Seljadalsnáma var einu sinni sem oftar til umræðu á fundi bæjarstjórnar Mosfellsbæjar í vikunni. Að þessu sinni var erindið að fá samþykki fyrir því að láta umhverfismeta námuna og svæðið þar í kring í þeim tilgangi að kanna fýsileika áframhaldandi efnistöku en hún hefur legið niðri frá því í fyrrasumar.
Til að gera langa sögu stutta hafnaði Íbúahreyfingin tillögu um nýtt umhverfismat. Ástæðan fyrir því er einföld. Íbúar  og sumarhúsaeigendur á svæðinu hafa í gegnum tíðina mátt þola mikið ónæði vegna grjótflutninga og óþægindi vegna ömurlegs ástands Hafravatnsvegar sem er ómalbikaður.
Hingað til hefur lítið borið á vilja hjá Mosfellsbæ til að beita sér fyrir vegabótum. Sveitarfélagið hefur bent á Vegagerðina sem veghaldara og í stað þess að styðja íbúa, sem margsinnis hafa kvartað yfir ástandinu, haldið því fram að íbúar eigi ekki lögvarða hagsmuni í málinu sem er rangt, skv. úrskurði Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá árinu 2014 en þá kærðu íbúar þá “ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar að samþykkja veitingu framkvæmdaleyfis fyrir áframhaldandi efnistöku úr grjótnámu í Seljadal, … .” (Úrskurður UUA 118/2014)
Íbúar töpuðu málinu en í niðurstöðum úrskurðarnefndar segir engu að síður: “Kærendur ýmist eiga eða eru íbúar fasteigna sem standa flestar við Hafravatns- og Nesjavallaveg og fer meginþungi umferðar vörubifreiða vegna hinnar umdeildu efnistöku um þá vegi. Blasir því við að kærendur eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun og skiptir ekki máli í því sambandi að efnistaka úr námunni hafi átt sér stað áður.”
Það vekur athygli að skilyrði um malbikun Hafravatnsvegar er heldur ekki að finna í samningum Mosfellsbæjar við framkvæmdaaðila. Það virðist því blasa við að sveitarfélagið hefur ekki gætt hagsmuna íbúa þegar leyfi fyrir efnistöku var veitt og ef marka má fullyrðingar um að íbúar eigi ekki aðild að málinu hefur áhugi verið af skornum skammti.
Í huga bæjarfulltrúa Íbúahreyfingarinnar er ljóst að það hlýtur ávallt að vera hlutverk sveitarfélags að verja hagsmuni og lífsgæði íbúa. Umhverfismat megnar ekki að tryggja það. Með því að samþykkja nýtt umhverfismat hefði Íbúahreyfingin verið að stíga skref í þá átt að hefja efnistöku á ný. Þar sem Mosfellsbær hefur hingað til ekki gætt hagsmuna íbúa í málinu var ekki annar kostur í stððunni en að hafna því.
Bæjarstjórn hefði verið í lófa lagið á fundinum sl. miðvikudag að skjalfesta að í þetta sinn væri ætlunin að sjá til þess að hagsmunir íbúa væru tryggðir. Það gerði hún hins vegar ekki og því er óvíst um framhaldið.
Á fundi bæjarráðs nr. 1309 bókaði fulltrúi Íbúahreyfingarinnar eftirfarandi:
“Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar leggst gegn áframhaldandi efnistöku í Seljadalsnámu og þar af leiðir nýju umhverfismati. Enginn áhugi hefur verið fyrir því að viðhalda veginum milli Nesjavallavegar og Hafravatns þrátt fyrir óskir þar um en vegna þungaflutninga til og frá námunni hefur ástand hans verið afleitt og til stórfelldra óþæginda fyrir íbúa. Umhverfisúttektir hafa hingað til heldur ekki megnað að verja hagsmuni íbúa, hvorki hvað varðar áhrif þungaflutninganna, né önnur óþægindi sem af efnistökunni hljótast fyrir þá og er það ásamt áðurnefndu ástandi vegarins ástæðan fyrir því að Íbúahreyfingin telur ekki ástæðu til að fara út í þetta umfangsmikla verkefni.”
Úr jarðfræðilegri rannsókn Eflu sem umhverfissvið Mosfellsbæjar lét gera á námusvæðinu í Seljadal.
“Aðgengilegt efni á svæði (A) austan við núverandi námu er áætlað rúmlega 70.000 m3 , það geta verið allt að 150 – 180 þúsund tonn. Það er varlegt mat á svæðinu, sem líklega má auka um allt að 40.000 m3 . Þannig gæti heildarumfang þessa svæðis verið allt að 250.000 tonn, sem gæti jafngilt 5 – 8 ára notkun. …
Svæði (B) er 14.000 m2 en það hefur ekki verið rannsakað, þar sem ekki er vitað um berggerð þar undir né þá heldur þykkt á mögulegu vinnslulagi. En miðað er við fyrri reynslu af þykkt og útbreiðslu líkra bergeininga, þá gæti mögulegt kubbabergslag þar undir gefið af sér 120 – 200 þúsund m3 af vinnanlegu grjóti (>300.000 tonn).”
Myndin sýnir ástand Hafravatnsvegar að hausti.

Pin It on Pinterest

Share This