Ný stjórn Íbúahreyfingarinnar

Ný stjórn Íbúahreyfingarinnar

Á aðalfundi 26. maí kaus Íbúahreyfingin sér nýja stjórn og er hún skipuð eftirtöldum félögum:

Formaður: Birta Jóhannesdóttir
Gjaldkeri: Jón Sævar Jónsson
Meðstjórnandi: Hildur Margrétardóttir
Meðstjórnandi: Hjördís Bjartmars
Meðstjórnandi: Sigrún Guðmundsdóttir
Varamaður: Úrsúla Jünemann
Varamaður: Gunnlaugur Johnson

Stjórn mun skipta með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi.

Aðalfundur Íbúahreyfingarinnar

Aðalfundur Íbúahreyfingarinnar

LýðræðiAðalfundur Íbúahreyfingarinnar verður haldinn í glerbúri Bókasafns Mosfellsbæjar í Kjarna þriðjudaginn 26. maí kl. 16.30 til 17.50.

Á dagskrá fundarins eru venjuleg aðalfundarstörf.

Mér þykir vænt um þennan skóla

Mér þykir vænt um þennan skóla

ursulaFyrir meira en 30 árum fluttum við hjónin í Mosfellssveit eins og sveitarfélagið hét þá. Á þeim tíma gat maður fest kaup á húsnæði sem var talsvert ódýrara en í Reykjavík. Okkar börn ólust upp hér í bænum og fengu sína grunnskólamenntun í Varmárskóla. Þá var þetta eini skólinn á staðnum.

Ég hef alltaf unnið hér í bænum. Fyrst í leikskólanum Hlíð og sem stundakennari í Gagnfræðaskólanum eins og eldri deild Varmárskólans hét þá.
Ört vaxandi sveitarfélag varð að bæjarfélagi. Það hafði ekki undan við að skapa rými fyrir öll skólabörnin. Varmárskólinn var tvísetinn, kennsla bæði fyrir og eftir hádegi. Ég var þá þegar starfandi sem myndmenntakennari. Á þeim tíma þekkti ég ennþá öll börnin í bænum því ég kenndi þeim öllum í mínu fagi á yngra stigi. Svo var byggt við skólann sem var forsendan til þess að gera hann einsetinn. Mér þótti æðislegt að fá almennilega fagstofu fyrir myndmennt sem var ekki í kjallaranum. Góð birta og nægilegt rými. Því miður eru margar fagstofur ennþá í dag í kjallara sem telst ekki vera gott húsnæði.
Árið 2001 voru Gagnfræðaskólinn og Varmárskólinn sameinaðir í einn skóla og þar með varð til einn stærsti grunnskóli á landinu.
En bæjarfélagið stækkaði áfram eins og allar spár gerðu reyndar ráð fyrir. Útibú Varmárskólans á vestursvæði varð til. Og svo reis Lágafellsskólinn loksins sem sjálfstæður skóli. Krikaskólinn bættist við á sérstökum forsendum. En bæjarfélagið stækkar ennþá hratt og einhvernveginn virðumst við alltaf vera á eftir þróuninni í skólamálum. Bráðarbirgðarskúrar hafa skreytt Lágafellsskólann lengi vel og sama virðist í nánari framtíð vera upp á teningum í Varmárskóla.
Mér þykir vænt um þennan skóla þar sem ég er búin að vinna í meira en 20 ár. Þetta er vinalegur skóli með góðu starfsfólki og faglegri starfsemi þar innan veggja. Nemendafjöldin er kominn að vísu fyrir löngu upp fyrir það sem þykir æskilegast. Þetta gerir allt skipulag erfitt og álagið eykst bæði á starfsfólk og nemendur.
Mér þykir mjög vænt um þennan skóla þar sem börnin mín fengu góða menntun. Og mér sárnar hve lítið er áætlað í viðhald, bætur og rekstur í þennan skóla. Hann er orðinn rúmlega 50 ára og með meira en 700 nemendur í frekar þröngum húsakosti. Það segir sig sjálft að hann þarf á talsverðu fjármagni í endurbætur að halda. Ætli forgangsröðun sé ekki eitthvað skökk í fjárhagsáætlun bæjarins þar sem styrkir til gólfklúbbsins virðist vera hærra en það sem er áætlað til viðhalds í Varmárskóla?
Ekki er ennþá gert ráð fyrir öðrum varanlegum skóla miðsvæðis í Mosfellsbænum að svo stöddu. Ég leyfi mér að spyrja: Hvers vegna ekki? Eru bráðarbirgðarlausnir virkilega ódýrarar þegar upp er staðið? Er ekki tími kominn til að sinna skólamálunum í Mosfellsbænum betur en með einhverjum reddingum? Setjum skólamálin í fyrsta sæti!

Úrsúla Jünemann

Um birtingu fundargagna á vef Mosfellsbæjar

gognavefNýverið tók bæjarráð Mosfellsbæjar aðra umræðu um birtingu gagna með fundargerðum á vef. Eins og áður hefur komið fram er gleðiefni að rafræn birting fundargagna skuli vera komin á framkvæmdastig því henni fylgir mikið hagræði fyrir almenning sem getur framvegis sótt þau gögn sem hann vanhagar um á vefinn. Með því að veita rafrænan aðgang að fundargögnum er einnig verið að draga úr álagi á stjórnsýsluna sem hingað til hefur afgreitt gögn eftir beiðni.
Í málum sem þessu hefur framkvæmdin mikla þýðingu. Íbúahreyfingin hefur því gert við hana athugasemdir sem fallið hafa í grýttan jarðveg hjá hinum framboðunum.
Tillaga Íbúahreyfingarinnar gengur út á að birting gagna á vef taki í einu og öllu mið af upplýsingalögum sem þýðir að öll gögn sem almenningur á rétt á að fá aðgang að skuli birt á vefnum. Það að birta sumt og annað ekki er líklegt til að valda tortryggni, auk þess sem það gefur tilefni til óöryggis um hvort gögn á vef gefa tæmandi upplýsingar um þau mál sem um ræðir sem aftur þýðir óþægindi fyrir þá sem eru að kynna sér mál og aukið álag á stjórnsýsluna o.fl..
Annar og ekki síður mikilvægur þáttur varðar úrvinnsluna. Þegar reglur um birtingu voru kynntar í bæjarstjórn voru það formenn nefnda, þ.e. fulltrúar meirihlutans sem áttu að gegna því embætti að velja gögn til birtingar á vef. Íbúahreyfingin gerði verulegar athugasemdir við þessa ráðstöfun því þar með væri málið sett í farveg sem væri enn og aftur til þess fallinn að vekja efasemdir um faglega framkvæmd og ala á tortryggni. Af umræðum á fundinum í morgun mátti ráða að fulltrúar í bæjarráði telja sig upp til hópa þess umkomna að meta gögn til birtingar. Samt er löggjöf um upplýsingamál flókin og  ljóst að kjörnir fulltrúar hafa ekki endilega þá sérþekkingu sem þarf til að meta hvað skuli birta og hvað ekki. Það hefur hins vegar fagleg og til þess bær stjórnsýsla.
Þrátt fyrir að nú sé búið að samþykkja reglurnar er framkvæmdin enn óljós. Upp komu hugmyndir um að formenn legðu ákvarðanir um birtingu gagna í dóm nefndanna og í tilteknum málum yrði þá leitað aðstoðar lögmanns bæjarins. Eftir umræðuna á fundinum í morgun verður ekki hjá því komist að álykta að málið sé ekki nógu vel undirbúið. Að mati Íbúahreyfingarinnar ætti hlutverkaskiptingin milli stjórnsýslu og kjörinna fulltrúa að vera skýr og málsmeðferðin hafin yfir allan vafa um hentistefnu og fálmkennd vinnubrögð. Kjörnir fulltrúar hafa í nægu að snúast og óþarfi að þeir séu að vasast í málum sem beinlínis kalla á sérfræðiþekkingu og geta varðað refsingu.
Í þessu máli felst gullið tækifæri til að efla stjórnsýslu Mosfellsbæjar og feta enn frekar inn á braut vandaðrar stjórnarhátta. Af hverju ekki að nýta það í stað þess að skilja annars gott framtak eftir í pólitískum átakafarvegi?
Þess ber að lokum að geta að Íbúahreyfingin er ekki að leggja til að gögn séu birt sem eðli málsins samkvæmt eru trúnaðargögn og varða persónulega hagi einstaklinga eða hafa að geyma viðkvæmar upplýsingar sem geta beinlínis skaðað hagsmuni fólks og fyrirtækja.
Bókun Íbúahreyfingarinnar á 1212. fundi bæjarráðs 13. maí 2015:
“Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar leggur áherslu á að farið sé í einu og öllu að upplýsingalögum þegar ákvarðanir eru teknar um birtingu fundargagna á vef Mosfellsbæjar og jafnframt að ákvarðanir um birtingu gagna verði í höndum fagfólks í stjórnsýslu sveitarfélagsins.
Að öðru leyti fagnar Íbúahreyfingin því framfaraskrefi sem í því felst að hefja birtingu fundargagna á vef bæjarins.”

Pin It on Pinterest