Þaggað niður í lýðræðinu

Netið er öflugt tæki til að opna stjórnsýsluna og afnema þá leyndarhyggju sem hefur verið ríkjandi í íslenskum stjórnmálum. Netið opnar íbúum aðgang að stjórnsýslunni og ýmir hópar, t.d. fatlaðir, aldraðir og einstæðir foreldrar, sem áður áttu erfitt um vik að mæta á fundi og aðra viðburði geta nú mætt með því að sitja við tölvuna heima hjá sér. Það er ef ráðandi öflum sýnist svo.

Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar lögðu öll framboð mikla áherslu á íbúalýðræði. Sjálfstæðismenn í Mosfellsbæ voru sjálfum sér samkvæmir og undir slagorðinu „Lýðræðisleg og styrk stjórn“ lögðu þeir áherslu á að stjórnsýsla bæjarins sé „skilvirk, gagnsæ og lýðræðisleg“. Þeir lofa einnig að þeir ætli „að móta lýðræðisstefnu og reglur um íbúakosningar“. Hér kemur fátt á óvart og augljóst á þessum áherslum að Sjálfstæðisflokkurinn hefur lítinn áhuga á að slaka á miðstýringunni sem ávallt hefur einkennt þennan foringjaholla stjórnmálaflokk. Sjálfstæðismenn ætla líka sjálfir að móta reglurnar, að því er virðist, án samráðs við íbúa.

Augljóst er að sínum augum lítur hver silfrið og í mínum huga gengur þessi hugmyndafræði mjög skammt í því að opna stjórnsýsluna og dreifa valdinu. En þær kröfur ganga nú ljósum logum um íslenskt samfélag.

Það kom því ekkert sérstaklega á óvart að Haraldur Sverrisson telji það „undantekningatilvik“ þegar Íbúahreyfingin fékk að hljóðrita fyrsta fund bæjarstjórnar þann 16.06.2010. Hljóðritunin er aðgengileg á www.ibuahreyfingin.is.

Það vakti hins vegar meiri undrun að forseti bæjarráðs hafnaði því á öðrum fundi bæjarstjórnar þann 30.06.2010 að fundurinn yrði hljóðritaður. Hann bætti svo um betur með því að lýsa því yfir að hann þyrfti ekki að rökstyðja ákvörðun sína. Það vill svo til að Forsetinn er fulltrúi Vinstri-Grænna í bæjarstjórn en í stefnuskrá þeirra stendur: „Við viljum koma í veg fyrir spillingu og hagsmunapólitík með opnum sveitarstjórnarfundum, öflugu samráði og aðgengi að öllum gögnum á netinu.“ (http://www.vg.is/stefna/malefni/)

Ég hef ekki heyrt nein rök fyrir þeirri ákvörðun að leyfa ekki hljóðupptökur á opnum fundum bæjarstjórnar, né detta mér nein haldbær rök í hug, svo ég spyr: Með hvaða rökum eru hljóðupptökurnar bannaðar?

Í öðru lagi sagði bæjarstjórinn í Fréttablaðinu 6. júlí síðastliðinn að til stæði að taka fundina upp og gera þá aðgengilega á netinu. Hvenær á að hrinda þessari einföldu og ódýru aðgerð í framkvæmd?

Kristín I. Pálsdóttir, íbúi í Mosfellsbæ

Íbúahreyfingin auglýsir eftir fulltrúum í nefndir

Langar þig að hafa áhrif á gang mála í Mosfellsbæ?

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ leggur áherslu á að skipað verði í nefndir á faglegum forsendum.  Því auglýsir Íbúahreyfingin eftir aðal-, vara- og áheyrnarfulltrúum í eftirtaldar nefndir:
Fjölskyldunefnd
Fræðslunefnd
Íþrótta- og tómstundanefnd
Menningarmálanefnd
Skipulags- og byggingarnefnd
Umhverfisnefnd og
Þróunar- og ferðamálanefnd

Íbúahreyfingin leitar eftir fólki sem hefur menntun, reynslu og/eða mikinn áhuga á málefnum þeirrar nefndar sem sótt er um starf í. Umsækjendur eru beðnir að senda inn rökstudda umsókn ásamt ferilskrá á netfangið ibuahreyfingin@ibuahreyfingin.is fyrir föstudaginn 27. ágúst 2010.
Íbúahreyfingin vill taka fram að það er engin hindrun að umsækjendur starfi, eða hafi starfað, með öðrum stjórnmálasamtökum.  Íbúahreyfingin gerir þá kröfu til umsækjenda að þeir séu reiðubúnir að starfa af heilindum fyrir íbúa Mosfellsbæjar og aðhyllist áherslur Íbúahreyfingarinnar.
Nánari upplýsingar www.ibuahreyfingin.is eða hjá Kristínu í síma 893 9327.

Pin It on Pinterest