Kjörstaður vegna bæjarstjórnarkosninganna er í Lágafellsskóla við Lækjarhlíð og stendur kjörfundur frá kl. 09-22. Aðsetur yfirkjörstjórnar á kjördag verður á sama stað. Munið efitr að hafa með ykkur skilríki.
Ef þig vantar akstur á kjörstað hringdu í síma 866-9376.
Kosningavaka Íbúahreyfingarinnar verður á Ásláki og hefst kl. 21.30. Allir eru velkomnir!
Við minnum á að algengasta ástæðan fyrir því að kjörseðlar eru ógildir er sú að fólk merkir við einn lista en strikar svo frambjóðanda út á öðrum lista. Þó að mikil umræða hafi verið um persónukjör hefur engum lögum verið breytt í þá átt og því má fólk bara kjósa einn lista og heimilt er að strika út af honum. Svo segir í lögum um kosningar til sveitarstjórna:
▪ 58. gr. Kjósandi greiðir atkvæði við bundnar hlutfallskosningar á þann hátt að hann markar með ritblýi kross á kjörseðilinn fyrir framan bókstaf þess lista sem hann vill kjósa af þeim sem í kjöri eru.
▪ Vilji kjósandi breyta nafnaröð á lista þeim er hann kýs setur hann tölustafinn 1 fyrir framan það nafn er hann vill hafa efst, töluna 2 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa annað í röðinni, töluna 3 fyrir framan það nafn sem hann vill hafa það þriðja o.s.frv., að svo miklu leyti sem hann vill breyta til.
▪ Ef kjósandi vill hafna frambjóðanda á þeim lista sem hann kýs strikar hann yfir nafn hans.
▪ 59. gr. Atkvæðagreiðsla við óbundnar kosningar fer fram með þeim hætti að kjósandi skrifar í kjörklefa á kjörseðilinn fullt nafn og heimilisfang aðalmanna á þann hluta kjörseðilsins sem ætlaður er fyrir kjör aðalmanna.
▪ Á þann hluta seðilsins sem ætlaður er fyrir kjör varamanna skal hann rita nöfn varamanna og heimilisföng þeirra í þeirri röð sem hann kýs að þeir taki sæti allt að þeirri tölu sem kjósa á.
▪ 60. gr. Kjósandi gætir þess, hvernig sem hann kýs, að gera engin merki á kjörseðilinn fram yfir það sem segir í lögum þessum.
▪ 61. gr. Kjósandi má ekki hagga neitt við listum sem hann kýs ekki, hvorki strika yfir nöfn á þeim né breyta á þeim nafnaröð.