Jón Jósef Bjarnason, bæjarfulltrúi, bókaði eftirfarandi á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar 16. febrúar 2011 vegna umfjöllunar um sjálfskuldarábyrgðar bæjarins á láni til einkaaðila:

Bókun 1

Í námskeiðsefni Sambands Ísl. sveitarfélaga Hlutverk og ábyrgð sveitarstjórnarmanna eftir Önnu Guðrúnu Björnsdóttur, segir:
„Sveitarstjórnin er æðsta stjórnvald sveitarfélagsins. Sveitarstjórnarmaðurinn ber þar af leiðandi, sem fulltrúi í sveitarstjórn, hina endanlegu pólitísku ábyrgð á öllu sem gerist innan stjórnkerfis sveitarfélagsins, jafnvel þótt honum hafi ekki verið kunnugt um tiltekið mál. Sveitarstjórnarmaðurinn ber ábyrgð á ákvörðunum sem hann hefur átt þátt í að taka en það er líka hægt að draga hann til ábyrgðar ef hann hefur ekki brugðist við aðstæðum sem hann hefði átt að bregðast við.
Í lögfræðiáliti sem lögmannsstofan Lex vann fyrir Mosfellsbæ vegna þess máls sem hér er til umræðu segir:
„Fyrir liggur því að ábyrgð á lánveitingum til handa Helgafellsbyggingum hf. uppfyllti ekki skilyrði 6. mgr. 73. gr. sveitarstjórnarlaga enda var félagið hvorki í eigu sveitarfélagsins né í eigu annarra opinberra aðila á þeim tíma sem umræddir gerningar voru framkvæmdir.“
6. mgr. 73. gr. kveður á um að sveitarstjórnum sé óheimilt að ábyrgjast skuldir einkaaðila og um ákvæðið segir í áliti Lex að það „er talið fortakslaust og ófrávíkjanlegt þegar ábyrgðir sveitarfélaga eru veittar.“
Í ljósi þess sem að framan greinir fer Íbúahreyfingin fram á afsögn þeirra kjörnu fulltrúa sem ábyrgð bera á 246 milljóna sjálfskuldarábyrgð Mosfellsbæjar á láni til einkaaðila.
Íbúahreyfingin fer fram á að málinu verði vísað til úrskurðar Innanríkisráðuneytisins.
Þá leggur Íbúahreyfingin til að tekið verði til sérstakrar skoðunnar hvers vegna endurskoðendur gerðu engar athugasemdir á ársreikningum varðandi þessi meintu lögbrot fyrrverandi bæjarstjórnar. Draga verður faglega tortryggni endurskoðendanna í efa í ljósi þess að þeir telja sig ekki geta greint hvað teljist til daglegs reksturs, skv. umbeðnu áliti þeirra, en hér er um að ræða viðskipti sem eiga sér enga hliðstæðu í bókhaldi sveitarfélagsins.

Bókun 2

6. mgr. 73. Gr. Sveitarstjórnar hljóðar svona:
„Eigi má binda sveitarsjóð í ábyrgðir vegna skuldbindinga annarra aðila en stofnana sveitarfélagsins. Prókúruhafa sveitarsjóðs er þó heimilt fyrir hönd sveitarfélags að ábyrgjast með framsalsáritun greiðslu viðskiptaskjala sem sveitarfélagið hefur eignast á eðlilegan hátt í tengslum við daglegan rekstur þess.“
Í bréfi bæjarstjóra er því borið við að sjálfskuldarábyrgð bæjarins sé til komin vegna túlkunar á orðalaginu „daglegur rekstur“.
Í fyrsta lagi er álit Lex alveg skýrt að þessu leiti en þar segir:
„Þótt hugtakið „daglegur rekstur” sé ekki skilgreint sérstaklega í sveitarstjórnarlögunum, þá má með hliðsjón af venjulegri orðskýringu, öðrum ákvæðum laganna og með hliðsjón af eðli og umfangi starfseminnar, afmarka hugtakið við það sem getur talist eðlilegt í daglegum störfum framkvæmdastjóra, þ.e. þeim störfum sem hann kann að þurfa að framkvæma daglega. Alla jafna myndu þannig ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar ekki falla undir hinn daglega rekstur.“
Í öðru lagi er málsmeðferðin í sjálfri sér viðurkenning á því að ekki var litið á afgreiðslu málsins sem daglegan rekstur. Það var afgreitt í bæjarráði og bæjarstjórn, sem varla er venja með daglegan rekstur bæjarins, enda skrifar prókúruhafi bæjarins undir sjálfskuldarábyrgðina með vísun í afgreiðslu 950. fundar bæjarráðs.

Íbúahreyfingin lítur svo á að hagsmunagæsla fyrir íbúana geti aldrei falið í sér lögbrot.

Pin It on Pinterest

Share This