Svör Mosfellsbæjar um villidýrasafn

Bæjarstjórn vill stofna villidýrasafnÞann 4. október sendu fulltrúar Íbúahreyfingarinnar spurningar varðandi villidýrasafn til bæjarráðs Mosfellsbæjar. Í dag bárust eftirfarandi svör:

1. Hvaða skuldbindingu hefur undirritun viljayfirlýsingarinnar í för með sér fyrir Mosfellsbæ?
Engar aðrar en fram koma í viljayfirlýsingunni.

2. Var haft samráð við Náttúruminjasafn Íslands, sem er höfuðsafn á sviði náttúrufræða samkvæmt safnalögum nr. 106 frá 31. maí 2001, Safnaráð eða aðra sérfræðinga á sviði safnamála þegar ákvörðun var tekin um stofnun safnsins, og þá hverja?
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um stofnun safns og því ekki haft samráð við neinn lögformlegan aðila vegna þess.

3. Er ætlunin að reka hér safn í skilningi safnalaga? Í 4. gr. þeirra segir m.a: „Safn er samkvæmt lögum þessum stofnun, opin almenningi, sem hefur það hlutverk að safna heimildum um manninn, sögu hans, umhverfi og náttúru landsins, standa vörð um þær, rannsaka, miðla upplýsingum og hafa þær til sýnis svo að þær megi nýtast til rannsókna, fræðslu og skemmtunar.“?
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um stofnun safns og því ekki haft samráð við neinn lögformlegan aðila vegna þess. Ekki eru forsendur til að svara því hvort hér verði um safn í skilningi safnalaga eða einhvers konar sýningu. En það má þó nokkuð skýrt lesa út úr viljayfirlýsingunni að stefnt er að því að gefa almenning kost á að njóta væntanlegra náttúrugripa, sér til ánægju og fróðleiks. Það liggur þó á engan hátt fyrir á þessu stigi máls, hvernig verður best staðið að þessu.

4. Hafa verið gerðar áætlanir varðandi kostnað við uppbyggingu og rekstur safnsins og hefur markaður fyrir slíkt safn verið kannaður? Benda má á safn á líku sviði á Stokkseyri, sérstaða og rannsóknarhluti þess safns felst þó í byssusafni.
Ekki hafa verið gerðar áætlanir varðandi kostnað, en það er gert ráð fyrir að það verði hluti af fyrstu athugun á hugmyndinni.

5. Telur bæjarráð að stofnun safnsins samræmist drögum að menningarstefnu Mosfellsbæjar? Í drögunum er lögð áhersla á framsækni menningarstofnana, samráð við íbúa um viðhorf þeirra og óskir, og að menningarstofnanir stuðli að varðveislu menningararfleifðar í Mosfellsbæ.
Veldur hver á heldur, og að sjálfsögðu er það hugmynd Mosfellsbæjar að þessi hugmynd þróist yfir í að verða framsækið verkefni og verði þannig í fallegri hrynjandi með menningarstefnu Mosfellsbæjar. Benda má á að komi safnið eða sýningin til að þjóna yngstu aldurshópunum, þá er almennt talið innan ferðaþjónustu að vöntun sé á söfnum eða sýningum sem sniðin eru fyrir börn og ungmenni eða barnafjölskyldur. Umræður um verkefnið í nefndum bæjarins hefur enn ekki farið fram og ekki hefur verið ákveðið með hvaða hætti verkefni sem þetta verði gert að almenningseign, hvorki með umræðum eða könnunum. En ef vitnað er í menningarstefnu þá fellur safn eða sýning að ofangreindum toga einna helst undir eftirfarandi meginmarkmið: „Mosfellsbær leggi áherslu á að nýta menningu til tengsla og samskipta við umheiminn og leiti skapandi strauma til eflingar samfélagi og atvinnulífi.”

6. Uppfylla gripirnir sem rætt er um í viljayfirlýsingunni skilyrði siðareglna Alþjóðaráðs safna (ICOM)? Í siðareglunum eru t.d. ítarleg ákvæði um hvernig safngripa er aflað, fylgja t.d. einhver vottorð með gripunum, og þá hver?
Samkvæmt upplýsingum frá Kristjáni Vídalín liggja fyrir öll tilskilin vottorð með hverjum og einum grip, hvar þeirra er aflað og með hvaða hætti. En þetta er eitt af þeim atriðum sem skoðað verði af þeim fagaðilum sem meta með og fyrir okkur verkefnið.

7. Er fyrirhugað að þetta mál fái málefnalega og lýðræðislega meðferð í nefndum bæjarins?
Já – geri ekki ráð fyrir öðru, en þó er það mat undirritaðs að heppilegra sé að verkefnið sé lengra gengið fram, hlutverk Mosfellsbæjar skýrar o.s.frv. svo það veki ekki fleiri spurningar en það geti svarað. Því verður hins vegar ekki neitað að gagnlegt er að fá erindi af þessu tagi sem hér er verið að svara, frá nefndarmönnum á fræðslu- og menningarsviði, þar sem settar eru fram gagnlegar spurningar um eðli og tilgang verkefnisins. Sé þeim svarað hér á þessu stigi máls af einhverjum vanbúnaði, þá verður örugglega bætt um betur þegar málin fá umfjöllun í nefnd.

8. Hafa aðrir samningar eða skjöl önnur en viljayfirlýsingin verið undirrituð í tengslum við málið? Eru aðrir samningar við Kristján Vídalín Óskarsson eða félög honum tengd í ferli hjá Mosfellsbæ?
Ekkert annað plagg, skjöl eða samþykktir en lagðar hafa verið fram með viljayfirlýsingunni hafa verið lagðar fram, enda sést á svörum hér að framan, að verkefni þetta er enn hugmynd og ef þannig má að orði komast: enn í fæðingu.

Hér má sjá bréfið frá Mosfellsbæ í heild: VillidyrasafnSvarMosfellsbaear

Íbúahreyfingin krefst afsagnar stjórnar Eirar

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ krefst þess að stjórn Eirar axli ábyrgð á greiðsluþroti stofnunarinnar með því að víkja. Eir skuldar átta milljarða, þar af eiga heimilismenn tvo milljarða sem þeir hafa lagt inn sem búsetutryggingu. Þeir fjármunir kunna að glatast.
Í fjölmiðlum hefur komið fram að í stað þess að stöðva byggingaframkvæmdir í kjölfar hrunsins hafi stjórnendur Eirar tekið ákvörðun um að halda áfram með byggingu nýrra íbúða. Sú ákvörðun reyndist afdrifarík. Til að fjármagna framkvæmdirnar voru peningar íbúðarétthafa notaðir. Stjórnendur hafi þannig notað peninga frá heimilismönnum sem ódýr lán í stað þess að reyna að ávaxta féð. Treyst var á að þensla á fasteignamarkaði héldi áfram en þegar markaðurinn lamaðist syrti í álinn. Þá er formaður stjórnar Eirar sagður hafa vitað strax árið 2011 að stofnunin væri á leið í greiðsluþrot. Engu að síður hafi verið haldið áfram að gera samninga við nýja íbúa. Slíkt er merki um alvarlegan dómgreindarbrest. Rétt væri að vísa málinu til lögreglu.

Ljóst er að trúverðugleiki Eirar hefur beðið hnekki. Traust milli heimilsmanna, aðstandenda þeirra og stjórnar Eirar er brostið. Til að Eir megi öðlast nauðsynlegan trúverðugleika er afsögn sitjandi stjórnar óhjákvæmilegt fyrsta skref.

7.11.2012

Ung vinstri græn álykta um píkusafn

Ung vinstri græn sem héldu landsfund um helgina ályktuðu með hugmynd Íbúahreyfingarinnar um píkusafn. Við þökkum stuðninginn!
„vi. Píkusafn í Mosfellsbæ!
Landsfundur Ungra vinstri grænna, haldinn í Borgarfirði 5. – 7. október 2012, tekur undir hugmynd Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ um að opna Píkusafn í sveitarfélaginu í stað villidýrasafns. Landsfundur skorar á Karl Tómasson, bæjarstjórnarfulltrúa Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í sveitarfélaginu, að beita sér fyrir opnun safnsins í bæjarstórn þar sem hann situr í meirihluta. Bygging Píkusafns stuðlar að opnari umræðu og aukinni fræðslu í samfélaginu. Einnig mun Píkusafnið örva atvinnumarkaðinn í sveitarfélaginu og hita upp í safnamenningu landsins. Safnið mun enn fremur fullnægja þörfum íbúa fyrir ríkara menningarlíf í byggðinni og bleyta vel í þurri menningarsnauð Mosfellsbæjar. Aukinheldur mun safnið koma sem skemmtilegt mótvægi við Reðursafnið í Reykjavík.“

Erindi til bæjarráðs Mosfellsbæjar varðandi villidýrasafn

Mosfellsbæ 4. Október 2012

Erindi til bæjarráðs Mosfellsbæjar.
Einnig sent á aðila sem eru í eða sitja fundi fræðslunefndar, menningarmálanefndar og þróunar- og ferðamálanefndar til upplýsingar.

Á hátíðarbæjarstjórnarfundi hinn 9. ágúst 2012 var samþykkt að Mosfellsbær gangi til samstarfs við Kristján Vídalín Óskarsson um stofnun villidýrasafns. Þar sem engin umræða átti sér stað í nefndum og ráðum bæjarins áður en að ákvörðuninni kom er mörgum spurningum enn ósvarað um tilurð og fyrirhugaðan rekstrargrundvöll safnsins. Til þess að varpa ljósi á málið óska undirritaðar eftir svörum bæjarráðs við eftirfarandi spurningum:
1. Hvaða skuldbindingu hefur undirritun viljayfirlýsingarinnar í för með sér fyrir Mosfellsbæ?
2. Var haft samráð við Náttúruminjasafn Íslands, sem er höfuðsafn á sviði náttúrufræða samkvæmt safnalögum nr. 106 frá 31. maí 2001, Safnaráð eða aðra sérfræðinga á sviði safnamála þegar ákvörðun var tekin um stofnun safnsins, og þá hverja?
3. Er ætlunin að reka hér safn í skilningi safnalaga? Í 4. gr. þeirra segir m.a: „Safn er samkvæmt lögum þessum stofnun, opin almenningi, sem hefur það hlutverk að safna heimildum um manninn, sögu hans, umhverfi og náttúru landsins, standa vörð um þær, rannsaka, miðla upplýsingum og hafa þær til sýnis svo að þær megi nýtast til rannsókna, fræðslu og skemmtunar.“?
4. Hafa verið gerðar áætlanir varðandi kostnað við uppbyggingu og rekstur safnsins og hefur markaður fyrir slíkt safn verið kannaður? Benda má á safn á líku sviði á Stokkseyri, sérstaða og rannsóknarhluti þess safns felst þó í byssusafni.
5. Telur bæjarráð að stofnun safnsins samræmist drögum að menningarstefnu Mosfellsbæjar? Í drögunum er lögð áhersla á framsækni menningarstofnana, samráð við íbúa um viðhorf þeirra og óskir, og að menningarstofnanir stuðli að varðveislu menningararfleifðar í Mosfellsbæ.
6. Uppfylla gripirnir sem rætt er um í viljayfirlýsingunni skilyrði siðareglna Alþjóðaráðs safna (ICOM)? Í siðareglunum eru t.d. ítarleg ákvæði um hvernig safngripa er aflað, fylgja t.d. einhver vottorð með gripunum, og þá hver?
7. Er fyrirhugað að þetta mál fái málefnalega og lýðræðislega meðferð í nefndum bæjarins?
8. Hafa aðrir samningar eða skjöl önnur en viljayfirlýsingin verið undirrituð í tengslum við málið? Eru aðrir samningar við Kristján Vídalín Óskarsson eða félög honum tengd í ferli hjá Mosfellsbæ?

Virðingarfyllst,

Birta Jóhannesdóttir, þróunar- og ferðamálanefnd
Hildur Margrétardóttir, varaáheyrnarfulltrúi menningarmálanefnd
Kristín I. Pálsdóttir, varafulltrúi í ferða- og þróunarmálanefnd og varaáheyrnarfulltrúi í fræðslunefnd
Sæunn Þorsteinsdóttir, áheyrnarfulltrúi í fræðslunefnd og menningarmálanefnd

Píkusafn í Mosfellsbæ – Ályktun aðalfundar

Íbúahreyfingin hélt aðalfund sinn í kvöld, 25. september og var eftirfarandi ályktun samþykkt af þorra fundarmanna:
Íbúahreyfingin hefur ákveðið að beita sér fyrir opnun Píkusafns – Vulva Museum – í Mosfellsbæ. Á sérstökum hátíðarfundi bæjarstjórnar, í tilefni 25 ára afmælis bæjarins, kom bæjarstjórnarmeirihlutinn í Mosfellsbæ fram með þá hugmynd að í bænum yrði opnað villidýrasafn. Íbúahreyfingin hefur ákveðnar efasemdir um að slíkt safn sé tímanna tákn.
Það er margt sem Píkusafn hefur fram yfir villidýrasafn að okkar mati. Í fyrsta lagi lifum við á tímum mikillar vakningar í jafnréttismálum. Því fylgir mikið blómaskeið píkunnar sem hefur, ef svo má að orði komast, komið út úr skápnum á undanförnum árum. Leikrit eru samin henni til dýrðar, hljómsveitir kenna sig við hana og nú síðast komu fréttir af því að hin virta listakona Kristín Gunnlaugsdóttir hafi ofið rúmlega fjögurra metra háan klukkustreng sem skartar risapíku sem verður sýnd í Listasafni Íslands á næsta ári. Gaman væri ef safnið gæti eignast það reisulega verk.
Ofurkarlmennska, eins og veiðar á dýrum í útrýmingarhættu, eru hins vegar tákn fortíðarinnar og úreltra hugmynda um mikilmennið sem sigrast á náttúrunni. Mosfellsbær hefur eytt miklu púðri í að skapa bænum ímynd bæjarfélags sem lifir í nánd og sátt við náttúruna og telur Íbúahreyfingin að villidýrasafn rími illa við þá ímyndarvinnu. Þá teljum við að samhljóm við slagorð Mosfellsbæjar, sem eru virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja, vanti í hugmyndina um villidýrasafn.
Að auki vakna spurningar um það hvort villidýrasafn muni laða að sér nægan fjölda ferðamanna til að það standi undir sér? Heimsóknir ferðamanna hljóta að vera grundvöllur fyrir rekstri slíks safns. Myndi fólk t.d. fara á íslenskt þjóðháttasafn á ferð um Afríku?
Mun meir framsækni þykir okkur vera í Píkusafninu enda hefur áhugi á píkum verið mikill og stöðugur í gegnum aldirnar, þó að segja megi að ákveðnum hápunkti hafi verið náð hvað það varðar á síðustu árum.
Nú þegar er til staðar reðursafn í landinu og hefur það safn gengið vel en munirnir á safninu spanna alla spendýrafánu Íslands. Þá hefur ekkert dýr verið drepið í þeim tilgangi að fá muni á safnið. Er það mun sjálfbærri nálgun en að deyða fágæt dýr beinlínis í þeim tilgangi að setja þau á safn í fjarlægu landi.
Hugmyndin er að Píkusafnið verði byggt upp á svipaðan hátt, með sjálfbærni, virðingu, jákvæðni, framsækni og umhyggju í huga. Einnig mun safnið ýta undir jafnrétti sem mótvægi við reðursafnið og, á svipaðan hátt og kolefnisjöfnunin, karlrembujafna söfnin í landinu.
Ónefnt sláturhús hefur þegar veitt vilyrði fyrir fimm gimbrapíkum, fullunnum til sýningar. Sama fyrirtæki hefur einnig gefið því undir fótinn að útvega píkur úr fleiri sláturdýrum. Stefnt er að því að eiga píkur úr öllum íslensku húsdýrunum þegar safnið opnar og að innan tíu ára verði búið að fá píkur úr allri fánunni til sýningar.
Það yrði mikill ávinningur af því fyrir safnið ef hin fræga rússneska pönksveit Pussy Riot gæti spilað við opnun þess og er vilji til að stuðla að því.

Pin It on Pinterest