Fréttatilkynning

Á 597. fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar var lagt fram álit innanríkisráðuneytisins þar sem fram kemur að ákvæði sveitarstjórnarlaga séu fortakslaus að því er varðar sjálfskuldarábyrgðir sveitarfélaga á skuldum einkaaðila. Svo virðist sem meirihluti bæjarstjórnar ætli að sitja við sitt heygarðshorn og í stað þess að virða niðurstöðuna halda þau á lofti því sjónarmiði að um „lögfræðilegan ágreining“ sé að ræða. Íbúahreyfingin lagði fram eftirfarandi bókun á fundinum:

„Nú er ljóst skv. innanríkisráðuneytinu að „sú ákvörðun Mosfellsbæjar að gangast í framsalsábyrgð vegna þriggja víxla útgefnum af Helgafellsbyggingum hf. … hafi ekki verið í samræmi við ákvæði 6. mgr. 73. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998“ og „mat ráðuneytisins að ákvörðun Mosfellsbæjar um að gangast í sjálfskuldarábyrgð vegna láns að upphæð kr. 246.000.000 sem NBI hf. veitti Helgafellsbyggingum hf. þann 24. september 2009“ hafi ennfremur verið ólögleg.
Þar með er aftur staðfest að þeir fulltrúar D-, S-, V- og B-lista sem sátu í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili brutu með samþykki sínu ákvæði sveitarstjórnarlaga. Ákvæðin eru sett til þess að gæta hagsmuna sveitarfélagsins, íbúa þess og sem vörn gegn spillingu.
Til viðbótar við lögbrotin var svo hagsmunum íbúa Mosfellsbæjar kastað fyrir róða með því að tryggja lánin á ófullnægjandi hátt.
Íbúahreyfingin átelur framgöngu bæjarstjóra í fréttum RÚV hinn 14. janúar s.l. þar sem hann varpar ábyrgð á umræddum gjörningi á embættismenn bæjarins. Bæjarstjórinn minnist ekki á lögfræðiálit sem Mosfellsbær sannarlega fékk frá Lex lögmannsstofu, sem er samhljóða úrskurði innanríkisráðuneytisins um fortaksleysi ákvæðanna sem brotið er gegn, en vísar í að „tvö lögfræðiálit séu með aðra niðurstöðu en ráðuneytið“. Það er langt til seilst að kalla tölvupóst frá endurskoðendum bæjarins lögfræðiálit enda kemur þar fram að þeir telji æskilegt að óska eftir áliti Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hitt „álitið“ er svo “drög að punktum” frá Júris sem ekki er undirritað af lögfræðingum stofunnar.
Bæjarstjóri ber því einnig við að lögbrotin hafi verið „eina leið bæjarins á sínum tíma til að fá framgengt að fá þessa skuld greidda“. Það er ótrúverðugt og ekki boðlegt fyrir yfirvöld að brjóta lög, óháð því hvort talið sé að af því hljótist fjárhagslegur ávinningur. Slíkt kallast spilling.
Öll framganga meirihlutans í málinu hefur einkennst af ógagnsæi og leyndarhyggju og Íbúahreyfingin krefst afsagnar þeirra bæjarfulltrúa sem stóðu að þessum ólöglegu samningum þegar í stað.
Jón Jósef Bjarnason, fulltrúi Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ.“

Íbúahreyfingin bar einnig fram eftirfarandi tillögu:
„Tillaga íbúahreyfingarinnar.
Íbúahreyfingin leggur til að óháðir aðilar verði fengnir til þess að rannsaka viðskipti Mosfellsbæjar og Helgafellsbygginga ehf. Bæjarráði verði falið að útbúa nánari rannsóknarlýsingu.
Tillagan borin upp og felld með sex atkvæðum gegn einu atkvæði.“

Hér má sjá fundargerð fundarins.

Pin It on Pinterest

Share This