Tónlistarlíf hefur lengi verið blómlegt í Mosfellsbæ, öflugur tónlistarskólli, lúðrasveit, hljómsveitir og kórar. Við vitum að tónlistarnám er gefandi veganesti út í lífið og tónlist það mikilvægur þáttur í daglega lífi og menningarstarfi að passa þarf upp á að hlúa að skólunum og öðru tónlistarstarfi samfélaginu til heilla.

Í tónlistarskólanum í Mosfellsbæ stunda um 250 nemendur nám og eru um 90 börn á biðlista eftir plássi. Ástæðan fyrir því að skólinn annar ekki eftirspurn er tvíþætt. Annars vegar plássleysi og hins vegar skortur á kennurum. Við plássleysinu reynir fræðslusvið að bregðast með því að færa kennsluna, að svo miklu leyti sem það er hægt, úr tónlistarskólanum inn í skólana.  Í Varmárskóla er einhver kennsla á skólatíma og í Krikaskóla sömuleiðis. Í nýja skólanum í Helgafellslandi er síðan gert ráð fyrir sérstökum stofum til tónlistarkennslu til að nýta á skólatíma.

Skort á kennurum við skólann má rekja aftur til hrunsins 2008 en þá var stöðugildum fækkað. Við gerð síðustu fjárhagsáætlunar var síðan einu stöðugildi bætt við og árið 2018 mun þeim fjölga um eitt og hálft. Fjöldi stöðugilda verður seinni part árs 2018 því orðinn sá sami og fyrir hrun. Frá þeim tíma hefur íbúum Mosfellsbæjar þó fjölgað umtalsvert og fyrirsjáanlegt að sú þróun haldi áfram.

Eitt af því sem meirihluti D- og V-lista hefur lagt áherslu á til að bregðast við vandanum er að efla samkennslu nemenda. Ljóst er að slíkt úrræði dugar einungis að hluta því tónlist er að miklu leyti einstaklingsmiðað nám. Sum hljóðfæri er ekki hægt að flytja svo auðveldlega á milli staða o.s.frv.

Tónlistarkennsla í grunnskólum er þó vissulega gott úrræði svo langt sem það nær. Í ört vaxandi sveitarfélagi verður hins vegar ekki hjá því komist að bæta aðstöðu tónlistarskólans og lúðrasveitarinnar. Til þess að svo verði ætti bæjarstjórn að setja sér tímasett markmið um að reisa hér tónlistarskóla með tilheyrandi aðstöðu til tónleikahalds. í skólanumi fengi lúðrasveitin líka skjól en aðstaða hennar í kjallara Varmárskóla er afar bágborin, bæði fyrir kennara og nemendur sem eru um 100 talsins.

Skipulagðar tómstundir barna eftir skóla hafa gert það að verkum að börn og ungmenni eiga sér athvarf  að skóladegi loknum. Vinnudagurinn er langur á Íslandi og biðin oft löng eftir útivinnandi foreldrum. Í því felst ákveðið öryggi fyrir foreldra að börnin skuli eiga þess kost að stunda uppbyggilegt tómstundastarf í lok skóladags. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa. Okkar litla þjóð á tónlistar- og íþróttafólk á heimsmælikvarða.

Forvarnagildi tómstundastarfsins er líka ótvírætt. Á fáum stöðum er neysla áfengis- og vímuefna jafn lítil og meðal ungmenna á Íslandi. Þetta hefur ekki gerst af sjálfu sér. Skipulögðu tómstundastarfi er þar fyrst og fremst fyrir að þakka. Við þurfum að passa að sofna ekki á verðinum og gæta þess að tapa ekki þessari einstöku sérstöðu.

Aðstöðu til tónlistarkennslu þarf sérstaklega að bæta. Í fullvissu um að fátt sé líklegra til að göfga manninn en tónlistin setti bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar fram tillögu um að bæta aðstöðu tónlistarskólans við gerð fjárhagsáætlunar Mosfellsbæjar 2018. Hún hljóðar svo:

“Tillagan gengur út á að bæta aðstöðu tónlistarskólans og fjölga stöðugildum til samræmis við fjölgun íbúa. Í tónlistarskólanum hafa verið langir biðlistar frá hruni en í kjölfar þess var stöðugildum kennara fækkað. Í fyrra var einu stöðugildi bætt við og nú á að fjölga þeim um eitt og hálft. Stöðugildi í lok 2018 verða því jafn mörg og þau voru fyrir hrun. Í millitíðinni hefur Mosfellingum þó fjölgað um 2500 og að sama skapi væntanlegum tónlistarsnillingum sem margir hverjir eru nú á biðlista. Skólann vantar meira húsnæði og er að einhverju leyti verið að vinna að því en betur má ef duga skal. Það þarf að bæta aðstöðuna og fjölga kennurum í takt við fjölgun íbúa.

Framboð á tónlistarkennslu getur ráðið úrslitum um hvort fólk flytur í Mosfellsbæ og því brýnt að setja meiri kraft og fjármagn í þetta verkefni.”

Sigrún H. Pálsdóttir, bæjarfulltrúi

Pin It on Pinterest

Share This