Bangsinn-BlaerLýðræðis- og jafnaðarstefna Samfylkingarinnar í Mosfellsbæ fór fyrir lítið í dag þegar fulltrúar flokksins í bæjarstjórn greiddu atkvæði með tillögu sjálfstæðismanna og vinstri grænna um að hafna ósk Íbúahreyfingarinnar um að tilnefna fulltrúa í nefnd sem ætlað er að endurskoða deiliskipulag 4. áfanga Helgafellslands. Þess ber að geta að skipuð hefur verið nefnd sem í eru fulltrúar allra hinna framboðanna, þ.e. D-, S- og V-lista.

Þetta er í annað sinn á þessu kjörtímabili sem Íbúahreyfingin er sniðgengin þegar kemur að skipun í vinnuhóp á vegum Mosfellsbæjar. Í fyrra tilfellinu var það þegar skipaður var starfshópur á vegum menningarmálanefndar um bæjarhátíðina Í túninu heima. Íbúahreyfingin óskaði eftir því að fá að taka þátt í því starfi með þeim afleiðingum að meirihlutinn ákvað að blása starfhópurinn af.
Undirrituð hafði á orði í dag að í ljós væri að koma ákveðið munstur ójafnræðis þegar kæmi að skipan í starfshópa. Í tvígang hefði Íbúahreyfingin verið sniðgengin sem vekti upp spurningar um hvort ekki væri ástæða til að bæjarstjórn skoðaði nánar verkefnið Vinátta sem kynnt var fyrir bæjarráði á leikskólanum Hlíð í síðustu viku.
Ljóst er að mismunun stríðir gegn fagmennsku og góðum stjórnarháttum á vettvangi bæjarmála. Það er mikilvægt að framboðin hafi öll góða yfirsýn og hún er fengin með því að þau taki þátt í endurskoðun sem þessari frá upphafi. Oftar en ekki fá kjörnir fulltrúar enga aðkomu að málum fyrr en þau eru komin á lokastig sem þýðir að þeir fá engu breytt, sbr. breytingar á skipuriti Mosfellbæjar nýverið.
Íbúahreyfingin hefur mikið fram að færa í skipulagsmálum og finnst aumt að fulltrúar D-, S- og V-lista skuli sameinast um að útiloka hana frá þátttöku.
Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar á fundi bæjarstjórnar 19. nóvember
Fulltrúi M-lista gerir að tillögu sinni að Íbúahreyfingin fái að tilnefna fulltrúa í vinnuhóp um endurskoðun á deiliskipulagi IV. áfanga Helgafellshverfis. Í vinnuhóp skipulagsnefndar eru fulltrúar allra annarra framboða í bæjarstjórn Mosfellsbæjar og því eðlileg krafa að jafnræðis sé gætt. Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar í skipulagsnefnd er reyndur arkitekt og hann því góður liðsauki fyrir þetta vandasama verkefni.

Tillagan felld með átta atkvæðum gegn einu. 

Bókun M-lista Íbúahreyfingarinnar
Fulltrúi M-lista mótmælir harðlega því misrétti sem í því felst að halda fulltrúa Íbúahreyfingarinnar fyrir utan vinnuhóp um endurskoðun á deiliskipulagi 4. áfanga Helgafellslands.
Íbúahreyfingin er eina framboðið sem ekki á fulltrúa í nefndinni. Engin málefnalega rök eru fyrir þessu ójafnræði.

Sigrún Pálsdóttir

Pin It on Pinterest

Share This