Vegir ójöfnuðar eru margvíslegir

Vegir ójöfnuðar eru margvíslegir

Screen Shot 2017-05-30 at 10.26.39Fjöldi leiguíbúða á vegum sveitarfélaga er hvergi minni en í Mosfellsbæ að Garðabæ frátöldum. Varasjóður húsnæðismála og Velferðarráðuneytið hefur gefið út skýrslu um ástandið. Þar kemur fram að Mosfellsbær leigir út 0,31 íbúð á 100 íbúa. Til samanburðar eru íbúðirnar 1,99 í Reykjavík. Í skýrslunni eru margvíslegar upplýsingar og veitir hún góða innsýn í stöðuna hér. Mosfellsbær leigir, ásamt Garðabæ, Seltjarnarnesi og Hveragerði, fæstar íbúðir til efnaminni hópa. D-listi er við völd í öllum þessum sveitarfélögum og eru tölurnar sláandi.
Í umræðum um félagslegar íbúðir vísa fulltrúar D-lista í Mosfellsbæ gjarnan til þess að það sé stefnan að sveitarfélagið taki frekar íbúðir á leigu til að leigja út en byggja eða kaupa sjálft húsnæði. Gott og vel. Stefnan hefur þó hvergi leyst vandann því lítið sem ekkert framboð hefur verið á leiguhúsnæði á frjálsum markaði. Mosfellsbær hefur því lengi vel ekki getað tekið íbúðir á leigu til að svara þörfinni. Fyrrgreind stefna hefur því frekar verið skálkaskjól en úrræði fyrir íbúa í vanda en þeim fjölgaði til muna tímabundið í kjölfar Hrunsins.
Vegir ójöfnuðar eru margvíslegir og engu líkara en að fyrrgreind sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu nýti sér nálægðina við höfuðborgina og reyni með afar rýru framboði á félagslegu leiguhúsnæði að takmarka aðflutning og búsetu efnaminni. Þau lækka jafnvel útsvarið frekar en að bæta þessa oft tímabundnu þjónustu við íbúana. Afleiðingin er að íbúar sem þarfnast stuðnings þurfa að flytja annað og önnur sveitarfélög að greiða götu þeirra.
Í Mosfellsbæ hefur framboð á íbúðum á almennum markaði verið að glæðast og verður forvitnilegt að fylgjast með því hvaða áhrif það hefur á framboð á leiguíbúðum sveitarfélagsins. Þess má geta að nýverið tók Mosfellsbær 4 íbúðir á leigu til viðbótar þeim 30 sem fyrir eru þannig að hlutfall leiguíbúða er aðeins hærra en í skýrslunni. Íbúum hefur á sama tíma fjölgað og hefur það því lítil áhrif á tölfræðina.
Skýrslur sem fela í sér samanburð sem þennan eru mjög fræðandi fyrir sveitarstjórnarfulltrúa og aðra íbúa og ber að þakka Varasjóði húsnæðismála og Velferðarráðuneytinu fyrir að hafa lagt í þessa vinnu.

Hér er skýrslan.

Bæjarstjóri svarar gagnrýni með breyttum úthlutunarreglum

Bæjarstjóri svarar gagnrýni með breyttum úthlutunarreglum

Í morgun samþykkti bæjarráð Mosfellsbæjar erindi bæjarstjóra þess efnis að breyta reglum um úthlutun leigulóða. Það vekur athygli að ákvæði sem fjallar um að umsækjandi um lóð skuli sýna fram á að geta staðið undir áætlaðri fjárfestingu hefur verið breytt á þann veg að nú getur pólitískt skipað bæjarráð sett viðmið um skil fjármálaupplýsinga í hvert skipti sem það úthlutar lóð. Með því að breyta umræddu ákvæði er oddviti D-lista með stuðningi fulltrúa S-lista ekki einungis að treysta vald sitt, heldur líka að skjóta sér undan gagnrýni Íbúahreyfingarinnar vegna úthlutunar lóðar undir einkasjúkrahús fyrir erlenda auðkýfinga þar sem ekki var farið eftir reglunum.

Í núgildandi reglum um úthlutun lóða segir í grein 2.2.3:

“Einstaklingur sem umsækjandi um lóð skal leggja fram greiðslumat frá viðskiptabanka eða fjármálastofnun og skal greiðslumatið uppfylla þær kröfur er íbúðalánasjóður/ viðskiptabankarnir gera til lántakenda sinna, greiðslumatið skal bera það með sér að umsækjandi geti staðið undir þeirri fjárfestingu sem áætluð er og tilgreind í auglýsingu. Lögaðili sem umsækjandi um lóð skal leggja fram mat frá viðskiptabanka eða fjármálastofnun ásamt greinargerð umsækjanda sjálfs um að viðkomandi geti staðið undir þeirri fjárfestingu sem áætluð er og tilgreind í auglýsingu. “

Í nýju reglunum er þessu ákvæði breytt á eftirfarandi veg:

“Umsækjendur skulu geta sýnt fram á að þeir hafi fjárhagslega getu til að standa undir kostnaði við öflun lóðar og byggingu mannvirkja í samræmi við þau viðmið sem bæjarráð setur hverju sinni í úthlutnarskilmála.”

Með því að breyta lóðaúthlutunarreglunum er oddvitinn, eins og áður segir, ekki einungis að treysta vald sitt, heldur að skjóta sér undan gagnrýni. Íbúahreyfingin hefur ítrekað bent á að bæjarráð braut reglurnar þegar það úthlutaði skúffufyrirtæki í Hollandi lóð undir einkasjúkrahús fyrir erlenda auðkýfinga í júlí í fyrra. Reglurnar sem fara átti eftir kváðu á um að greiðslumat frá viðskiptabanka eða fjármálastofnun þyrfti að liggja fyrir þegar lóð væri úthlutað en ekki eftirá eins og raun varð á. Lóðarleigu- og kaupréttarsamningar voru þess í stað undirritaðir án nokkurra upplýsinga um fjárhagslegan bakgrunn Hendriks E. Middeldorps og Gunnars Ármannssonar og þeim veittur eins og hálfs árs frestur til að skila þeim en þess má geta að annar samningsaðilinn, Gunnar Ármannsson, hafi áður gert slíkan samning við Mosfellsbæ í nafni Primacare sem ekkert varð úr.

Skv. nýju reglunum er bæjarráði gefið svigrúm til að setja “viðmið” um fjármálaupplýsingar í útboðsskilmála “hverju sinni”. Í reynd verður það því þannig að tekin verður pólitísk ákvörðun um hvernig upplýsingum umsækjendur skuli skila í hvert skipti sem sótt er um tiltekna lóð. Ferlið er því orðið ógegnsætt og háð geðþóttaákvörðunum atkvæðisbærra fulltrúa D- og S-lista í bæjarráði.

Þess má geta að Úthlutunarreglur Mosfellsbæjar voru upphaflega settar í kjölfar gagnrýni frá félagsmálaráðuneytinu og Umboðsmanni alþingis í byrjun aldarinnar. Í þessari breytingu felst að mati Íbúahreyfingarinnar afturför til þess tíma.

Bókun M-lista Íbúahreyfingarinnar í bæjarráði 11. maí 2017
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar telur að breytingar á úthlutunarreglum frá 2011 gefi bæjarráði of mikið svigrúm til að úthluta lóðum eftir hentugleikum og auki ógagnsæi um úthlutun og mun því ekki greiða atkvæði með þeim.

Pin It on Pinterest