Fulltrúar D- og V-lista felldu þá tillögu Íbúahreyfingarinnar að fjölga bæjarfulltrúum úr 9 í 11 á fundi bæjarstjórnar nr. 713  miðvikudaginn 21. mars .

Það var forvitnilegt að hlusta á rökin sem fulltrúar D- og V-lista færðu fyrir því að fella tillöguna. Bryndís Haraldsdóttir bæjarfulltrúi og þingmaður sagðist orðrétt ekki kaupa þau rök að það væri lýðræðislegra að fjölga bæjarfulltrúum. Sú skoðun er áhugaverð því hún er andstæð þeim rökum sem löggjafinn færir fyrir því að fjöldi fulltrúa í sveitarstjórnum skuli taka mið af íbúafjölda. Eftir því sem íbúum fjölgar skal skv. svetiarstjórnarlögum fjölga sveitarstjórnarfulltrúum og er það beinlínis eitt af tækjum löggjafans til að efla lýðræðið, sbr. texta í tillögunni hér að neðan.

Þess má geta að nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins hafa lagt fram frumvarp um að sveitarfélögum verði framvegis í sjálfsvald sett að ákveða fjölda fulltrúa í sveitarstjórnum. Frumvarpið má skilja sem ógn við lýðræðið því sá flokkur sem hefur mestan hag af því að halda niðri tölu sveitarstjórnarfulltrúa hefur hingað til verið Sjálfstæðisflokkurinn.

Þingmaðurinn og bæjarfulltrúinn Bryndís talaði líka um þann kostnað sem af því hlytist að fjölga bæjarfulltrúum sem fyrirstöðu.

Kolbrún Þorsteinsdóttir sagði hugtakið popúlismi sitja fast í sér undir þessari umræðu.  (Reyndar var það svo líka þegar undirrituð bar fram tillögu að efla jafnréttisfræðslu í Mosfellsbæ.) Bæjarfulltrúanum var líka tíðrætt um að vanda til verka. Málið væri seint til komið. Þá afsökun notuðu einnig Haraldur Sverrisson og Bjarki Bjarnason fulltrúi Vinstri grænna þegar þeir höfnuðu tillögu um fjölgun bæjarfulltrúa.

Undirrituð bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar benti á að málið væri vissulega seint til komið en ráðuneytið væri hins vegar tilbúið til að afgreiða það á innan við viku. Frestur til að skila inn framboðslista væri til 5. maí. Hægt væri því að koma málinu í gegn um 2 umræður í bæjarstjórn fyrir þann tíma. Hvað viðvíkur því að vanda til verka er staðreyndin sú að undirbúningavinna sveitarfélagsins og framboðanna er minniháttar. Vilji er í raun það sem þarf.

Hvað kostnaðarrökin varðar er það auðvitað svo að ef nota ætti kostnað til að ákveða fjölda bæjarfulltrúa er auðvitað ódýrast að hafa hér einræðisherra við völd.  Ef frumvarp flokkanna þriggja um valkvæðan fjölda sveitarstjórnarfulltrúa nær fram að ganga er sá veruleiki kannski nær en nokkurt okkar grunar.

Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar

“Bæjarstjórn leggur til að bæjarfulltrúum verði fjölgað í 11 frá og með sveitarstjórnarkosningum 2018. Heimild í lögum um fjölgun sveitarstjórnarfulltrúa hefur ekki verið nýtt til fulls en skv. 11. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er sveitarfélögum með 2.000 til 9.999 íbúa heimilt að hafa allt að 11 sveitarstjórnarfulltrúa. Sveitarfélögum með fleiri en 10.000 íbúa er heimilt að hafa 11-15 sveitarstjórnarfulltrúa. Tillaga Íbúahreyfingarinnar “er í samræmi við þá lýðræðislegu hugsun sem býr að baki sveitarstjórnarstiginu og reglum um kosningar til sveitarstjórna að sveitarstjórnarfulltrúar séu fulltrúar íbúa sveitarfélagsins og geti þar með á virkan hátt endurspeglað vilja íbúanna.”

Tillagan felur í sér breytingu á samþykktum Mosfellsbæjar.”

Niðurstöður: Tillagan felld með atkvæðum fulltrúa D- og V-lista. Tillöguna samþykktu fulltrúar M- og S-listi.

Bókun M-lista Íbúahreyfingarinnar

“Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar harmar þá niðurstöðu fulltrúa D- og V-lista að hafna fjölgun bæjarfulltrúa úr 9 í 11. Einnig þá staðhæfingu fulltrúa D-lista að fjölgun bæjarfulltrúa efli ekki lýðræðið. Það er lögbundið að fjölga bæjarfulltrúum í 11 til 15 í sveitarfélögum sem fara yfir 10 þúsund íbúa þannig að við stöndum frammi fyrir því í þar næstu kosningum að þeim verður fjölgað hvort sem er. Rökin fyrir því eru efling lýðræðis.

Vilji er því allt sem þarf. “

Sigrún H Pálsdóttir, bæjarfulltrúi

Pin It on Pinterest

Share This