Íbúahreyfingin lagði nýverið fram tillögu í bæjarráði um að gera íbúum kleift að taka þátt í gerð fjárhagsáætlunar. Tillagan hlaut jákvæðar undirtektir og sem fyrsta skref ætlar bæjarstjóri að ríða á vaðið og halda kynningarfund með íbúum um fjárhagsáætlun 2015. Í vor er síðan stefnt að víðtækara samráði við íbúa þegar vinna við fjárhagsáætlun 2016 fer af stað.
Tilhugsunin um að taka þátt í fjárhagsáætlunargerð kann að hljóma fráhrindandi fyrir marga en þegar betur er að gáð eru það samt peningarnir sem ráða úrslitum um í hvaða verkefni er ráðist. Að taka þátt í fjárhagsáætlunargerð er því einhver tryggasta leið íbúa til áhrifa.
Þekkt dæmi um þátttöku íbúa í fjárhagsáætlunargerð er frá Brasilíu. Í bæ einum höfðu nýlega farið fram kosningar og segir sagan að bæjarstjórinn hafi staðið ráðþrota gagnvart fátækt sem var mikil í bænum. Hann ákvað því við gerð fjárhagsáætlunar að kalla íbúa að borðinu til að fá frá þeim hugmyndir um hvernig best væri að takast á við vandann. Íbúar reyndust afar úrræðagóðir og fylgdu því fleiri borgir í kjölfarið. Það sem vekur athygli í þessu máli er hvað bæjarstjórinn sýndi íbúum mikið traust. Hann gaf sig ekki út fyrir að geta leyst málið einn síns liðs eins og venjan er í pólitík. Þetta aðdáunarverða uppátæki hefur síðan hlotið hljómgrunn um víða veröld og meira að segja haft áhrif hér á Íslandi.
Segja má að í þessum anda sé fyrirkomulag sem Reykjavíkurborg tók upp á síðasta kjörtímabili en það felur í sér að hverfasamtök fá til ráðstöfunar ákveðna fjárhæð til verkefna sem íbúar leggja til og forgangsraða eftir vægi.
Þessi útfærsla á íbúalýðræði er þess virði að skoða nánar. Á umræddum fundi gerði Íbúahreyfingin því að tillögu sinni að bæjarráð kannaði hvort ekki væri grundvöllur fyrir áþekku fyrirkomulagi hér og var því vel tekið.
En sveitarstjórnir hafa fleiri leiðir til að hvetja íbúa sína til þátttöku í mótun samfélagsins. Ein af þeim er að styðja við bakið á sjálfsprottnu starfi einstaklinga og félagasamtaka með styrkjum. Innan Evrópusambandsins hafa styrkveitingar skilað árangri en til þess þarf auðvitað regluverk sem gerir öllum jafn hátt undir höfði og ýtir undir farsæla þróun á öllum sviðum samfélagsins. Á Íslandi hafa augu fólks verið að opnast fyrir þeim möguleika að stuðla að nýsköpun með markvissum styrkveitingum. Hér í Mosfellsbæ hefur Íbúahreyfingin lagt til að fyrirkomulag styrkveitinga verði endurskoðað og betrumbætt og er nú verið að vinna úttekt á styrkjaumhverfinu.
Að lokum er vert að rifja upp þau alkunnu sannindi að forsenda þess að íbúar geti tekið þátt í umræðum um málefni bæjarfélagsins er að þeir fái greinargóðar upplýsingar um þau mál sem verið er að vinna í á vettvangi bæjarmála. Ritun fundargerða og vefur sveitarfélagsins hefur í því sambandi sætt gagnrýni. Undirrituð gerði tilraun til fá tillögu samþykkta um að bæta ritun fundargerða á síðasta kjörtímabili en fyrirstaðan var mikil. Á þessu kjörtímabili hefur málið oftsinnis komið til umræðu og mun gera þar til úr verður bætt. Eða er ekki svo að þolinmæðin þrautir vinnur allar?
Sigrún Pálsdóttir
bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar