Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ er ákjósanlegur valkostur fyrir Mosfellinga í komandi kosningum. Íbúahreyfingin mun beita sér fyrir auknu íbúalýðræði og umræðu um málefni bæjarins. Til að mynda viljum við að tiltekinn hluti íbúa geti kallað fram íbúakosningu um einstök mál að undangenginni hlutlausri og faglegri kynningu. Ákvörðun um byggingu menningarhúss er gott dæmi um mál sem íbúar ættu að fá að kjósa um.
Íbúahreyfingin hyggst beita sér fyrir faglegri og gegnsærri stjórnsýslu. Við viljum að skipað verði í nefndir á faglegum forsendum og að virkar siðareglur fyrir kjörna fulltrúa verði viðhafnar.
Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ boðar valddreifingu. Við viljum skilja á milli framkvæmdavalds (bæjarstjóra) og löggjafarvalds (kjörinna fulltrúa). Á þeim forsendum hugnast okkur að bæjarstjóri verði ráðinn á faglegum forsendum og á hóflegum kjörum fremur en að oddvitar lista séu bæjarstjóraefni. Að sama skapi þurfa skýrar reglur um verkaskiptingu milli kjörinna fulltrúa og embættismanna að vera til staðar. Íbúahreyfingin vill ekki að fulltrúar í bæjarstjórn sitji lengur en tvö kjörtímabil.
Íbúahreyfingin boðar ábyrga fjármálastefnu á erfiðum tímum þar sem áhersla á velferð allra íbúa og almannahag verði ávallt í forgangi.
Íbúahreyfingin leggur áherslu á lýðræðislegri Mosfellsbæ og skorar á bæjarbúa að gera slíkt hið sama í sveitarstjórnarkosningunum þann 29. maí næstkomandi.
Þórður Björn Sigurðsson,
íbúi í Mosfellsbæ,
skipar 2. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar