Íbúalýðræði og gagnsæi var áberandi stefna hjá öllum flokkum í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Stjórnmálaflokkar í Mosfellsbæ voru þar engin undantekning. Fagnaði ég því mjög og var bjartsýn á framhaldið.
Í mínum huga fellst íbúalýðræði í því að íbúar komi beint að skipulagningu málefna, t.a.m. á vinnufundum og að hugmyndir af slíkum fundum séu svo notaðar til viðmiðunar þegar skipulagsferli fer af stað. Hér í bæ hefur það því miður alltof oft gerst að íbúafundir eru ekki haldnir fyrr en mál eru komin í óafturkræf ferli. Dæmi um þetta er fundur um skólamál sem haldinn var í vetur án þess að íbúar vissu að þegar væri búið að skrifa undir samning milli Mosfellsbæjar og Landsbanka um að reisa skóla í Helgafellshverfi.
Þetta gerir það að verkum að íbúum finnst öll sín vinna unnin fyrir gíg og áhugi þeirra á að starfa fyrir bæjarfélagið minnkar þar sem þeim finnst ekki á sig hlustað. Ég vil að við breytum þessu, að við nýtum hugmyndir bæjarbúa um hvað þeir leggja áherslu á.
Að sjálfsögðu þurfum við nýja skóla og betri aðstöðu til íþróttaiðkunar. Við þurfum að vera örugg um vatnið okkar og að umhverfið sé ómengað og huga þarf að eldri borgurum, öryrkjum og unga fólkinu, okkur öllum. Hvað eigum við af peningum og á hverju eigum við að byrja? Væri ekki dásamlegt ef allt væri uppi á borðum?
Nefndarfundir væru opnir svo við gætum fylgst með umræðum sem þar fara fram eða að við gætum að minnsta kosti lesið fundargerðir og fengið allar upplýsingar um umræðuna ásamt fylgigögnum. Ég er sannfærð um að það myndi veita bæjarfulltrúum aðhald í fjármálum og myndi bæta framkomu þeirra hvers við annan.
Við getum gert svo miklu betur ef viljinn er fyrir hendi.
Auðurinn er hjá íbúum bæjarins, berum virðingu fyrir skoðunum þeirra og þekkingu á bænum okkar.
Birta Jóhannesdóttir
Greinin birtist í Mosfellingi 22. maí 2014.