Upplýsa þarf Mosfellinga um skólpmengun

skolpÁ fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 25. mars var ársskýrsla umhverfissviðs til umfjöllunar og lagði  Íbúahreyfingin til breytingar á efnistökum í kaflanum um fráveitu. Í orðaskaki á fundinum lét bæjarstjóri í veðri vaka að Íbúahreyfingin væri að níða niður skóinn af starfsmönnum sveitarfélagsins. Svo er þó alls ekki. Íbúahreyfingin metur starfsmenn Mosfellsbæjar mikils. Það sem fulltrúa Íbúahreyfingarinnar gekk til var að auka upplýsingagildi skýrslunnar. Tilefnið var því ekki að vega að starfsheiðri starfsmanna, heldur að upplýsa íbúa og kjörna fulltrúa um skólpmengun í ám og lækjum í Mosfellsbæ.

Það er óskemmtilegt að þurfa að sitja undir því þegar lögð er fram tillaga um breytt verklag að verið sé að smána starfsmenn. Hvað vakir fyrir bæjarstjóranum skal ósagt látið en ljóst að tilhæfulausar aðdróttanir af þessu tagi eru til þess fallnar að ala á tortryggni sem bæjarstjórinn telur að gagnist sér í pólitískri refskák því þær eru endurtekið efni í málflutningi hans og reyndar fleiri í hans flokki.

En  svo hljóðar tillaga Íbúahreyfingarinnar um breytt efnistök í ársskýrslu:

“Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir að tillögu sinni að efnistök í ársskýrslum sviða Mosfellsbæjar verði tekin til endurskoðunar. Í nýútkominni ársskýrslu umhverfissviðs er einungis fjallað um fráveitumál á almennum nótum og verkefnin ekki tilgreind. Í þeim málaflokki er því lítið á skýrslunni að græða. Sveitarfélag er ekki fyrirtæki á hlutabréfamarkaði sem á allt sitt undir því að laða að fjárfesta. Ársskýrsla sveitarfélags þjónar öðrum tilgangi. Hún er mikilvægt vinnugagn fyrir kjörna fulltrúa, starfsmenn sveitarfélaga, lánardrottna o.fl. sem þýðir að í henni þarf að vera greinargott yfirlit yfir þau verkefni sem hafa verið unnin eða verið er að vinna, ekki síst þegar um skólpmengun er að ræða.”

Tillagan var felld með átta atkvæðum D-, S- og V-lista.

Styrkir hækki til Stígamóta

Styrkir hækki til Stígamóta

stigamotÍbúahreyfingin hafði sitthvað að segja um styrkveitingar Mosfellsbæjar til Stígamóta í vikunni, fyrst í fjölskyldunefnd og síðan í bæjarstjórn. Styrki þarf að hækka. Um Stígamót gilda sömu rök og um Kvennaathvarfið. Þangað sækir fjöldi kvenna og karla úr Mosfellsbæ ár hvert, stundum fleiri og stundum færri. Árin 2010-2014 voru um 3% þeirra sem leituðu til Stígamóta úr Mosfellsbæ.

Stígamót hafa unnið mikið þrekvirki í íslensku samfélagi og átt stóran þátt í því að fá kynferðisglæpi viðurkennda sem alvarleg afbrot og verið brautryðjendur í því að fórnarlömb slíkra glæpa fái nú aðstoð sérfræðinga við að takast á við áföllin. Starf Stígamóta er því ómetanlegt.

Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar

Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir að tillögu sinni að bæjarstjórn óski eftir því við bæjarráð að fá aukaframlag úr bæjarsjóði til að hækka árlegan styrk til Stígamóta. Um hækkun styrks til  samtakanna gilda svipuð rök og fyrir aukinni fjárveitingu til Kvennaathvarfsins. Árin 2010-2014 voru um 3% þeirra sem leituðu til Stígamóta héðan.

Upphæð styrks til Stígamóta hefur staðið í stað í nokkur ár og er hún ákaflega lág sé tekið mið af þeirri þjónustu sem samtökin veita fórnarlömbum kynferðisofbeldis í Mosfellsbæ. Af þeirri ástæðu leggur Íbúahreyfingin til að styrkurinn verði hækkaður úr kr. 50 þúsund í kr. 150 þúsund á fjárhagsárinu 2015.

Fulltrúar D- og V-lista felldu tillöguna.

Íbúahreyfingin vill hækka styrki til Kvennaathvarfsins

Íbúahreyfingin vill hækka styrki til Kvennaathvarfsins

kvennaathvarfÁ síðasta fundi fjölskyldunefndar var ákveðið að hækka árlegan styrk Mosfellsbæjar til Kvennaathvarfsins úr 60 þúsund kr. í 100 þúsund. Hækkunin lét vel í eyrum þangað til að Íbúahreyfingin fór að grafast nánar fyrir um styrkveitingar sveitarfélaga í nágrenninu.

Í ársskýrslu Kvennaathvarfsins 2013 er listi yfir framlög nokkurra sveitarfélaga. Reykjavík greiddi rúmar 11 milljónir, Kópavogur 800 þúsund, Garðabær 400 þúsund, Hafnarfjörður 450 þúsund, Akranes 250 þúsund, Hveragerði 120 þúsund o.s.frv.

Eins og sjá má kemur þessi samanburður afar illa út fyrir Mosfellsbæ en hann verður enn óhagstæðari þegar horft er til þess hvaða þjónustu Kvennaathvarfið veitti fórnarlömbum heimilisofbeldis og börnum þeirra árin 2013 og 2014 en á því tímabili dvöldu samtals 11 konur úr Mosfellsbæ í Kvennaathvarfinu ásamt 10 börnum sínum. Samanlagt dvöldu konur héðan í 310 daga á þessu tímabili (allt frá 4 dögum til 106 daga) og börnin í samanlagt 426 (líka frá fjórum dögum og upp í 106 daga).

Nú er það svo að Mosfellsbær,- og það mál var líka til umfjöllunar á þessum sama fundi fjölskyldunefndar,- hefur hug á að taka þátt í átaki lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins gegn heimilisofbeldi. Eitt af þeim úrræðum sem lögreglustjórinn bendir sveitarfélögunum á er einmitt Kvennaathvarfið. Til að sýna að hugur fylgdi máli hefði Íbúahreyfingunni þótt viðeigandi að hækka styrkinn þannig að hann endurspeglaði a.m.k. að Mosfellsbæ láti sér annt um þessa þjónustu Samtaka um kvennaathvarf.

Verkefni lögreglustjóraembættisins kemur ekki í stað þeirrar þjónustu sem Kvennaathvarfið veitir, heldur þvert á móti ýtir undir að þær konur sem búa við heimilisofbeldi leiti ásjár Kvennaathvarfsins. Konum hefur því fjölgað sem leita sér aðstoðar á þeim stöðum sem verkefnið er rekið.

Styrkur Mosfellsbæjar til Kvennaathvarfisins er ekki í nokkru samræmi við þá þjónustu sem samtökin veita Mosfellingum. Í raun er hægt að fullyrða að Mosfellsbær sé að þiggja ölmusur frá þeim sveitarfélögum sem standa undir rekstri Kvennaathvarfsins ásamt, ríki og öðrum styrktaraðilum.

Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar

Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir að tillögu sinni að styrkur Mosfellsbæjar til Kvennaathvarfsins verði hækkaður úr 100 þúsund kr. í 200 þúsund árið 2015. Árlegt framlag verði síðan hækkað í 350 þúsund árið 2016. Hér er um mikið hagsmunamál kvenna og barna í Mosfellsbæ að ræða. Kvennaathvarfið veitir fórnarlömbum heimilisofbeldis hér mikla þjónustu. Núverandi styrkupphæð er ekki í neinu samræmi við þá aðstoð. Íbúahreyfingin fer því þess á leit að bæjarstjórn vísi tillögu þessari til bæjarráðs sem feli fjármálastjóra að útbúa viðauka við fjárhagsáætlun þannig að lögmæti hækkunarinnar sé tryggt.

Fulltrúar D- og V-lista felldu tillöguna.

Tillaga um hækkun styrkja til fjölskylduþjónustu

Íbúahreyfingin stóð í stórræðum í bæjarstjórn í vikunni eftir að ljóst varð hvað Mosfellsbær lætur árlega lítið af hendi rakna til fjölskylduþjónustunnar í formi styrkja. Á fundi bæjarstjórnar hafði bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar þetta um málið að segja:

moso“Séu styrkveitingar á sviði fjölskylduþjónustu til dæmis bornar saman við styrkveitingar í öðrum nefndum verður ljóst að verkefni á sviði fjölskylduþjónustu eru afar lítils metin, sé tekið mið af upphæðum, – og styrkir heldur ekki í neinum samræmi við vægi málefnis eða þá þjónustu sem umsækjendur veita Mosfellsbæ.”

Tillaga M- lista Íbúahreyfingarinnar um hækkun á ráðstöfunarfé fjölskyldusviðs til að veita styrki

Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar fer þess á leit að heildarupphæð ráðstöfunarfjár til styrkja á sviði fjölskyldumála verði hækkuð úr kr. 300 þúsund í kr. 600 þúsund á fjárhagsárinu 2015 og leggur til að málinu verði vísað til bæjarráðs sem fái það hlutverk að endurskoða áður áætlaðar styrkveitingar. Bæjarráð getur í þessu sambandi nýtt sér þá heimild í lögum að gera viðauka við fjárhagsáætlun til að tryggja lögmæti breytinganna. Eins og staðan er í dag er heildarupphæð ráðstöfunarfjár sviðsins alltof lág, þ.e. hlutfallslega álíka há á íbúa og Garðabær veitir einungis Kvennaathvarfinu árlega.

Fulltrúar D- og V-lista felldu tillöguna.

Pin It on Pinterest