Þríeykið í bæjarstjórn Mosfellsbæjar, fulltrúar D-, S- og V-lista, ákváð í morgun á 1320. fundi bæjarráðs að aðhafast ekkert í máli varabæjarfulltrúans Jóns Jósefs Bjarnasonar og hafnaði tillögu M-lista Íbúahreyfingarinnar um aðgerðir í þeim tilgangi að finna lausn á vandanum.

Tildrög málsins eru þau að Jón Jósef Bjarnason sagði af sér embætti varabæjarfulltrúa með yfirlýsingum sem hann gaf í Mosfellingi (víðlesnasta fréttablaði í Mosfellsbæ sem sveitarfélagið sjálft notar til að koma á framfæri upplýsingum til íbúa) þann 29. júní sl. og á sömuleiðis víðlesnustu samskiptasíðu Mosfellinga, Íbúar í Mosfellsbæ á FB þann 10. júlí. Frá þeim tímapunkti hefur varabæjarfulltrúinn ekki sinnt fundarboðum sem staðfestir að hann er hættur.

Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar um að bæjarráð/bæjarstjórn aðhafist í máli varabæjarfulltrúa – 1320. fundur bæjarráðs 14. september 2017

Skv. áliti bæjarlögmanns getur bæjarstjórn Mosfellsbæjar ekki tekið mark á opinberum yfirlýsingum varabæjarfulltrúans Jóns Jósefs Bjarnasonar um afsögn. Sú niðurstaða leiðir af sér að hann heldur áfram að hirða laun úr bæjarsjóði þrátt fyrir að sinna ekki skyldum sínum sem varabæjarfulltrúi. Hún þýðir einnig að kjósendur og M-listi eru sviptir þeim lýðræðislega rétti, sem sveitarstjórnarlög gera ráð fyrir, að tilnefna starfandi varabæjarfulltrúa.

Að mati M-lista verður við svofellt ástand ekki unað og gerir bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar því að tillögu sinni að bæjarráð og bæjarstjórn aðhafist í þessu máli með því að senda varabæjarfulltrúa ábyrgðarbréf þar sem vísað er í opinberar yfirlýsingar hans um afsögn og hann beðinn að staðfesta hana eða bera til baka innan tilgreindra tímamarka. Geri hann ekki annað hvort muni bæjarstjórn líta svo á að fyrrgreindar opinberar tilkynningar feli í sér afsögn hans af þeim ástæðum sem þar eru tilgreindar, þ.e. af persónulegum ástæðum, enda hafi hann ekki sinnt fundarboðum síðan þær birtust.

Bókun D-, S- og V-lista

Bæjarráð hefur þegar aðhafst í málinu með því að fjalla um það á fundum sínum. Fyrir liggur minnisblað bæjarlögmanns þar sem fram kemur að á meðan umræddur varabæjarfulltrúi hefur ekki beint formlegu erindi til bæjarstjórnar þar sem hann óskar eftir því að fá lausn frá störfum, og ekki liggur fyrir að hann hafi misst kjörgengi, er bæjarstjórn ekki heimilt að veita umræddum varabæjarfulltrúa lausn frá störfum.

Bókun M-lista Íbúahreyfingarinnar

Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar harmar að bæjarráð skuli ekki sjá ástæðu til að leiða þetta mál til lykta. Sveitarfélagið greiðir Jóni Jósef laun sem varabæjarfulltrúi þrátt fyrir að hann hafi sagt sig opinberlega frá því starfi. Bæjarráð fer með fjármálastjórn bæjarins, auk þess að hafa lögbundið eftirlit með henni og á þess ábyrgð að sjá til þess að fjármunum bæjarbúa sé vel varið. Með aðgerðarleysi sínu bregst ráðið því hlutverki sínu og sviptir M-lista um leið þeim rétti að hafa starfandi varabæjarfulltrúa.

Það er ekkert í sveitarstjórnarlögum sem segir til um að varabæjarfulltrúar skuli senda bæjarstjórn formlegt erindi um afsögn. Jón Jósef sagði af sér með sannanlegum hætti og hefur ekki sinnt fundarboðum sem er staðfesting á afsögn hans. Íbúahreyfingin telur það vera næga ástæðu til að bæjarráð og bæjarstjórn aðhafist í málinu með þeim hætti sem tillaga Íbúahreyfingarinnar segir til um.

Tillaga Íbúahreyfingarinnar á 1319. fundi bæjarráðs 31. ágúst 2017

Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar óskar eftir því við bæjarráð að það leggi til við bæjarstjórn að taka til afgreiðslu afsögn Jóns Jósefs Bjarnasonar sem varabæjarfulltrúa Íbúahreyfingarinnar, þrátt fyrir að formlegt erindi hans til bæjarstjórnar þess efnis liggi ekki fyrir.

Sú óvenjulega staða er uppi að Jón Jósef hefur í tvígang lýst því yfir opinberlega í sumar að hann sé hættur sem varabæjarfulltrúi. Fyrri yfirlýsinguna birti hann þann 29. júní sl. sem Opið bréf til Mosfellinga í bæjarblaðinu Mosfellingi og þá síðari þann 10. júlí sem Opið bréf til bæjarstjórnar á samskiptasíðunni Íbúar í Mosfellsbæ á FB.

Sterk rök hníga að því að bæjarstjórn eigi að taka afsögnina til afgreiðslu. Tímaritið Mosfellingur er borið í öll hús í Mosfellsbæ og bærinn sjálfur notar þann vettvang til að koma öllum mikilvægum upplýsingum á framfæri við íbúa sína. Ljóst er á því að Mosfellsbær treystir því að efni blaðsins skili sér til íbúa.

Hin rökin eru að Opið bréf Jóns Jósefs til bæjarstjórnar birtist á samskiptasíðu sem mikill fjöldi bæjarbúa skiptist á skoðunum og upplýsingum á. Síðunni er haldið úti af íbúum og telur hún hátt i fjögur þúsund vini í tíuþúsund íbúa bæjarfélagi. Það má því færa rök fyrir því að yfirlýsingar hans hafi hlotið einhverja bestu dreifingu sem völ er á í Mosfellsbæ.

En það eru ekki einungis yfirlýsingar Jóns Jósefs sem gefa til kynna að hann sé hættur störfum sem varabæjarfulltrúi, heldur líka að í tvígang hefur hann ekki sinnt boðum bæjarfulltrúa Íbúahreyfingarinnar á fundi.

Það fer ekki á milli mála að Jón Jósef er hættur störfum. Hann þiggur samt laun úr bæjarsjóði sem varabæjarfulltrúi. Íbúahreyfingin efast um að það sé eðlileg meðferð sveitarfélags á skattfé að greiða einstaklingi laun sem varabæjarfulltrúa eftir að sá hinn sami hefur í tvígang lýst því yfir opinberlega að hann segi af sér og sýni jafnoft í verki að hann sé hættur með því að sinna ekki fundarboðunum, þ.e. mæta ekki á fundi þrátt fyrir boðun. Þetta tvennt saman, yfirlýsing í víðlesnasta tímariti í Mosfellsbæ og fjarvera á fundum ætti að mati Íbúahreyfingarinnar að teljast næg ástæða til að taka afsögn hans til formlegrar afgreiðslu í bæjarstjórn.

Eins hlýtur það að vera ábyrgðarhlutur af hálfu bæjarstjórnar að greiða Jóni Jósef laun. Greiðslur úr bæjarsjóði til einstaklings sem de facto er ekki lengur varabæjarfulltrúi verða að teljast mjög óeðlilegar, auk þess sem sú staða að taka ekki mark á afsögn hans kemur beinlínis í veg fyrir að lýðræðislega kjörinn fulltrúi sem ætti að taka hans sæti geti tekið við keflinu.

Íbúahreyfingin telur að bæjarstjórn geti skapað sér ábyrgð með því að hundsa opinberar tilkynningar varabæjarfulltrúans um afsögn og framangreindri meðferð á skattfé sveitarfélagsins.

Sigrún H Pálsdóttir, bæjarfulltrúi
S. 866 9376

Fundargerð bæjarráðs 14. september 2017

 

Pin It on Pinterest

Share This