Aðalfundur Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) samþykkti á föstudag, 2. desember, tillögu Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ um að breyta 6. gr. samþykkta samtakanna á þann veg að öllum framboðum sem náð hafa kjöri í sveitarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu verði framvegis heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa með tillögurrétt og málfrelsi á fundum fulltrúaráðs samtakanna.
Framboð sem ekki hafa hlotið nægilegt magn atkvæða til að tilnefna aðalfulltrúa í ráðið hafa hingað til staðið utan við þennan mikilvæga samstarfsvettvangi sveitarfélaganna. Undanskilin frá þeirri reglu hafa þó verið þau framboð sem eiga aðild að meirihlutasamstarfi.
Fyrirmynd að tillögu um áheyrnarfulltrúa sótti Íbúahreyfingin í 50. gr. nýrra sveitarstjórnarlaga nr. 138 frá árinu 2011 en þar er kveðið á um að framboðum sem náð hafa kjöri skuli vera heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa í bæjar- og borgarráð og ef sveitarstjórn leyfir aðrar fastanefndir. Öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu heimila áheyrnarfulltrúa í bæjar- og borgarráði og öll heimila þau áheyrnarfulltrúa í fastanefndum nema Garðabær. Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ber ekki að starfa samkvæmt lögunum en með því að samþykkja tillögu Íbúahreyfingarinnar eru þau þó að lýsa yfir vilja til að starfa í þeirra anda.
Reykjavíkurborg átti frumkvæði að því að taka upp ákvæði um áheyrnarfulltrúa í upphafi aldarinnar. Fleiri sveitarfélög fylgdu á eftir s.s. Mosfellsbær. Fyrsta tilraun til að koma ákvæðinu í lög var gerð af þingmönnum Vinstri grænna á 133. löggjafarþingi 2006 til 2007. Hún heppnaðist svo 2011.
Rökin sem þingmennirnir færðu fyrir frumvarpinu voru að því væri ætlað að efla lýðræði og gæta þess að framboðum væri ekki mismunað á grundvelli þess hvort þau væru í meirihlutasamstarfi eða ekki. Hæglega gæti komið upp sú staða að lítið framboð ætti fulltrúa í öllum nefndum en stærra framboð ætti þar engan fulltrúa. Í þessu fælist mismunun gagnvart kjósendum því það ætti ekki að skipta máli hvort listinn sem þeir kjósa er í meirihlutasamstarfi eða ekki. (Sjá http://www.althingi.is/altext/133/s/0288.html).
Það sem vakir fyrir Íbúahreyfingunni er að tryggja kjörnum fulltrúum á höfuðborgarsvæðinu jafnan aðgang að því málefnastarfi sem fram fer á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu; veita þeim jöfn tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri og nýta málfrelsið og tillöguréttinn sem þeim eru tryggð í sveitarstjórnarlögum, sbr. 26. og 27 gr.
En það er fleira sem skiptir máli. Jafn réttur til upplýsinga er ekki síður mikilvægur. Íbúahreyfingin telur málefnastarf vera uppsprettu lærdóms sem sérhver stjórnmálahreyfing sem á fulltrúa í sveitarstjórn ætti að hafa beinan aðgang að.
Í upphafi var hugmyndin að tillaga um áheyrnarfulltrúa næði til svæðisskipulagsins. Niðurstaða aðalfundar nú var að samþykkja ákvæði um áheyrnarfulltrúa í fulltrúaráði. Svæðisskipulagið bíður því betri tíma.
Sigrún H Pálsdóttir
bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar
S. 866 9376
Netfang: sigrunhpalsdottir@gmail.com og ibuahreyfingin@ibuahreyfing.is
P.s. mynd. Tölur um íbúafjölda eru úreltar en hér má sjá umdæmi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Íbúafjöldi nú er um 217 þúsund af 338 þúsundum á landsvísu, þ.e. um 2/3 hlutar landsmanna.