Ingimar Sveinsson fyrrum bóndi á Egilsstöðum og kennari við Bændaskólann á Hvanneyri skipar heiðurssæti á lista Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ

Ingimar Sveinsson fyrrum bóndi á Egilsstöðum og kennari við Bændaskólann á Hvanneyri skipar heiðurssæti á lista Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ sem býður fram M lista í komandi bæjarstjórnarkosningum hyggst beita sér í málefnum aldraðra, m.a. málefnum Eirar. Mér hefur í framhaldi af því verið boðið að taka þátt í því verkefni og heiðurssætið á framboðslistanum sem ég hefi þegið.
Í febrúar 2011 seldum við hjónin einbýlishús okkar á Hvanneyri og fluttumst til Mosfellsbæjar og keyptum svokallaðan „búseturétt“ að Eirhömrum í Mosfellsbæ. Við vorum komin á þann aldur að ég taldi skynsamlegt að tryggja okkur dvalarstað sem hentaði okkur í ellinni og taldi Eir fýsilegan og öruggan kost. Þessi svokallaði „búseturéttur“ á Eir var kynntur þannig: Þú kaupir íbúðina eða búseturéttinn og munurinn samanborið við venjuleg íbúðarkaup er að þú mátt ekki selja hana eða leigja til annarra. Á móti skuldbindur Eir sig til að kaupa íbúðina við brottflutning eða andlát. Búseturéttarhafa er óheimilt að veðsetja búseturétt sinn eða önnur réttindi samkvæmt samningnum. Íbúarnir greiða auk þess húsgjöld rúmar 40 000 kr. á mánuði til Eirar. Einnig fasteignagjöld, tryggingar og rafmagn eins og um eignaríbúð sé að ræða. Greitt er aukalega fyrir sérþjónustu svo sem fyrir mat og þrif á íbúð ef þess er þörf. Ég vil taka fram að á Eir í Mosfellsbæ er ágætt að búa, gott starfsfólk og þjónusta ef á þarf að halda. 
Síðan þróuðust mál þannig, eins og kunnugt er, að Eir varð tæknilega gjaldþrota. Fyrrverandi stjórnendur ráðstöfuðu fé íbúanna til annarra og óviðkomandi hluta, tóku lán út á íbúðirnar og veðsettu þær. Hæpið er að það standist lög að veðsetja eignir annarra án vitundar þeirra og samþykkis. Hvergi er getið í samningnum um slíka heimild. Eftir standa íbúðaréttarhafar veðlausir og í óvissu um stöðu sína. Til að forða gjaldþroti og tryggja búsetu sína áfram hafa þeir verið neyddir til að undirrita nauðasamninga um að taka við 30 ára skuldabréfi í stað umsamdrar endurgreiðslu. Slík skuldabréf eru óseljanleg og einskisverður pappír þar sem enginn vill bera ábyrgð á þeim.
Hverjir eru ábyrgir?
Eir er sjálfseignarstofnun sem er rekin samkvæmt heilbrigðislögum og lögum um málefni aldraða. Að Eir standa Reykjavíkurborg, Seltjarnarnesbær og Mosfellsbær ásamt allmörgum stofnunum, m.a VR, Eflingu, Skjóli, ÖBI ofl. Þessir aðilar skipa 37 manna fulltrúaráð sem kýs stjórn sem síðan ræður framkvæmdastjóra. Þetta hljóta því að vera þeir aðilar ásamt ríkinu — ríkisendurskoðun hefur endurskoðað reikninga stofnunarinnar og gefið tilskilin leyfi fyrir fyrrgreindri veðsetningu — sem eru í raun ábyrgir fyrir því hvernig komið er. Það ætti því að vera skylda þessara aðila, ef ekki lagalega þá að minnsta kosti siðferðislega, að deila ábyrgðinni með íbúunum. Það er ekki ásættanlegt í réttarríki nútímans að fara fram á að hundruð eldri borga skrifi nauðugir viljugir undir slíka nauðasamninga og taki einir á sig áhættuna. Ráðuneyti og þau sveitarfélög sem stóðu að stofnun Eirar hafa hingað til viljað firra sig allri ábyrgð bæði fjárhagslegri og siðferðilegri. Reynt hefur verið að þagga málið sem mest niður á þeim forsendum að „þetta sé bara skuld sjálfseignarstofnunarinnar Eirar við einkaaðila“ — tveggja milljarða skuld við um 200 gamalmenni — og því borið við að samkvæmt lögum megi sveitarfélögin enga ábyrgð veita. Þetta er ekki allskostar rétt því að Eir er stofnað sem liður í þjónustu sveitarfélaganna við aldraða.
Í raun eru íbúðarréttarhafar á Eir ekki síður að bjarga bæjarfélögunum frá skömm og fjárútlátum en sjálfum sér með því að skrifa undir nauðasamningana.
Eins og að ofan segir var íbúunum hótað að ef þeir ekki skrifuðu undir þá yrði Eir sett í þrot og enginn fengi neitt. Eir færi á nauðungaruppboð og íbúunum jafnvel hent út. Margir þeirra hefðu þá ekki bolmagn til að kaupa sér íbúð eða leigja á ný þar sem þeir hefðu allt sitt fé bundið í Eir, þeir hefðu í raun þurft að segja sig til sveitar og lögum samkvæmt bæri bæjarfélögunum þá að sjá fyrir þeim.
Ég tel því að það sé raunhæft og væri Mosfellsbæ til sóma að vera í forystu um að taka þátt í ábyrgð eldri borgara á Eir og beita sér fyrir að Reykjavíkurborg og aðrar stofnanir sem að stofnun Eirar stóðu geri það einnig.
Kannski er bara löglegt að svíkja eða féflétta gamalmenni á Íslandi í dag?
Ég tel að sú skömm sem íslenskt velferðarþjóðfélag hlýtur ef þetta ábyrgðarleysi fær að viðgangast sé enn alvarlegri heldur en hið fjárhagslega tjón búseturéttarhafanna.

Hér má hlusta á upplestur á greininni: https://soundcloud.com/ibuahreyfingin/er-loglegt-a-fefletta-gamalmenni.

Styttri útgáfa af greininni birtist í blaði Íbúahreyfingarinnar þann 21. maí 2014.

Pin It on Pinterest

Share This