Meira lýðræði í stjórnmálastarfi

pudiÞátttakendum á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga​ gæti fjölgað um 55 ef sú tillaga Íbúahreyfingarinnar nær fram að ganga á þinginu nú í apríl að öll framboð sem eiga fulltrúa í sveitarstjórn öðlist rétt til að tilnefna einn áheyrnarfulltrúa til setu á landsþingi með tillögurétt og málfrelsi.

Frá sjónarhóli lýðræðis er ávinningurinn ótvíræður. Eins og staðan er í dag njóta framboð ekki jafnræðis og minni framboð hafa hvorki möguleika á að láta rödd sína heyrast né sama aðgang að upplýsingum og stærri framboð um þau mál sem verið er að ræða á þessum stefnumótandi samráðsvettvangi sveitarfélaga á Íslandi.

Í sveitarstjórnarlögum er opnað á að framboð sem ekki ná því að fá kjörinn aðalmann í nefndir en eiga fulltrúa í sveitarstjórn eigi rétt á að tilnefna áheyrnarfulltrúa. Tillaga Íbúahreyfingarinnar gengur út á að samskonar ákvæði verði virkja á vettvangi landsþings.

Meirihlutaræði hefur lengi verið lenska í stjórnmálastarfi á Íslandi. Í sveitarstjórnarlögum er hins vegar ekkert sem heitir meirihluti eða minnihluti, heldur eru kjörnir fulltrúar allir jafn réttháir fyrir lögum og beinlínis þeirra hlutverk að koma sjónarmiðum sínum á framfæri í undirbúningi pólitískrar ákvarðanatöku.  Eins og fyrirkomulagið er í dag einoka stærri framboð víða málefnavinnuna. Það sem verra er er að skilningur á lýðræðislegum leikreglum er nokkuð almennt ekki meiri en svo að það þykir bara sjálfsagt að útiloka minni framboð frá þátttöku í undirbúningsvinnu. Lýðræðið fer því fyrir lítið og meirihlutaræði eða öllu heldur stjórnmál kúgunar tryggja sig í sessi.

Frá sjónarhóli jafnræðis verður ekki séð hvernig slík vinnubrögð geta viðgengist mikið lengur. Allavega er nokkuð ljóst að á meðan að þessi grunnstoð lýðræðisins öðlast ekki meira vægi í stjórnmálastarfi verður því takmarki seint náð að innleiða samræðustjórnmál á Íslandi. Íbúahreyfingin bíður því spennt eftir niðurstöðu landsþings.

Er lýðræði bara tómt vesen?

murinnLýðræðisást er örugglega ekki eitt af þeim hugtökum sem hægt er að nota til að lýsa þankagangi fulltrúa D-lista í bæjarráði Mosfellsbæjar en á fundi ráðsins í morgun var fjallað um að halda áfram vinnu starfshóps um fjölnota íþróttahús. Til hópsins var stofnað í aðdraganda kosninga síðastliðið vor og eiga D- og S-listi þar fulltrúa, auk þess sem fulltrúi frá V-lista bætist við í haust. Íbúahreyfingin er því eina stjórnmálaaflið sem ekki mun eiga fulltrúa í starfshópnum. Að gefnu tilefni lagði fulltrúi hennar því til að framboðinu yrði gefinn kostur á að tilnefna fulltrúa en því höfnuðu Hafsteinn Pálsson og Kolbrún Þorsteinsdóttir  fyrir hönd D-lista.
Rökin sem fulltrúar D-lista færðu voru þeim ekki til sóma. Bæjarstjóri hélt því fram að starfshópurinn væri ekki pólitískur, auk þess sem starfið yrði erfiðara í vöfum ef lýðræðis yrði gætt og fulltrúum fjölgað.
En hvaðan koma þá meðlimir starfshópsins? Í honum sitja 3 fulltrúar D-lista, ásamt fulltrúa S-lista og bráðum V-lista, auk 1 fulltrúa Aftureldingar.
Hér er því hallað réttu máli til að koma sínu fram.  Því hefur oft verið fleygt að Sjálfstæðisflokkurinn sé ekki pólitísk hreyfing, heldur eitthvað í líkingu við náttúruafl. Undir þá varhugaverðu sjálfsímynd skrifar Íbúahreyfingin reyndar  ekki.

Og hvað með lýðræðið? Er það bara tómt vesen? Auðvitað þætti mörgum einfaldast að hverfa aftur til þess andlýðræðislega stjórnskipulags að einvaldar með fulltingi hirðar sinni taki allar pólitískar ákvarðanir. Það fyrirkomulag varð þó sem betur fer ekki ofan á. Samfélagssáttmálinn hljóðar því upp á að raddir allra framboða sem ná kosningu skuli heyrast í aðdraganda pólitískrar ákvarðanatöku. Að sjá til þess að svo sé er hlutverk okkar og ábyrgð sem ná kjöri í sveitarstjórn.

Tilgangur lýðræðisins er að tryggja að búið sé að skoða mál frá öllum hliðum áður en greitt er um þau atkvæði. Við þessa skipan bætist síðan jafnræðishugsjónin. Að útiloka framboð frá þátttöku í lýðræðislegu ferli í sveitarstjórn jafngildir því að segja leikreglum lýðræðisins stríð á hendur og þá bardagatækni ástundar D-listi í Mosfellsbæ.
Það verður að segjast eins og er að það er erfitt að tengja kjörorð Mosfellsbæjar við pólitískar athafnir D-lista. Þær eiga ekkert skylt við virðingu, jákvæðni, framsækni og umhyggju, heldur bera þær þvert á móti vott um virðingarleysi, neikvæðni, afturhald og umhyggjuleysi.
Því miður er lítið hald í sveitarstjórnarlögum þegar kemur að því að virða og efla lýðræði. Meirihlutar geta að því er virðist hagað sér eins og þeim þóknast og sleppt lýðræðislegum leikreglum og það þótt ekkert sé til í sveitarstjórnarlögum sem heitir meirihluti og minnihluti. Séu hlutirnir skoðaðir í því ljósi að þessi aðgreining sé ekki til á aflsmunur framboða einungis við þegar kemur að atkvæðagreiðslu en ekki í aðdraganda og undirbúningi kostnaðarsamra framkvæmda, eins og að byggja fyrir marga langþráð og fjölnota íþróttahús. Í því máli þurfa öll framboð að eiga sinn fulltrúa.

Dropinn holar steininn og er þessi pistill ritaður með það í huga.

Bókun Íbúahreyfingarinnar:
Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar telur þau rök að starfshópurinn verði of fjölmennur ef Íbúahreyfingin bætist í hópinn ekki í anda lýðræðis. Eftir því sem fulltrúum fjölgar eykst einmitt lýðræðið.

Upphafleg tillaga hljóðaði svo:
Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir að tillögu sinni að Íbúahreyfingunni verði gefinn kostur á að tilnefna fulltrúa í starfshóp um fjölnota íþróttahús. Um verulega samfélagslega hagsmuni er að ræða. Það er ekki síst í þágu jafnræðis að þessi tillaga er sett fram. Hópurinn var skipaður á síðasta kjörtímabili og eðlilegt að hann endurnýi umboð sitt.

2 fulltrúar D-lista greiddu atkvæði gegn tillögunni. S-listi sat hjá.

Pin It on Pinterest