Bókun fulltrúa M lista varðandi ráðningu bæjarstjóra Mosfellsbæjar á fundi bæjarstjórnar þann 16. júní 2010
Eftirfarandi má lesa á heimasíðu Mosfellsbæjar um stefnur gildi og framtíðarsýn: „Þegar Haraldur Sverrisson tók við sem bæjarstjóri haustið 2007 var eitt hans fyrsta verkefni að leggja til við bæjarráð að hafin yrði vinna við stefnumótun hjá Mosfellsbæ með það að markmiði að gera gott bæjarfélag enn betra enda sé það frumskylda bæjaryfirvalda hverju sinni að spyrja spurninga um það hvort unnið sé í samræmi við stefnu sem stuðlar að bættum hag og velferð bæjarbúa.“
Í þessum anda var mannauðsstefna Mosfellsbæjar skrifuð síðar. Í henni segir: „Starfsmenn Mosfellsbæjar eru ráðnir á grundvelli reynslu, hæfni, menntunar og hæfileika til að takast á við starfið. Laus störf skulu auglýst á opinberum vettvangi og til að tryggja sanngirni og fagmennsku skulu allar ráðningar hjá Mosfellsbæ byggjast á samræmdu ráðningarferli. Kjör starfsmanna taka mið af kjarasamningum viðkomandi stéttarfélaga.”
Með vísan til mannauðsstefnu Mosfellsbæjar var lögð fram tillaga á fundi bæjarstjórnar um að staða bæjarstjóra yrði auglýst og starfskjör endurskoðuð. Því miður fór svo fyrir tillögunni að henni var hafnað af sitjandi meirihluta. Ætlun meirihlutans að ráða bæjarstjóra á pólitískum forsendum, án auglýsingar, gengur þvert gegn mannauðsstefnu Mosfellsbæjar. Það er slæmt fordæmi og vanvirðing við faglega stjórnsýslu.
Þórður Björn Sigurðsson