Það er tímans tákn að upplýsingar um greiðslur úr opinberum sjóðum skuli vera aðgengilegar almenningi. Launakjör stjórnmálamanna og stjórnsýslu eru þar á meðal. Mikið er rætt um nauðsyn þess að efla trú almennings á stjórnmálum og stofnunum þessa lands. Væri ekki skref í rétta átt að láta þessar upplýsingar í té? Upplýsingalög taka reyndar af allan vafa um að þessar upplýsingar skuli veita þeim sem eftir þeim óska. Íbúahreyfingin ákvað að láta á það reyna og hefur sent Mosfellsbæ eftirfarandi fyrirspurn:

Undirrituð óskar eftir upplýsingum um útgjöld bæjarsjóðs vegna greiðslna til bæjarfulltrúa og varamanna þeirra og helstu yfirmanna stjórnsýslu Mosfellsbæjar. Með greiðslum er átt við föst mánaðarlaun og aðra kostnaðarliði. Markmiðið er að fá tölur til samanburðar og upplýsingar um útgjöld bæjarsjóðs.

1) Launakjör bæjarfulltrúa

Óskað er eftir sundurliðuðum upplýsingum um launakjör hvers bæjarfulltrúa og varamanna sem taka þeirra sæti. Átt er við föst mánaðarlaun vegna setu í bæjarstjórn, bæjarráði, nefndum og formennsku í nefndum. Þá er og óskað upplýsinga um fastar og breytilegar greiðslur til einstakra bæjarfulltrúa í formi bílastyrkja, endurgreidds bifreiðakostnaðar, endurgreidds útlagðs kostnaðar, síma- og netkostnaðar og laun varamanna vegna fundasetu í bæjarstjórn og bæjarráði. 

2) Launakjör framkvæmdastjóra sviða, yfirmanna og lykilstarfsmanna

Auk þess er óskað eftir sundurliðuðum upplýsingum um launakjör einstöku framkvæmdastjóra sviða og föst laun yfirmanna og lykilstarfsmanna á bæjarskrifstofu, ásamt upplýsingum um fasta og breytilega yfirvinnu, bílastyrki, endurgreiddan bifreiðakostnað, endurgreiddan útlagðan kostnað og síma- og netkostnað.

3) Launakjör bæjarstjóra

Einnig er óskað eftir upplýsingum um mánaðarlaun bæjarstjóra og greiðslur sem hann fær þar fyrir utan fyrir setu í nefndum, kostnað vegna fastrar og breytilegrar yfirvinnu, bílastyrks, endurgreiddan reksturskostnað bifreiðar, ferðakostnað, kostnað vegna risnu og vegna síma- og netkostnaðar.

4) Greiðslur vegna starfslokasamninga

Auk þess er óskað eftir upplýsingum um kostnað Mosfellsbæjar vegna biðlauna og/eða starfslokasamninga við einstaka framkvæmdastjóra, yfirmenn og lykilstarfsmenn á fjárhagsárunum 2016 og 2017.

Tímabilin sem óskað er upplýsinga fyrir eru fjárhagsárið 2016 og fjárhagsárið 2017. Til skýringar skal tekið fram að auk bæjarfulltrúa og varamanna þeirra, er með tilvísun til helstu yfirmanna átt við framkvæmdastjóra fjölskyldu-, fræðslu- og umhverfissviðs, forstöðumenn þjónustu- og samskiptadeildar, mannauðsdeildar og fjármáladeildar, auk lögmanns bæjarins, byggingarfulltrúa, skipulagsfulltrúa og umhverfisstjóra.

Með kveðju,
f.h. Íbúahreyfingarinnar
Sigrún H Pálsdóttir, bæjarfulltrúi
S. 866 9376

Pin It on Pinterest

Share This