Mosfellsbær svarar ekki fyrirspurn um heimilisofbeldi

Mosfellsbær svarar ekki fyrirspurn um heimilisofbeldi

Í ljósi frétta um alvarlegt og aukið ofbeldi á heimilum vegna Covid 19 er vakin athygli á því að engar upplýsingar er að finna á heimasíðu Mosfellsbæjar um þjónustu sveitarfélagsins vegna heimilisofbeldis og þátttöku þess í verkefni Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu Saman gegn ofbeldi.

Fyrir þremur mánuðum síðan eða þann 9. janúar sl. sendi undirrituð Mosfellsbæ fyrirspurn um aðgerðir sveitarfélagsins í þessum málaflokki. Enn hefur ekki borist svar þrátt fyrir ítrekun 17. febrúar.

Tregða við að veita upplýsingar um starfsemi Mosfellsbæjar í heimilisofbeldismálum hefur lengi loðað við og tala ég þar út frá reynslu minni sem bæjarfulltrúi á síðasta kjörtímabili. Eins og sjá má á fyrirspurninni er ekki verið að óska eftir persónugreinanlegum upplýsingum, heldur aðgerðum sveitarfélagsins í þessum málaflokki óháð persónum.

Í von um að stíflan bresti hér fyrirspurn mín til Mosfellsbæjar dags. 8. janúar 2020.

Efni: Fyrirspurn um framgang verkefnisins Saman gegn ofbeldi, upplýsingar um heimilisofbeldi o.fl.

Í mars 2015 gerðu Mosfellsbær og Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu samstarfssamning um átak gegn heimilisofbeldi í Mosfellsbæ. Í lok sama árs var einnig undirritað samkomulag við Seltjarnarnes um þjónustuþáttinn, þ.e. bakvaktir í barnaverndar- og heimilisofbeldismálum. Ég hef áhuga á að kynna mér framgang þessara verkefna og mál þeim tengd. Til að einfalda hlutina útbjó ég spurningalista og eru spurningarnar eftirfarandi:

  • Er Mosfellsbær virkur þátttakandi í verkefninu Saman gegn ofbeldi? Ef svo er, hvar geta íbúar nálgast upplýsingar um verkefnið og framgang þess?
  • Er samkomulag við Seltjarnarnes um bakvaktir enn í gildi?
  • Veitir fjölskyldusvið þolendum heimilisofbeldis í Mosfellsbæ aðstoð í samræmi við samstarfssamning við Lögreglu höfuðborgarsvæðisins? Ef svo er í hverju felst (a) aðstoðin og (b) eftirfylgnin?
  • Vinnur Mosfellsbær eftir sérstökum verklagsreglum/-handbók í heimilisofbeldismálum? Ef svo er, hvar er hægt að nálgast þær/hana?
  • Heldur fjölskyldusvið til haga tölulegum upplýsingum um heimilisofbeldi í Mosfellsbæ? Ef já, eru þær aðgengilegar íbúum?
  • Hvar geta íbúar nálgast upplýsingar um þjónustu fjölskyldusviðs við brotaþola og gerendur heimilisofbeldis?
  • Heldur Mosfellsbær til haga upplýsingum um þá þjónustu sem Bjarkarhlíð, Kvennaathvarfið, Stígamót og Kvennaráðgjöfin veitir Mosfellingum í heimilisofbeldismálum? Ef svo er, hvar er hægt að nálgast þær?Með nýjárskveðju og fyrirfram þökk,

    Sigrún H Pálsdóttir

Pin It on Pinterest