Tenging vélaverkstæðis í Hafnarfirði við lóðakaup hér

Tenging vélaverkstæðis í Hafnarfirði við lóðakaup hér

Hvernig tengist Vélaverkstæði Hjalta Einarssonar (VHE) í Hafnarfirði fasteignaverkefnum í Mosfellsbæ?

Það fyrsta sem kemur upp í hugann er að Gunnar Ármannsson er lögfræðingur VHE. Hann fór fyrir Primacare-verkefninu í Mosfellsbæ 2009, auk þess að fá leyfi bæjarráðs 2016 til að byggja einkasjúkrahús á 12 hekturum lands við Sólvelli í Reykjahverfi. Samstarfsaðilinn var  skúffufyrirtæki í Eindhoven í Hollandi.

Ef marka má Kveik vikunnar (24.03.20) er vélaverkstæðið sem Gunnar starfar hjá nú grunað um að hafa greitt framkvæmdastjóra fasteignasjóðsins Upphafs mútur. Svo vill til að bæjarráð úthlutaði einmitt því félagi lóðir til að byggja á annað hundrað íbúðir í miðbæ Mosfellsbæjar sama ár og tekin var ákvörðun um byggingu einkasjúkrahúss, þ.e. 2016.

Sjóðir Upphafs tómir

Til upprifjunar var Upphaf/Novus einn af sjóðum GAMMA sem var seldur Kviku í fyrravor. Uppistaðan í eign félagsins voru lóðir og íbúðir í byggingu við Bjarkarholt/Háholt og víðar. Seinnihluta síðasta árs kom síðan í ljós að sjóðurinn hafði skroppið saman um 5,360 milljónir. Það eina sem eftir var í félaginu voru 40 milljónir. Sala íbúða hafði brugðist.

Brotlending verkefna

Það er umhugsunarefni hversu illa fer fyrir þeim uppbyggingarverkefnum sem bæjarráð Mosfellsbæjar tekur sér fyrir hendur. Skemmst er að minnast fimm milljarða gjaldþrots Helgafellsbygginga sem var samstarfsaðili Mosfellsbæjar um uppbyggingu í Helgafellshverfi fyrir hrun. Verkefnin Primacare 2009, einkasjúkrahús 2016 og síðan heilsuþorp 2017 við Sólvelli hafa öll runnið út í sandinn vegna skorts á fjárhagslegu bolmagni og spurning hvað verður um sölu á íbúðum í miðbæ bæjarins með ekki traustari grunn en raun ber vitni.

Fjárhagslegt bolmagn í pólitískt mat

Svo virðist sem bæjarráð rannsaki ekki fjárhagslega getu umsækjenda um lóðir með fullnægjandi hætti áður en gengið er til stórra samninga. Því til staðfestingar er þessi saga brotlendinga. Draumsýn pólitíkusa virðist ráða för. 

Lýsandi fyrir viðhorfin sem ráða ríkjum í Kjarna er líka sú ákvörðun bæjarstjórnar 2017 að breyta úthlutunarreglum á þann veg að horfið er frá þeirri skýlausu kröfu að umsækjandi um lóð leggi fram greiðslumat frá viðskiptabanka eða fjármálastofnun sem sýnir fram á að umsækjandi ráði við fjárfestinguna. Þess í stað setur bæjarráð nú umsækjendum “viðmið hverju sinni” sem þýðir að umsóknir um lóðir fara í pólitískt greiðslumat. 

Íbúahreyfingin setti sig á móti þessari breytingu því ef eitthvað er, ætti að styrkja og útfæra þessar reglur mun betur. Það er ekkert hald í þeim sé litið til hagsmuna sveitarfélagsins sjálfs. 

Rannsóknarverkefni

Af hverju svo margir þræðir uppbyggingarverkefna í Mosfellsbæ liggja til vélaverkstæðis í Hafnarfirði er spurning sem dómstólar eða okkar góðu rannsóknarblaðamenn eiga ugglaust eftir að svara. Hingað til hafa framboðin sem skipa bæjarstjórn sofið á verðinum. Öll nema Íbúahreyfingin.

Sigrún H Pálsdóttir

Raunverulegir eigendur enn á huldu í Mosfellsbæ

Raunverulegir eigendur enn á huldu í Mosfellsbæ

Nú eru lög um skráningu á raunverulegum eigendum komin til framkvæmda sem er vel. Eitthvað virðist þó undarlega að lagasetningunni staðið. Á meðan félögum, eins og foreldrafélögum sem eiga lítið undir sér, er gert skylt að gera grein fyrir raunverulegum eigendum eru lögaðilar sem skráðir eru á hlutabréfamarkaði og hafa til þess burði að ráðstafa miklum fjármunum á undanþágu frá skráningu. 

Og hvernig snertir þetta Mosfellinga? 

Starfsmenn fjármálafyrirtækis skráðir raunverulegir eigendum

Sunnubær ehf., félag í vörslu Kviku, á lóðir við Sunnukrika þar sem verið er að reisa heilsugæslustöð. Skv. skráningu á vef fyrirtækjaskrár er búið að skrá raunverulegt eignarhald félagsins og eru það starfsmenn Kviku sem nú sem endranær eru skráðir “raunverulegir eigendur”. Hina raunverulegu eigendur, viðskiptavini Kviku, er hins vegar hvergi að finna á vef fyrirtækjaskrár undir raunverulegum eigendum. Starfsmenn Kviku verða því áfram skjöldur raunverulegra eigenda lóðanna í Sunnukrika.

Raunverulegt eignarhald áfram á huldu

Glufan til að ástunda spillingu, sem lögin eiga að koma í veg fyrir, er sem sagt enn opin. Þetta þýðir að opinberum aðilum, eins og sveitarfélögum, verður áfram heimilt að afhenda her huldufólks lóðir, án þess að upplýsa íbúa um raunverulegt eignarhald. Sú glufa er því enn opin að ráðstafa eignum og verkefnum sveitarfélagsins á ógegnsæjan hátt. Sömuleiðis verður jafn ómögulegt og fyrr að sannreyna pólitísk tengsl og þar með siðferði á bak við viðskipti sveitarfélagsins við lögaðila.
Ekkert útboð á framkvæmdum

Þegar lóðum er ráðstafað til félaga sem þessara tekur við lokað ferli. Eins og í þessu tilviki fela eigendur raunverulegt eignarhald á bak við starfsmenn bankans, auk þess sem ekki þarf að efna til útboðs um framkvæmdirnar o.fl. Vel má vera að til þess hafi leikurinn verið gerður, þ.e. að raunverulegir viðskiptavinir Kviku hafi keypt lóðirnar til að skapa sjálfum sér og/eða vildarvinum sínum verkefni.

Af hverju þessi leynd?

Stóra spurningin er því eftir sem áður sú sama: Af hverju stundar fjölskipuð bæjarstjórn Mosfellsbæjar fasteignaviðskipti við huldufólk? Er einhver ástæða fyrir því? Hvað er það sem þarf að fela?
Sama fyrirkomulag var viðhaft þegar lóðum við Bjarkarholt/Háholt var ráðstafað. Þar var sællar minningar í aðalhlutverki GAMMA sem er fyrirtæki nátengt Kviku. Ef marka má fréttir er eignarhald þess félags að mestu á huldu en þó ljóst að í það mál eru félagar í Sjálfstæðisflokknum margflæktir.

Pin It on Pinterest