Í tengslum við vinnu við fjárhagsáætlun 2011-2014 gerði Íbúahreyfingin athugasemd við að Mosfellsbær væri í sjálfskuldarábyrgð á láni til byggingafyrirtækis í einkaeigu upp á 246 milljónir kr. Tillaga Íbúahreyfingarinnar um að senda málið til Innanríkisráðuneytis var felld en samþykkt að leita álits lögmanns bæjarins og hefur það nú borist bæjaryfirvöldum. Niðurstaðan er einhlít, þ.e. það er að sjálfskuldarábyrgðin stangist á við sveitarstjórnarlög.
Þegar ráðist var í einkarekna samfélagsuppbyggingu í Mosfellsbæ var því heitið að enginn kostnaður félli á íbúa Mosfellsbæjar, eða eins og Haraldur Sverrisson orðaði það í greininni Ný hugmyndafræði um uppbyggingu íbúðahverfa haustið 2005: „Ljóst er að kostnaður við uppbyggingu leggst ekki á þá íbúa sem fyrir eru í bæjarfélaginu heldur stendur framkvæmdin sjálf undir þeim kostnaði. Þetta eru ánægjuleg tíðindi fyrir Mosfellinga.“
Þegar skrifað var upp á sjálfskuldarábyrgðina hinn 24. september 2009 var löngu ljóst að uppbyggingin í Helgafellslandinu hefði siglt í strand. Til marks um það er að í september 2008, fyrir Hrun, var farið að bjóða lóðirnar þar á á vaxtalausum lánum. Samkvæmt könnun Ara Skúlasonar hagfræðings á umfangi byggingarbólunnar var hlutfall byggingarmagns af fjölda íbúða í sveitarfélaginu 37,9% eða um 1000 lóðir og íbúðir á ýmsum stigum. Sama hlutfall var undir 20% í þeim sveitarfélögum sem komu næst á eftir. Samkvæmt upplýsingum í greinargerð með nýju aðalskipulagi er sveitarfélagið með lóðir og íbúðir sem uppfylla byggingarþörf næstu átta ára.
Í stað þess að viðurkenna skipbrotið sem einkavæðing skipulagsmála í sveitarfélaginu hafði í för með sér og láta einkafyrirtækið leysa sinn vanda, eins og einkafyrirtæki eiga að gera, var tekin sú ákvörðun, þvert á lög og pólitísk loforð, að ábyrgjast skuldir einkafyrirtækis. Það hefði væntanlega ekki verið þægilegt fyrir sitjandi meirihluta að fara inn í kosningar vorið 2010 ef bæjarbúar hefðu fengið réttar upplýsingar um afleiðingar hinnar „nýju hugmyndafræði“.
Í minnisblaði bæjarstjóra þar sem brugðist er við álitinu er því borið við að bæjaryfirvöld hafi talið að gerningar þeir sem til umfjöllunar eru í álitinu falli undir „daglegan rekstur“ bæjarfélagsins, en framkvæmdastjóri bæjarfélags má skv. sveitastjórnarlögum ábyrgjast fyrir hönd bæjarfélagsins slík minniháttar viðskipti. Íbúahreyfingin hefur vísað þeirri túlkun á bug enda um mjög háa fjárhæð að ræða og viðskipti sem tæpast eiga sér hliðstæðu í bókhaldi bæjarfélagsins. Þá ber meðferð málsins þess merki að ekki hafi verið litið á afgreiðslu þess sem daglegan rekstur. Málið var afgreitt í bæjarráði og bæjarstjórn, sem varla er venja með daglegan rekstur sveitarfélagsins. Þá skrifar prókúruhafi bæjarins undir ábyrgðina með vísun í afgreiðslu 950. fundar bæjarráðs.
Til að kóróna þann trúnaðarbrest sem málið er gagnvart íbúum Mosfellsbæjar var það meðhöndlað sem trúnaðarmál í stjórnkerfi Mosfellsbæjar þar til Íbúahreyfingin gekk í að afhjúpa það.
Undirritun sjálfskuldarábyrgðarinnar er hvoru tveggja pólitískt skipbrot einkavæðingarstefnunnar og væntanlega lögbrot. Það er ekki frambærilegt fyrir kjörna fulltrúa að segja: „Ég vissi ekki betur“ þar sem þeim ber skylda til samkvæmt sveitarstjórnarlögum að leita réttra upplýsinga.
Í ljósi þessa fór Íbúahreyfingin fram á afsögn þeirra kjörnu fulltrúa sem ábyrgð bera á sjálfskuldarábyrgðinni á síðasta fundi bæjarstjórnar. Tillagan var felld með 6 atkvæðum.

Kristín I. Pálsdóttir,
ritari Íbúahreyfingarinnar

Greinin birtist í Mosfellingi 24. febrúar 2011

Pin It on Pinterest

Share This