Fiskadauði í Varmá verður á dagskrá fundar bæjarráðs Mosfellsbæjar á morgun 20. júlí. Það er því ekki úr vegi að gefa lesendum smá innsýn í það sem málshefjandi og bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir ráð fyrir að ræða á fundinum 🙂 :
Eins og fram kom í máli bæjarstjóra Mosfellsbæjar í tíufréttum RÚV 17. júlí er ekki við heilbrigðiseftirlitið eða starfsfólk Mosfellsbæjar að sakast vegna fiskadauða í Varmá. Þegar skýrslur og minnisblöð eru skoðaðar er það deginum ljósara að þeir hafa allir verið að vilja gerðir til að draga úr mengunarhættu og leysa þar með vandann. Hér nokkur dæmi:
1) Í skýrslu Heilbrigðiseftirlitsins um saurgerlamengun í Köldukvísl, Varmá og lækjum á vestursvæði frá 2011 segir:
“Æskilegt er að aðgerðaráætlun verði samin og samþykkt af heilbrigðisnefnd og Mosfellsbæ sem miðar að því að hreinsa árnar á sem styðstum tíma. Á sama tíma er mikilvægt að fræða almenning sem býr á svæðinu um ástand ánna á hverjum tíma því árnar endurspegla mjög vel álag sem mannleg starfsemi veldur í umhverfi sínu. Jafnframt að hvetja til ábyrgðar gagnvart umhverfi.”
2) Í minnisblaði Heilbrigðiseftirlitsins til umhverfisnefndar og bæjarráðs fyrrihluta árs 2014 segir:
“Heilbrigðisnefnd hvetur til þess að Mosfellsbær láti kortleggja þá staði sem æskilegt er að hreinsa ofanvatn frá íbúðar- og iðnaðarhverfum og að gerð verði langtímaáætlun um slíkar framkvæmdir með það markmiði að minnka óreglulega mengun í ám og lækjum. Heilbrigðisnefnd er reiðubúin til samstarfs um slíka vinnu. …
Heilbrigðiseftirlitið horfir sérstaklega til þess að núverandi ástand veldur áhættu þar sem ár og lækir eru leiksvæði barna og getur mengunin valdið þeim tjóni … . “
3) Framkvæmdastjóri umhverfissviðs tekur undir þessi sjónarmið og segir í minnisblaði frá 23.5.2014:
“Í samræmi við ákvarðanir í bæjarráði frá árinu 2012 og 2013 er starfandi vinnuhópur umhverfissviðs og Heilbrigðiseftirlits sem hefur það verkefni að vinna að úrbótum vegna mengunar sem mælst hefur á undanförnum árum í nokkrum lækjum og við Hestaþinghól í Mosfellsbæ.”
“Lagt er til að útbúið verði fræðsluefni sem íbúar fái sent heim til sín. Þá verði unnin áætlun um útskiptingu rotþróa í hreinsivirki og unnar tillögur að hreinsun ofanvatns þar sem talin er þörf á því. Framangreint verði unnið af hálfu samstarfsnefndar Heilbrigðiseftirlits og umhverfissviðs sem nú þegar er að störfum og hafa látið þessi mál til sín taka með góðum árangri.”
4) Bæjarráð samþykkir þessar tillögur á fundi 26. maí 2014:
“Samþykkt með þremur atkvæðum, í samræmi við minnisblað framkvæmdastjóra umhverfissviðs, að heimila að útbúið verði fræðsluefni sem íbúar fái sent heim til sín. Þá verði unnin áætlun um útskiptingu rotþróa í hreinsivirki og unnar tillögur að hreinsun ofanvatns þar sem talin er þörf á því. Framangreint verði unnið af hálfu samstarfsnefndar Heilbrigðiseftirlits og umhverfissviðs sem nú þegar er að störfum og hafa látið þessi mál til sín taka með góðum árangri.”
Eftir stendur spurningin um hvar hnífurinn stendur í kúnni? Af hverju var þessum framsæknu áætlunum ekki fylgt eftir? Ósjálfrátt beinist athyglin að lýðræðislega kjörnum fulltrúum með bæjarstjóra í broddi fylkingar. Getur verið að verkstjórnin hafi brugðist?
Sigrún H Pálsdóttir, bæjarfulltrúi
S. 866 9376