
Þetta dæmi sýnir að ekkert er mikilvægara en gegnsæi í rekstri og það skiptir máli hverjir stjórna.
Þessi greinarstúfur er prentaður í dreifiriti Íbúahreyfingarinnar, Framboð með framtíð.

Spyrjum að leikslokum kjósandi góður

Nýlega birti Félagsvísindastofnun skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokka í Mosfellsbæ. Könnunin fór af stað áður en Íbúahreyfingin kynnti sitt framboð og gefa niðurstöður sem sýndu um 7% fylgi því ekki rétta mynd. Í síðustu kosningum fékk Íbúahreyfingin 15,2% atkvæða og varð þar með annað stærsta stjórnmálaaflið í Mosfellsbæ. Þann titil ætlum við svo sannarlega að verja og gott betur í kosningunum nk. laugardag.
Undanfarnar vikur hefur Íbúahreyfingin unnið að því hörðum höndum að kynna áherslur sínar og verkefni sl. fjögur ár fyrir kjósendum. Þeir sem standa að framboðinu skiluðu góðu dagsverki á kjörtímabilinu og stóðu við kosningaloforð sín, þ.e. að koma á framfæri áherslum sínum í lýðræðis- og gegnsæismálum við hvert tækifæri á vettvangi bæjarmála. Það sem skiptir mestu máli er að láta verkin tala. Stefnumótun er ágæt út af fyrir sig en það vill brenna við hjá stjórnmálaflokkum í Mosfellsbæ að hún sé bara í orði en ekki á borði og þannig vinnubrögðum viljum við breyta.
Sýn Íbúahreyfingarinnar á bæjarmálin er skýr. Fyrst þarf að búa til réttu innviðina til að festa lýðræðið í sessi, síðan að byggja upp á grundvelli langtímasjónarmiða í samráði við íbúa. Í forgrunni allrar vinnu er mannvirðing, réttlæti, hagkvæmni, heiðarleiki og umhyggja fyrir náttúruauðlindum sem þjónar velferð bæjarbúa og reyndar mannkynsins alls. Við í Íbúahreyfingunni leggjum sömuleiðis megináherslu á opið, nútímalegt bæjarfélag þar sem allt er upp á borði því aðeins þannig er hægt að tryggja jafnræði allra íbúa og skynsamlega ráðstöfun fjár.
Íbúahreyfingin er óháð íbúaframboð. Við lofum ekki 1000 störfum eða stórum köstulum í aðdraganda kosninga en kjósendur geta treyst því að við munum vinna áfram af alúð og trúmennsku á vettvangi bæjarmála á komandi kjörtímabili.
Íbúahreyfingin hvetur stuðningsmenn til að fjölmenna á kjörstað og tryggja með því helstu þjóðþrifamálum samtímans trausta og vinnusama talsmenn á vettvangi bæjarmála í Mosfellsbæ.
Sérhvert atkvæði getur ráðið úrslitum — það eru ekki ýkjur. 🙂
Setjum X við M á kjördag.

Sigrún H Pálsdóttir

Kosning utan kjörstaðar í fullum gangi

Íbúar á höfuðborgarsvæðinu geta nú kosið utan kjörstaðar í Laugardagshöllinni ALLA daga kl. 10.00-22.00. Íbúahreyfingin hvetur þá sem ekki verða heima á kjördag til að nýta tækifærið og kjósa í Laugardalshöllinni.

Hvert atkvæði telur og stundum getur munað 1 atkvæði á frambjóðendum í kosningum.

X við M og Íbúahreyfingin gerir sitt til að kippa Mosfellsbæ inn í 21. öldina.

Pin It on Pinterest