Bætum aðstöðu til tónlistarnáms í Mosfellsbæ

Bætum aðstöðu til tónlistarnáms í Mosfellsbæ

Tónlistarlíf hefur lengi verið blómlegt í Mosfellsbæ, öflugur tónlistarskólli, lúðrasveit, hljómsveitir og kórar. Við vitum að tónlistarnám er gefandi veganesti út í lífið og tónlist það mikilvægur þáttur í daglega lífi og menningarstarfi að passa þarf upp á að hlúa að skólunum og öðru tónlistarstarfi samfélaginu til heilla.

Í tónlistarskólanum í Mosfellsbæ stunda um 250 nemendur nám og eru um 90 börn á biðlista eftir plássi. Ástæðan fyrir því að skólinn annar ekki eftirspurn er tvíþætt. Annars vegar plássleysi og hins vegar skortur á kennurum. Við plássleysinu reynir fræðslusvið að bregðast með því að færa kennsluna, að svo miklu leyti sem það er hægt, úr tónlistarskólanum inn í skólana.  Í Varmárskóla er einhver kennsla á skólatíma og í Krikaskóla sömuleiðis. Í nýja skólanum í Helgafellslandi er síðan gert ráð fyrir sérstökum stofum til tónlistarkennslu til að nýta á skólatíma.

Skort á kennurum við skólann má rekja aftur til hrunsins 2008 en þá var stöðugildum fækkað. Við gerð síðustu fjárhagsáætlunar var síðan einu stöðugildi bætt við og árið 2018 mun þeim fjölga um eitt og hálft. Fjöldi stöðugilda verður seinni part árs 2018 því orðinn sá sami og fyrir hrun. Frá þeim tíma hefur íbúum Mosfellsbæjar þó fjölgað umtalsvert og fyrirsjáanlegt að sú þróun haldi áfram.

Eitt af því sem meirihluti D- og V-lista hefur lagt áherslu á til að bregðast við vandanum er að efla samkennslu nemenda. Ljóst er að slíkt úrræði dugar einungis að hluta því tónlist er að miklu leyti einstaklingsmiðað nám. Sum hljóðfæri er ekki hægt að flytja svo auðveldlega á milli staða o.s.frv.

Tónlistarkennsla í grunnskólum er þó vissulega gott úrræði svo langt sem það nær. Í ört vaxandi sveitarfélagi verður hins vegar ekki hjá því komist að bæta aðstöðu tónlistarskólans og lúðrasveitarinnar. Til þess að svo verði ætti bæjarstjórn að setja sér tímasett markmið um að reisa hér tónlistarskóla með tilheyrandi aðstöðu til tónleikahalds. í skólanumi fengi lúðrasveitin líka skjól en aðstaða hennar í kjallara Varmárskóla er afar bágborin, bæði fyrir kennara og nemendur sem eru um 100 talsins.

Skipulagðar tómstundir barna eftir skóla hafa gert það að verkum að börn og ungmenni eiga sér athvarf  að skóladegi loknum. Vinnudagurinn er langur á Íslandi og biðin oft löng eftir útivinnandi foreldrum. Í því felst ákveðið öryggi fyrir foreldra að börnin skuli eiga þess kost að stunda uppbyggilegt tómstundastarf í lok skóladags. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Okkar litla þjóð á tónlistar- og íþróttafólk á heimsmælikvarða.

Forvarnagildi tómstundastarfsins er líka ótvírætt. Á fáum stöðum er neysla áfengis- og vímuefna jafn lítil og meðal ungmenna á Íslandi. Þetta hefur ekki gerst af sjálfu sér. Skipulögðu tómstundastarfi er þar fyrst og fremst fyrir að þakka. Við þurfum að passa að sofna ekki á verðinum og gæta þess að tapa ekki þessari einstöku sérstöðu.

Aðstöðu til tónlistarkennslu þarf sérstaklega að bæta. Í fullvissu um að fátt sé líklegra til að göfga manninn en tónlistin setti bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar fram tillögu um að bæta aðstöðu tónlistarskólans við gerð fjárhagsáætlunar Mosfellsbæjar 2018. Hún hljóðar svo:

“Tillagan gengur út á að bæta aðstöðu tónlistarskólans og fjölga stöðugildum til samræmis við fjölgun íbúa. Í tónlistarskólanum hafa verið langir biðlistar frá hruni en í kjölfar þess var stöðugildum kennara fækkað. Í fyrra var einu stöðugildi bætt við og nú á að fjölga þeim um eitt og hálft. Stöðugildi í lok 2018 verða því jafn mörg og þau voru fyrir hrun. Í millitíðinni hefur Mosfellingum þó fjölgað um 2500 og að sama skapi væntanlegum tónlistarsnillingum sem margir hverjir eru nú á biðlista. Skólann vantar meira húsnæði og er að einhverju leyti verið að vinna að því en betur má ef duga skal. Það þarf að bæta aðstöðuna og fjölga kennurum í takt við fjölgun íbúa.

Framboð á tónlistarkennslu getur ráðið úrslitum um hvort fólk flytur í Mosfellsbæ og því brýnt að setja meiri kraft og fjármagn í þetta verkefni.”

Sigrún H. Pálsdóttir, bæjarfulltrúi

Kallað eftir leiguíbúðum á viðráðanlegu verði fyrir ungt fólk og efnaminni í Mosfellsbæ

Kallað eftir leiguíbúðum á viðráðanlegu verði fyrir ungt fólk og efnaminni í Mosfellsbæ

Íbúahreyfingin hefur lagt fram tillögu um að Mosfellsbær láti af hendi lóð og/eða setji kvaðir í skipulag til að auka framboð á ódýru leiguhúsnæði fyrir ungt fólk og efnaminni. Til að tryggja viðráðanlegt leiguverð er líklegast til árangurs að Mosfellsbær leiti eftir samstarfi við byggingarsamvinnufélög sem starfa án hagnaðarmarkmiða.

Nú hefur sveitarfélagið ekki margar lóðir til ráðstöfunar í þéttbýli en útlit er fyrir að það losni brátt undan samningi frá árinu 2016 um úthlutun og sölu lóðar upp á 12 hektara við Hafravatnsveg í Reykjahverfi. Gangi það eftir mætti hugsa sér að nýta landið til að skipuleggja íbúðabyggð á einkar fjölskylduvænum stað í samstarfi við byggingarfélag á borð við Íbúðafélagið Bjarg. Sé önnur staðsetning talin heppilegri væri hugsanlegt að Mosfellsbær gerði makaskipti á landinu.

Skv. lögum um almennar íbúðir 115/2016 er sveitarfélögum heimilt að veita 12% stofnframlag til að byggja og kaupa íbúðarhúsnæði sem ætlað er leigjendum sem eru undir tekju- og eignamörkum. Sveitarfélög hafa sum hver greitt stofnframlagið í formi lóða og út á það gengur tillaga Íbúahreyfingarinnar.

Reykjavíkurborg og Hafnarfjörður hafa núþegar samið við Bjarg um byggingu á fjölda leiguíbúða en félagið, sem er sjálfseignarstofnun, leitar sérstaklega eftir samstarfi við sveitarfélögin. Það sem gerir samstarf við félagið fýsilegt er að það hefur traustan bakhjarl sem er í samstarfi við aðila sem hafa reynslu af rekstri leigufélaga í Skandínavíu og víðar. Það voru stéttarfélögin ASÍ og BSRB sem stofnuðu félagið í kjölfar framangreindrar lagasetningar um almennar íbúðir.

Reykjavíkurborg er eins farið og Mosfellsbæ að hafa lítið af lóðum til ráðstöfunar í þéttbýli en borgin hefur verið að auka framboð á leiguhúsnæði fyrir ungt fólk og efnaminni, námsmenn, fatlaða  og fleiri lágtekjuhópa með því að setja kvaðir í skipulag um að fá lóðir til ráðstöfunar á nýjum skipulagsreitum til að byggja leiguíbúðir í samstarfi við íbúðafélög sem starfa án hagnaðarmarkmiða. Íbúahreyfingin sér fyrir sér að Mosfellsbær fari eins að.

Þess má geta að hér er ekki um að ræða félagslegt húsnæði, heldur félagslega aðgerð til að efla leigumarkaðinn og gera ungum og efnaminni kleift að leigja sér öruggt, ódýrt og vandað húsnæði. Skv. dómi sem féll innan ESB standast slíkar aðgerðir lög. Sveitarfélaginu er því ekkert að vanbúnaði.

Það sem gerir samstarf við Bjarg íbúðafélag spennandi er að það hefur mikinn metnað þegar kemur að hönnun íbúða. Um er að ræða leiguhúsnæði að danskri fyrirmynd “Almene boliger” þar sem leiga fer eftir efnum og er aldrei hærri en 25% af tekjum. Fólk á að eiga þess kost að skipta um húsnæði innan kerfisins eftir þörfum og búa í íbúðum á vegum félagsins alla ævi. Ráð er fyrir því gert að reksturinn sé sjálfbær, þ.e. að leiga standi alfarið undir kostnaði. Arðinn síðar meir á síðan að nota til að byggja fleiri íbúðir. 

Íbúahreyfingin gerir ráð fyrir vistvænni byggð með blágrænar ofanvatnslausnir, græn þök, framúrskarandi almenningssamgöngur og lágmarks bílaeign.

Myndin er af “almene boliger” í Danaveldi.

Bjarg íbúðafélag

Lög um almennar íbúðir 115/2016

Sigrún H Pálsdóttir, bæjarfulltrúi

Pin It on Pinterest