Píkusafn í Mosfellsbæ – Ályktun aðalfundar

Íbúahreyfingin hélt aðalfund sinn í kvöld, 25. september og var eftirfarandi ályktun samþykkt af þorra fundarmanna:
Íbúahreyfingin hefur ákveðið að beita sér fyrir opnun Píkusafns – Vulva Museum – í Mosfellsbæ. Á sérstökum hátíðarfundi bæjarstjórnar, í tilefni 25 ára afmælis bæjarins, kom bæjarstjórnarmeirihlutinn í Mosfellsbæ fram með þá hugmynd að í bænum yrði opnað villidýrasafn. Íbúahreyfingin hefur ákveðnar efasemdir um að slíkt safn sé tímanna tákn.
Það er margt sem Píkusafn hefur fram yfir villidýrasafn að okkar mati. Í fyrsta lagi lifum við á tímum mikillar vakningar í jafnréttismálum. Því fylgir mikið blómaskeið píkunnar sem hefur, ef svo má að orði komast, komið út úr skápnum á undanförnum árum. Leikrit eru samin henni til dýrðar, hljómsveitir kenna sig við hana og nú síðast komu fréttir af því að hin virta listakona Kristín Gunnlaugsdóttir hafi ofið rúmlega fjögurra metra háan klukkustreng sem skartar risapíku sem verður sýnd í Listasafni Íslands á næsta ári. Gaman væri ef safnið gæti eignast það reisulega verk.
Ofurkarlmennska, eins og veiðar á dýrum í útrýmingarhættu, eru hins vegar tákn fortíðarinnar og úreltra hugmynda um mikilmennið sem sigrast á náttúrunni. Mosfellsbær hefur eytt miklu púðri í að skapa bænum ímynd bæjarfélags sem lifir í nánd og sátt við náttúruna og telur Íbúahreyfingin að villidýrasafn rími illa við þá ímyndarvinnu. Þá teljum við að samhljóm við slagorð Mosfellsbæjar, sem eru virðing, jákvæðni, framsækni og umhyggja, vanti í hugmyndina um villidýrasafn.
Að auki vakna spurningar um það hvort villidýrasafn muni laða að sér nægan fjölda ferðamanna til að það standi undir sér? Heimsóknir ferðamanna hljóta að vera grundvöllur fyrir rekstri slíks safns. Myndi fólk t.d. fara á íslenskt þjóðháttasafn á ferð um Afríku?
Mun meir framsækni þykir okkur vera í Píkusafninu enda hefur áhugi á píkum verið mikill og stöðugur í gegnum aldirnar, þó að segja megi að ákveðnum hápunkti hafi verið náð hvað það varðar á síðustu árum.
Nú þegar er til staðar reðursafn í landinu og hefur það safn gengið vel en munirnir á safninu spanna alla spendýrafánu Íslands. Þá hefur ekkert dýr verið drepið í þeim tilgangi að fá muni á safnið. Er það mun sjálfbærri nálgun en að deyða fágæt dýr beinlínis í þeim tilgangi að setja þau á safn í fjarlægu landi.
Hugmyndin er að Píkusafnið verði byggt upp á svipaðan hátt, með sjálfbærni, virðingu, jákvæðni, framsækni og umhyggju í huga. Einnig mun safnið ýta undir jafnrétti sem mótvægi við reðursafnið og, á svipaðan hátt og kolefnisjöfnunin, karlrembujafna söfnin í landinu.
Ónefnt sláturhús hefur þegar veitt vilyrði fyrir fimm gimbrapíkum, fullunnum til sýningar. Sama fyrirtæki hefur einnig gefið því undir fótinn að útvega píkur úr fleiri sláturdýrum. Stefnt er að því að eiga píkur úr öllum íslensku húsdýrunum þegar safnið opnar og að innan tíu ára verði búið að fá píkur úr allri fánunni til sýningar.
Það yrði mikill ávinningur af því fyrir safnið ef hin fræga rússneska pönksveit Pussy Riot gæti spilað við opnun þess og er vilji til að stuðla að því.

Hver ber ábyrgð á einelti?

Ýma tröllastelpa er aðalpersónan í bók sem fjallar um einelti og er samin í því skyni að berjast gegn því. Bókinni hefur verið dreift í skóla landsins í 10 ár og Olweusar-verkefnið og Regnbogabörn, sem bæði berjast gegn einelti, hafa tekið þátt í dreifingu og notkun bókarinnar.
Dóttir mín kom með gripinn heim þar sem bókinni var dreift í 1. bekk grunnskóla þegar hún hóf nám árið 2008. Ég kvartaði þá yfir því að bókin væri afleitt efni til að fræða börn um einelti því að í henni eru staðalímyndir, um stráka og stelpur og það hverjir lagðir eru í einelti, gagnrýnislaust bornar á borð. Það kom mér því mjög á óvart þegar ég komst að því að ennþá væri verið að dreifa bókinni í skóla landsins í fyrra og í haust.
Það er ekki lítið sem hún Ýma tröllastelpa þarf að takast á við. Ekki er nóg með að hún sé af tröllaættum, og þar af leiðandi stærri og stórgerðari en allir aðrir, hún er líka með kartöflunef, rautt hár, skakkar tennur, með bumbu og svo á hún bara allt of lítil og rifin föt og engan skófatnað. Ofan á allt þetta bætist að hún borðar meira að segja öðruvísi mat en aðrir krakkar. Það má því segja að hún hafi flest það til að bera sem ekki fellur að staðalímynd hinnar fullkomnu stúlku.
Einelti er ein tegund ofbeldis og á undanförnum árum hefur umræða um ofbeldi breyst mjög mikið í samfélaginu. Það er reyndar ekki langt síðan skýringa á ofbeldi var leitað í hegðun og útliti fórnarlamba ofbeldis. Í dag, hins vegar, hélt ég að það væru alkunn sannindi að skýringa og ábyrgðar á ofbeldi ætti að leita hjá þeim sem beita ofbeldinu, gerendum, en ekki hjá þolendum þess.
Í bókinni um Ýmu tröllastelpu er öll áherslan á fórnarlömb ofbeldisins. Ýma er allt öðruvísi en allir aðrir og strákurinn sem lagður er í einelti í sögunni er lítill gleraugnaglámur, Krissi. Allir gerendurnir eru „eðlilegir“, þeir skera sig ekki úr hópnum. Hins vegar eru það fórnarlömbin sem eru í raun gerð ábyrg fyrir eineltinu og allur fókus bókarinnar er á þeim. Gerendurnir eru hins vegar ekki nefndir með nafni.
Einelti er vandmeðfarið vandamál sem misvel gengur að ráða við. Það hjálpar varla mikið til þegar ekki er vandað betur til fræðsluefnis um málefnið en raun ber vitni. Grundvallarforsenda í baráttu gegn einelti hlýtur að vera sú að allir aðilar átti sig á því að það er gerandinn en ekki þolandinn sem ber ábyrgð á eineltinu og að skýringa á einelti ber ekki að leita í fari eða útliti þess sem lagður er í einelti.
Þessi orð eru rituð í tilefni af því að ég rakst á auglýsingu um það að skólastjórafélagið er að fara að halda ráðstefnu um einelti nú í lok september. Ég tel að það hljóti að vera umhugsunarefni fyrir þá sem þar þinga af hverju þessu efni hefur verið dreift í skóla landsins í 10 ár.

Kristín Pálsdóttir, varafulltrúi í fræðslunefnd Mosfellsbæjar.

Aðalfundur Íbúahreyfingarinnar

Aðalfundur Íbúahreyfingarinnar verður haldinn í Brekkunni, Álafossvegi 27, þriðjudaginn 25. september kl. 17.30.

Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf.

Allir eru velkomnir á aðalfundinn!

Pin It on Pinterest