Ég var að koma af opnum fundi um drög að lýðræðisstefnu Mosfellsbæjar. Þar sem ég komst ekki á mælendaskrá á fundinum ætla ég að senda lýðræðisnefndinni bréf með nokkrum hugmyndum um lýðræðisvæðingu og deila því með ykkur þar sem lýðræðið varðar okkur öll.
Í fyrsta lagi er ég mjög hugsi yfir þessu fundarformi sem boðið var upp á á fundi nefndarinnar.
Fyrst var kynning á drögum að lýðræðisstefnunni, sem var í sjálfu sér nauðsynleg en síðan tók við hið sígilda atriði: „Fyrirspurnir úr sal“.
Því má skjóta inn í að fundarstjóri var framkvæmdastjóri bæjarins, en hann var ekki valinn af fundarmönnum. Kannski væri lýðræðislegra að fundarmenn veldu sér sjálfir fundarstjóra?
Í pallborði sat svo lýðræðisnefndin sem eingöngu er skipuð fólki úr bæjarstjórn, bæjarstjórinn sjálfur formaður. Það gæti verið ferskara að fá inn í svona nefnd aðila sem ekki eru beint tengdir stjórnmálaflokkunum, sem flestir eru einmitt í mikilli lýðræðiskrísu um þessar mundir? Það er allavega ljóst að lýðræðisnefnd á vegum sveitarfélags án þátttöku íbúa væri óhugsandi á öðrum Norðurlöndum.
En svo að ég snúi mér aftur að „fyrirspurnum úr sal“. Þær fara þannig fram að þær fáu hræður sem nenna að mæta á svona fundi, flestar flokksbundnar, fá að bera upp spurningar við fyrirmennin í pallborði.
Nú ber fundarmaður upp spurningu. Ef við erum heppin þá er það málefnaleg spurning sem leiðir umræðuna áfram. Ef við erum óheppin þá er það einhver tengdur meirihlutanum að taka upp fundartíma og hrósa samstarfsfélögunum fyrir góða og mikla vinnu. Síðan fá allir í pallborði að bregðast við spurningunni, eins lengi og þeir vilja.
Athugið að fólk í sal þarf að bera fram spurningu til pallborðsins. Það er ekki leyfilegt að standa upp og tjá sig án þess að pallborð fái að taka annan hring. Með þessu móti tókst að koma örfáum spurningum að á fundi nefndarinnar á meðan formaður og aðrir í nefndinni notuðu um 90% fundartímans.
Ég reyndi ítrekað að blanda mér í umræðuna en bláu hendurnar virtust mun lunknari við að ná sambandi við fundarstjórann þannig að ég komst ekki að. Né konurnar sem sátu mér til beggja handa.
Borgararnir virðast algjört aukaatriði á svona fundum og við, þessar fáu hræður sem erum ekki í golfi, að græða eða að grilla, heldur mætum og tjáum okkur á svona fundum erum litnar hornauga. Orðið „frekjudós“ heyrist hvíslað úr flokksráðshorninu.
Ég er ekki viss um að ég nenni að mæta á svona fund aftur. Þetta er dautt form. Það gengur út á það að valdhafar reyna að missa ekki valdið á „orðinu“ til frekjulýðsins sem er ekki nógu „jákvæður“.
Mér heyrðist reyndar að lýðræðisnefndin hefði mestar áhyggjur af því að einhverjir yrðu dónalegir ef þeir fengju að tjá sig óhamið á netinu. Sennilega hefur nefndin ekki fengið góða ráðgjöf um netmiðla og samskiptaform. Það er hægt að gera margt til að losna við ómálefnalega umræðu á netinu annað en að loka samskiptavefjum, eða að loka á samskipti á samskiptavefjum. Á Facebook er t.d. ágætt kerfi þar sem notendur sjálfir velja þá frá sem ekki kunna mannasiði.
En ástæða þess að ég var að rembast við að rétta upp hönd á fundinum var sú að í síðustu viku fór ég á ráðstefnu um íbúalýðræði á vegum innanríkisráðuneytisins. Ekki sá ég neinn úr lýðræðisnefnd þar, né bláu hendurnar. Þar kom margt nýtilegt fram fyrir þá sem eru að vinna að lýðræðisúrbótum. T.d. var Gunnar Grímsson með kynningu á kerfi sem hann og félagar hans hafa hannað til að auðvelda aðkomu íbúa að þeim málum sem eru til umfjöllunar í stjórnkerfinu. Hér er krækja á glærurnar hans Gunnars. En eins og sjá má í glærunum kom Gunnar að þróun Skuggaþings og Skuggaborgar. Á næstunni er svo væntanlegur endurbættur og notendavænn vefur til að auðvelda borgurunum þátttöku.
Einnig talaði á ráðstefnunni Bruno Kaufmann, formaður samtakanna Initiative and Referendum Institute Europe. Kaufmann er Svisslendingur en þeir eru sú þjóð sem hvað mesta reynslu hefur af málefnakosningum. Hann sagði meðal annars frá því að í Sviss gæti fólk nú bæði sent atkvæði sín með tölvupósti eða sms-skilaboðum.
Umræður á fundinum snérust að miklu leyti um hvað lýðræðisvæðingin væri tæknilega flókin. Við þurfum hins vegar ekkert að finna upp hjólið í Mosfellsbæ. Út um allt land og alla Evrópu er grasrótin að þróa hugmyndir og tækni til að auðvelda aðkomu borgaranna að þátttöku í lýðræðisferlum. Lýðræðisnefnd Mosfellsbæjar virðist hins vegar hafa látið nægja að fara í heimsókn í Garðabæinn.
Ég fór út af fundinum með þá sterku tilfinningu að tæknivandamálin væru hlægileg miðað við óttann sem ég skynjaði við það að valdaelítur þurfi að deila valdinu með almenningi. Ég hef líka á tilfinningunni að þessi fundur hafi, eins og svo margir fundir á undan honum, ekki verið haldinn til að skiptast á hugmyndum heldur til að setja strik í kladdann: Við héldum íbúafund. Tékk.
Svo er hægt að telja hann upp á listanum fyrir næstu kosningar.
Hvað gerðum við í lýðræðismálum á kjörtímabilinu?
Við héldum fund.
Kristín I. Pálsdóttir
Greinin birtist á vefritinu Smugunni, www.smugan.is, 22. september 2011