Hagsmunagæsla meirihlutans. Fyrir hverja?

Grein eftir Kristínu I. PálsdótturÍ síðasta Mosfellingi birtist grein eftir undirritaða um meinta ólöglega sjálfskuldarábyrgð Mosfellsbæjar á láni til Helgafellsbygginga og á sömu síðu var grein frá meirihluta í bæjarstjórn um sama mál þar sem ákveðins misskilnings virðist gæta.
Íbúahreyfingin, sem dró umrædd viðskipti fram í dagsljósið, er ekki að gagnrýna meðhöndlun á viðskiptapappírum heldur þá staðreynd að Mosfellsbær er í sjálfskuldarábyrgð á 246 milljón króna láni einkafyrirtækis, Helgafellsbygginga. Í grein sinni nefna bæjarfulltrúarnir aldrei orðið sem skiptir hér öllu máli: SJÁLFSKULDARÁBYRGÐ. Sjálfskuldarábyrgð er samkvæmt skilgreiningu skuld sem ábyrgðaraðili ábyrgist sem væri hún hans eigin eða svokölluð óskipt ábyrgð, in solidum.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum er sjálfskuldarábyrgð sveitarfélaga á skuldum einkaaðila bönnuð með öllu. Um þetta ákvæði segir í áliti lögmannstofunnar Lex, á umræddri sjálfskuldarábyrgð, að ákvæði laganna sé „talið fortakslaust og ófrávíkjanlegt“. Það eru sem sagt engar undantekningar eða svigrúm til túlkunar varðandi ákvæðið. Sú túlkun meirihluta bæjarstjórnar að starfsemi verktakafyrirtækis falli undir „daglegan rekstur“ bæjarfélags er því frekar langsótt.
Þegar skrifað var undir sjálfskuldarábyrgðina var framlengt samkomulag bæjarins við Helgafellsbyggingar en í því er fjallað um hin „tryggu veð“ sem bærinn segist hafa fyrir skuldinni sem „jafngilda skuld landeigenda við bæjarfélagið“, eins og segir í greininni. Þegar samkomulagið er skoðað er ljóst að Helgafellsbyggingar hafa lagt fram einhliða verðmat á veðunum; húseignin að Brekkulandi 1 er metin á 50 milljónir og tvær fjölbýlishúsalóðir metnar á 169 milljónir hvor. Alls 388 milljónir.
Samkvæmt fasteignamati er Brekkuland 1 metið á 33,5 milljónir. Málið vandast heldur þegar mat á umræddum lóðum að Gerplustræti 1-5 og 2-4 er skoðað. Til að fá samanburð skoðaði ég sambærilega eign í hverfinu, Gerplustræti 25-27. Þar eru 24 íbúðir á lóð sem er jafn stór hinum veðsettu lóðum, um 4000m2, fasteignamat þeirrar lóðar er rúmar 53 milljónir. Heildarverðmæti veðanna er því ekki meira en 140 milljónir ef miðað er við fasteignamat. Mesta offramboð lóða sem um getur á landinu er í Mosfellsbæ svo að markaðsvirðið er væntanlegra lægra.
Til að flækja málið enn frekar hafa lóðirnar í Gerplustræti verið skráð eign Mosfellsbæjar síðan árið 2007 og þar sem byggingarréttur er ekki veðhæfur er þar varla um hæft veð að ræða.
Varðandi þátt endurskoðenda Mosfellsbæjar hefur Íbúahreyfingin lagt til „að tekið verði til sérstakrar skoðunar hvers vegna endurskoðendur gerðu engar athugasemdir á ársreikningum varðandi þessi meintu lögbrot fyrrverandi bæjarstjórnar. Draga verður faglega tortryggni endurskoðendanna í efa í ljósi þess að þeir telja sig ekki geta greint hvað teljist til daglegs reksturs, skv. umbeðnu áliti þeirra, en hér er um að ræða viðskipti sem eiga sér enga hliðstæðu í bókhaldi sveitarfélagsins.“
Miðað við hversu leynilega hefur verið farið með málið innan stjórnsýslunnar og þá staðreynd að meirihlutinn hefur tvisvar fellt tillögu Íbúahreyfingarinnar um að fá mat þar til bærra yfirvalda, þ.e. Innanríkisráðuneytisins, á lögmæti téðra gerninga er erfitt að taka undir þá útskýringu að hagsmunir almennings hafi stjórnað för. Líklegra er að hagsmunir meirihlutans í aðdraganda kosninga hafi verið teknir fram yfir.
Íbúahreyfingin lítur svo á að lögbrot geti aldrei flokkast sem hagsmunagæsla fyrir almenning.

Kristín I. Pálsdóttir,
ritari Íbúahreyfingarinnar

Greinin birtist í Mosfellingi 17. mars 2011

Tengdar greinar og annað efni:
Dýrkeypt hugmyndafræði
Birtist í Mosfellingi í febrúar 2011
Frétt á Smugan.is í febrúar 2011
Mosfellsbær í ábyrgð fyrir skuldum einkafyrirtækis Birtist í Mosfellingi í júní 2010
Saga viðskipta Mosfellsbæjar við Helgafellsbyggingar

Gagnsæi launa og samningsumboð.

Íbúahreyfingin hefur reynt að vekja athygli á ógagnsæi gagnvart launafólki, en upplýsingar um afdrif töluverðs hluta launa þess er vísvitandi haldið frá því beinlínis til þess að blekkja og koma í veg fyrir aðhald og gagnrýni.

Af þessum gjöldum má nefna greiðslur í atvinnutryggingasjóð, mótframlag í lífeyrissjóð og greiðslur í fjöldann allan af sjóðum stéttarfélaga. Í flestum nágrannalöndum okkar er þjónusta þessara sjóða á hendi ríkisins, einstaklingar greiða fyrir þjónustuna með tekjuskatti sínum. Stéttarfélög þar taka þá gjarnan þátt í að fara fram á betri samfélagsþjónustu og veita ríkisvaldinu eðlilegt aðhald ólíkt því að keppa við ríkið um samfélagsþjónustu og umsýslu sjóða.

Óhagræði þess að reka tugi sjóða með sama hlutverk hlýtur að vera öllum augljóst, en það er e.t.v. ekki öllum ljóst að launafólk hefur ekkert tækifæri til þess að fylgjast með greiðslum og veita nauðsynlegt aðhald því þessi gjöld eru þeim hulin. Svo vel tekst til í þessum feluleik að launafólk heldur jafnvel að það sé að fá “styrk” frá stéttarfélagi sínu þegar það fær úthlutað úr þessum sjóðum.

Mótframlag í lífeyrissjóð og greiðslur í tryggingasjóð veita launafólki réttindi sem það getur ekki haft eftirlit með vegna þess að það fær engar upplýsingar um þau, aðilar vinnumarkaðar og ríkið vilja kalla þessar greiðslur launatengd gjöld, jú, vissulega eru þetta launatengd gjöld en með sama hætti og önnur lífeyrissjóðsgjöld og annar tekjuskattur. Þau veita engin réttindi til launagreiðenda eða stéttarfélaga sem standast eignarréttarákvæði stjórnarskrár.

Þessi meðhöndlun gerir samanburð á beinum sköttum við önnur lönd þýðingarlausa og í því er blekkingin m.a. fólgin, að blekkja launafólk til þess að halda að skattheimta hér sé minni en hún í rauninni er.

Íbúahreyfingin hefur lagt fram tillögur bæði í bæjarstjórn og á vettvangi Sambands Íslenskra Sveitarfélaga til þess að laga þetta ástand en þær tillögur hafa verið felldar, það er enn stór hópur sem vill halda í ógagnsæi og blekkingar. Í bæjarstjórn hafa þessum tillögum verið hafnað af fulltrúum fjórflokksins gegn atkvæði Íbúahreyfingarinnar.

Íbúahreyfingin hefur ekki viljað veita Sambandi Íslenskra Sveitarfélaga samningsumboð án fyrirvara á grundvelli laga sem brjóta ákvæði stjórnarskrárinnar (t.d. Lög nr. 94/1986).

Þau skilyrði sem Íbúahreyfingin vill setja fyrir samningsumboð eru:

a. Að ekki verði samið við stéttarfélög um áframhaldandi beinar greiðslur til þeirra sem ekki komi fram á launaseðli launafólks. Hér er átt við allar greiðslur hverju nafni sem þær nefnast.

b. Að mótframlag í lífeyrissjóði verði eftirleiðis tilgreint á launaseðlum launafólks.

c. Að Samband íslenskra sveitarfélaga virði 74. grein stjórnarskrár og semji við þau félög sem óska eftir samningum en þröngvi launafólki ekki til þess að tilheyra ákveðnu félagi.

d.. Að ekki sé samið við stéttarfélög þar sem lýðræði og gagnsæi gagnvart launafólki er ekki virt, enda geta stjórnir slíkra félaga vart talist fulltrúar umbjóðenda sinna.

e.. Auk þess leggur bæjarstjórn Mosfellsbæjar til að samninganefnd komi því inn í samninga að greiðslur í atvinnutryggingasjóð verði meðhöndlaðar á sama hátt og annar tekjuskattur á launþega á launaseðli launafólks í stað þess að fela skattheimtuna og gera launafólki ókleift að fylgjast með sköttum sínum, réttindum og öðrum greiðslum.

Tillögu þessa efnis felldu allir bæjarfulltrúar fjórflokksins gegn atkvæði Íbúahreyfingarinnar.

Íbúahreyfingin stendur öllum íbúum Mosfellsbæjar opin, við hvetjum fólk til þess að taka þátt í starfinu.

Jón Jósef Bjarnason,
bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar, jonb@ibuahreyfingin.is,

Greinin birtist í Mosfellingi 17. mars 2011Grein eftir Jón Jósep Bjarnason

Pin It on Pinterest