Íbúahreyfingin lagði fram eftirfarandi bókun við ársreikning Mosfellsbæjar 2011 á fundi bæjarstjórnar hinn 11. apríl.
Fundargerðina má sjá hér: http://mos.is/Stjornsysla/Lydraedi/Fundargerdir/
„Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar óskar bókað:
Mosfellsbær gefur út eina fjárhagsáætlun á ári, tilgangur fjárhagsáætlunar er greinilega misskilinn af meirihlutanum, henni er ætlað að marka rekstur ársins og eftir henni á að fara nema sérstakar ástæður koma upp.
Ársreikningur á m.a. skv. lögum að sýna hversu vel bæjarfélagið hefur staðist þá fjárhagsáætlun sem formlega var gefin út fyrir árið.
Þetta gerir ársreikningur 2011 ekki, hann er borinn saman við síðustu endurskoðuðu fjárhagsáætlun. Sú áætlun lýtur ekki þeim reglum sem formleg fjárhagsáætlun gerir, hún er nauðsynlegt innanhúsplagg en nær ekki lengra en það. Með því að nota hana í samanburði við rauntölur í ársreikningi er verið að fela frávik 9 mánaða á árinu frá gildandi fjárhagsáætlun.
Íbúahreyfingin lagði til í bæjarráði að framsetning ársreikningsins yrði löguð en það var fellt af meirihlutanum og úr bókun þeirra má lesa óábyrga afstöðu þeirra til málsins.
Nokkur dæmi:
Ársreikningur sýnir 1,17% frávik í skatttekjum en mismunurinn er í raun 8,87%.
Ársreikningur sýnir 7,57% frávik í framlögum úr jöfnunarsjóði en er í raun 24,70%.
Ársreikningur sýnir 6,43% frávik í öðrum tekjum sem í raun var 7,52%.
Tekjur eru sagðar með 3,29% fráviki sem er í raun 11.06%.
Frávik launa og launatengdra gjalda eru sögð vanáætluð um 1,65% en voru í raun vanáætluð um 8,92% en frávikið milli rauntalna og áætlunar er einna minnst þar.
Annar rekstrarkostnaður er sagður fara 13,87% fram yfir áætlun en fór í raun 22,88% framyfir.
Fjármagnsliðir eru vanáætlaðir um 45,06% en eru sagðir vanáætlaðir um -1,7% sem er gríðarlegur munur.
Íbúahreyfingin leggur til við bæjarstjórn að samanburður í ársreikningi miðist við við fjárhagsáætlun bæjarins, eins og lög kveða á um, en að endurskoðaðrar fjárhagsáætlunar sé getið í skýringum sé þess þörf.
Sveitastjórnarlög 61. gr. Ársreikningur.
Gera skal ársreikning fyrir sveitarsjóð, stofnanir sveitarfélagsins og fyrirtæki þess. Jafnframt skal gera samstæðureikning fyrir sveitarfélagið, þ.e. sveitarsjóð, stofnanir þess og fyrirtæki með sjálfstætt reikningshald, sbr. 60. gr. Ársreikningur skal gerður samkvæmt lögum um ársreikninga, reglum settum samkvæmt þeim lögum og lögum þessum, sem og góðri reikningsskilavenju.
Í ársreikningi skal koma fram samanburður við:
a. ársreikning undanfarins árs,
b. upphaflega fjárhagsáætlun ársins,
c. fjárhagsáætlun ársins ásamt viðaukum.
Vegna Helgafellsbygginga ehf.
Íbúahreyfingin vekur athygli á að ólöglegt er fyrir sveitarfélag að ganga í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldum einkaaðila skv. 69. gr. sveitarstjórnarlaga. Í 72. gr. sömu laga segir í 3ju málsgrein: „Endurskoðandi sveitarfélags skal jafnframt kanna hvort fullnægjandi heimildir hafi verið fyrir útgjöldum og hvort almenn stjórnsýsla sveitarfélags og einstakar ákvarðanir af hálfu þess eru í samræmi við reglur um fjármál sveitarfélags, ábyrga fjármálastjórn og upplýsingaskyldu sveitarfélaga.“
Reynist hér um lögbrot að ræða er það ekki í samræmi við reglur um fjármál, ábyrga fjármálastjórn né upplýsingaskyldu sveitarfélagsins.
Endurskoðanda ber því lagalega skyldu til þess að benda á þetta í ársreikningi.
Jafnframt bendir Íbúahreyfingin á að umrædd veð eru og hafa frá upphafi verið skráð á Mosfellsbæ og að verðmæti þeirra séu auk þess stórlega ofmetin.
Íbúahreyfingin lýsir ánægju með að endurskoðandi bæjarins skuli nú nefna „fasteign“ sem veð en ekki „fasteignir“ líkt og gert var í síðasta ársreikningi og Íbúahreyfingin benti árangurslaust á.“