Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ hefur ekki setið með hendur í skauti fyrsta ár kjörtímabilsins, hún hefur beitt sér í nær öllum málum.
Fljótlega eftir kosningar þurfum við að beita okkur vegna misbeitingar valds. Sjálfstæðisflokkur og VG höfðu sent út pólitískan áróður í nafni Mosfellsbæjar. Í yfirlýsingu sem enn má sjá á www.mos.is er Mosfellsbær látinn túlka niðurstöðu kosninga með orðunum „Niðurstöður kosninganna eru skýr skilaboð um ánægju íbúa”. Hér er graf sem sýnir niðurstöður síðustu tveggja sveitarstjórnarkosninga í Mosfellsbæ, skilaboðin eru skýr. Mosfellingar eru alls ekki ánægðir:
M-listi fékk nær 9% atkvæða, auð og ógild atkvæði tvöfölduðust, og um þriðjungi fleiri kjósendur mættu ekki á kjörstað. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði nærri 5% fylgi og VG um 2%. Fólk þarf svo að athuga hvort það vilji áróður af þessum toga frá sínum flokki. Eitt er þó ljóst, Íbúahreyfingin situr ekki hjá þegar misbeiting valds er annars vegar og stjórnsýslan er notuð til að ljúga að íbúum.
Önnur mál sem Íbúahreyfingin hefur beitt sér fyrir:
Hljóðritun og birting á fundum bæjarstjórnar: Fyrst neitaði forseti bæjarstjórnar að leyfa hljóðritanir. Síðan var miklum kostnaði borið við en eftir að Íbúahreyfingin sýndi fram á lausn sem kostaði 3% af þeirri upphæð var byrjað að taka fundina upp. Hljóðritanirnar eru hins vegar hvergi heyranlegar á vef Mosfellsbæjar.
Hvers vegna vilja hinir flokkarnir ekki að íbúar geti hlustað á opna bæjarstjórnarfundi? Í mörgum sveitarfélögum er bæjarstjórnarfundum útvarpað, jafnvel sjónvarpað.
Gagnsæi fundargerða: Það skortir mjög mikið á að fundargerðir bæjarfélagsins gagnist bæjarbúum. Í mörgum tilfellum er beinlínis komið í veg fyrir að ljóst sé hvaða málefni voru til umræðu og engin merki eru um þær umræður sem fram fara á fundunum. Dæmi um vísvitandi villandi nöfn á dagskrárliðum eru óteljandi og kerfisbundin. Eina ástæðan virðist vera að villa um fyrir bæjarbúum.
Niðurfelldar kröfur lögaðila: Íbúahreyfingin hefur beðið í 6 mánuði eftir rökstuðningi fyrir því að listinn yfir þessa aðila sé ekki birtur. Nú bíðum við ekki lengur listann má sjá hér að neðan:
Auk þess var afskrifað hjá 29 einstaklingum samtals 935.402 kr. Þar af 485.189 vegna hitaveitu að tillögu OR, 214.992 vegna leikskólagjalda, 177.790 vegna mötuneytis/frístundar grunnskóla, 28.125 vegna hundaeftirlitsgjalds. Svo eitthvað sé nefnd.
Upplýsingaveita til íbúa: Við reynum vitaskuld að draga fram í dagsljósið upplýsingar sem bæjarbúar eiga fullan rétt á að vita en haldið er frá þeim með ýmsu móti. Það gengur seint. Oft tekur mánuði að fá upplýsingar sem bæjarfulltrúi á rétt á. Það tók til að mynda 4 mánuði að fá upplýsingar um laun og hlunnindi bæjarstjóra og það varð hreinlega allt vitlaust þegar við báðum um upplýsingar um laun og hlunnindi æðstu embættismanna.
Sjálfskuldarábyrgð fyrir einkafyrirtæki: Á síðasta kjörtímabili skrifaði bæjarráð undir ólöglega sjálfskuldarábyrgð Mosfellsbæjar fyrir einkafyrirtæki upp á kvartmilljarð. Við erum ekki í neinum vafa um að bæjarráðsmenn vissu að þetta væri ólöglegt og fórum því fram á að þeir segðu allir af sér. Innanríkisráðuneytið hefur tekið málið til nánari athugunar á grundvelli 1. mlg. 103. gr. sveitarstjórnarlaga.
Gagnsæi: Íbúahreyfingin hefur beitt sér fyrir gagnsæi allstaðar þar sem hægt er, í nefndum bæjarins, bæjarstjórn, bæjarráði, þingi Sambands Íslenskra Sveitarfélaga (en þar var Íbúahreyfingin ein með með mál fyrir þingið). Gömlu flokkarnir skipta á milli sín stjórnarsætum hjá sambandinu og þeir vilja engar breytingar í átt að auknu gagnsæi eða íbúalýðræði, fólk getur haft sína skoðun á því, en okkar skoðun er sú að þeir sem vilja leyna einhverju hafi einhverju að leyna og að ógagnsæi sé gróðrarstía spillingar.
Opinn hugbúnaður: Þá hefur Íbúahreyfingin ítrekað bent á að með innleiðingu opins hugbúnaðs megi spara tugi milljóna á ári og minnkað niðurskurð sem því nemur, en meirihlutinn hefur greinilega meiri áhuga á niðurskurði á þjónustu.
Atvinna: Íbúahreyfingin hefur komið með nokkrar atvinnuskapandi tillögur s.s. sleppitjörn, vatnaskíðabraut o.f.l. sem geta aukið tekjur sveitarfélagsins.
Íbúahreyfingin hefur ekki viljað veita Sambandi Íslenskra Sveitarfélaga samningsumboð án fyrirvara á grundvelli laga sem brjóta ákvæði stjórnarskrárinnar (t.d. Lög nr. 94/1986). Þau skilyrði sem Íbúahreyfingin vill setja fyrir samningsumboð eru:
• Að ekki verði samið við stéttarfélög um áframhaldandi beinar greiðslur til þeirra sem ekki komi fram á launaseðli launafólks. Hér er átt við allar greiðslur hverju nafni sem þær nefnast.
• Að mótframlag í lífeyrissjóði verði eftirleiðis tilgreint á launaseðlum launafólks.
• Að Samband íslenskra sveitarfélaga virði 74. grein stjórnarskrár og semji við þau félög sem óska eftir samningum en þröngvi launafólki ekki til þess að tilheyra ákveðnu félagi.
• Að ekki sé samið við stéttarfélög þar sem lýðræði og gagnsæi gagnvart launafólki er ekki virt, enda geta stjórnir slíkra félaga vart talist fulltrúar umbjóðenda sinna.
• Auk þess leggur bæjarstjórn Mosfellsbæjar til að samninganefnd komi því inn í samninga að greiðslur í atvinnutryggingasjóð verði meðhöndlaðar á sama hátt og annar tekjuskattur á launþega á launaseðli launafólks í stað þess að fela skattheimtuna og gera launafólki ókleift að fylgjast með sköttum sínum, réttindum og öðrum greiðslum.
Jón Jósef Bjarnason