Í yfirlýsingum D-, S- og V-lista um úthlutun bæjarráðs á lóð undir einkasjúkrahús og -hótel í Reykjahverfi í Mosfellsbæ er því haldið fram að um einfalda endurúthlutun á lóðinni hafi verið að ræða. Bæjarráðsmenn hafi staðið frammi fyrir orðnum hlut sem eigi rætur að rekja til endurskoðunar á aðalskipulagi á síðasta kjörtímabili. En því fer fjarri.
Á síðasta kjörtímabili fór fram endurskoðun á aðalskipulagi Mosfellsbæjar. Á sama tíma var tekin ákvörðun um að úthluta lóð undir liðskiptasjúkrahús í nafni Primacare. Ef eðlilega hefði verið staðið að málum hefði umræða verið tekin við íbúa í tengslum við endurskoðunina og umsagna leitað hjá fagaðilum en svo var ekki. Eina vísbendingin um þessa stóru framkvæmd í greinargerð með aðalskipulagi er ein setning á blaðsíðu 38 og afmarkaður reitur á uppdrætti sem á stendur þjónustustofnun. Engin bein umfjöllun var um sjúkrahúsið og allt sem því fylgir og þótt eftir því hafi verið kallað var ekki gerð grein fyrir áhrifum þess í umhverfisskýrslu með aðalskipulaginu. Hvorki samráðsferli né faglegu umsagnarferli var lokið og sú skýring fulltrúa D-, S- og V-lista að einvörðungu hafi verið um endurúthlutun að ræða því beinlínis röng.

Athugasemdir við endurskoðað aðalskipulag 2011 til 2030 í umhverfisnefnd

Undirrituð átti sæti í umhverfisnefnd á síðasta kjörtímabili og gerði ég ásamt Sigrúnu Guðmundsdóttur alvarlegar athugasemdir við skipulagið í ítarlegri greinargerð. Formaður umhverfisnefndar Bjarki Bjarnason fulltrúi V-lista tók sér það vald að neita að ræða tillögur okkar í nefndinni  og flétta inn í umsögn nefndarinnar til skipulagsnefndar. Þrátt fyrir það voru þær ræddar í skipulagsnefnd en hlutu ekki samþykki meirihlutans í nefndinni.
Athugasemdirnar sem við gerðum lutu m.a. að óheppilegri staðarsetningu liðskiptasjúkrahúss, fjarri alfaraleið í friðsælu íbúðahverfi og vöntun á umfjöllun um umhverfisáhrif þess í umhverfisskýrslu aðalskipulagsins.

Engin vilji var hjá fulltrúum D- og V-lista til að stofna til umræðu um þessa stóru ákvörðun meðal íbúa og fulltrúum S-lista til vansa að leggja þeim lið í þessum blekkingarleik. Umræðuna við íbúa verður og á enn eftir að taka, þrátt fyrir að nú sé búið að taka ákvörðun að þeim forspurðum í annað sinn.

Breytingatillögur okkar Sigrúnanna í greinargerð um aðalskipulagið:

I.  Almennar athugasemdir
Mikil áhersla er lögð á skipulag bílaumferðar í drögunum. Það sama má segja um umferðarskipulag og aðra þætti skipulags: Það þarf að byggja á traustum upplýsingagrunni. Hann er ekki fyrir hendi í drögunum. Áhersla er lögð á að akstursleiðir séu stuttar en staðsetning sjúkrahúss á Sólvöllum, svo áberandi dæmi sé tekið, gengur þvert á þessa stefnu. Sjúkrahúsið liggur utan alfaraleiðar og kallar á langar akstursleiðir fyrir starfsfólk, aðföng og sjúklinga. Umferð sem af langri akstursleið hlýst veldur hávaða‐ og loftmengun og aukinni slysahættu í íbúðabyggð. Þjónusta er lítil sem engin í Reykjahverfi sem leiðir til enn meiri umferðar bíla til og frá sjúkrahúsinu en ella. Fallegu dalverpi sem er rómað fyrir að vera ákjósanlegt útivistarsvæði er fórnað með lagningu stofnbrautar eftir endilöngu Reykjahverfi. Um stofnbrautina er ekkert fjallað í greinargerð með nýju aðalskipulagi og á hana er ekki minnst í umhverfisskýrslu. Úr þessu er brýnt að bæta.

II. Íbúðabyggð/blönduð byggð
Móta þarf mun skýrari stefnu um blöndun byggðar. Í aðalskipulagi er tekið fram að starfsemi fyrirtækja eigi ekki að valda íbúum ónæði og spilla umhverfi. Það gefur því auga leið að ekki ætti að reisa fyrirtæki sem kalla á mikla bílaumferð í íbúðarbyggð, sbr. heila sjúkrastofnun í dalbotni Reykjahverfis. Staðsetning stofnunarinnar er skipulagslega séð afar óskynsamleg þar sem hún er staðsett (1) utan alfaraleiðar, (2) mikill kostnaður hlýst af vegagerð, auk þess sem (3) leggja á stofnbrautina yfir hverasvæðið á Sólvöllum en það nýtur verndar skv. náttúruverndarlögum. Mosfellsbæ er því skylt að leita umsagnar Umhverfisstofnunar/Náttúrufræðistofnunar.
Stofnbraut á þessu svæði á auk þess eftir að rýra mikið gæði umhverfisins til framtíðar. Ónæði vegna umferðar í íbúðabyggð verður ennfremur mikið á nokkurra kílómetra kafla. Í ljósi þessa óska fulltrúar Samfylkingarinnar og Íbúahreyfingarinnar í umhverfisnefnd eftir óháðri fræðilegri úttekt á því hvaða áhrif sjúkrastofnun í Reykjahverfi mun hafa á umhverfi og lífsgæði íbúa hverfisins.
Greinargerðin er fylgiskjal með fundargerð umhverfisnefndar 17. mars 2011.

Sigrún H Pálsdóttir
bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar
S. 866 9376

Pin It on Pinterest

Share This