Í mars 2011 tók bæjarstjórn Mosfellsbæjar ákvörðun um afskrift viðskiptakrafna í samræmi við tillögu fjármálastjóra.

Við afgreiðslu málsins lagði Jón Jósef Bjarnason, bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar, til að allar upplýsingar um afskrifaðar skuldir lögaðila yrðu birtar opinberlega ásamt ástæðum fyrir því hvers vegna ekki sé talið mögulegt að innheimta kröfuna. Einnig, að allar upplýsingar um afskrifaðar skuldir einstaklinga, þar sem félagslegar aðstæður eru ekki ástæða afskrifta, séu birtar opinberlega. Þá lagði Jón Jósef til að fjöldi einstaklinga og heildarupphæð krafna þeirra sem fá niðurfelldar kröfur vegna félagslegra aðstæðna yrðu birtar opinberlega ásamt helstu félagslegum ástæðum sem valda því að afskrifa þarf kröfurnar, að því gefnu að birtingin brjóti ekki í bága við lög.

Ekki var fallist á tillögu Jóns Jósefs heldur tók bæjarstjórn þá ákvörðun að óska eftir umsögn framkvæmdastjóra stjórnsýslusviðs um tillöguna. Þar sem nokkur dráttur varð á því að umbeðin umsögn bærist hafði Jón Jósef samband við bæjarskrifstofur í tvígang til að grennslast fyrir um afdrif málsins. Fyrst í maí 2011 og aftur í ágúst.

Um miðjan september hafði umrædd umsögn ekki enn verið lögð fram. Því tók Jón Jósef ákvörðun um að birta upplýsingar um afskriftir einstaka lögaðila og samandregnar upplýsingar um afskriftir einstaklinga í greininni Af starfsemi Íbúahreyfingarinnar sem birt var fréttablaði Íbúahreyfingarinnar. Blaðinu var dreift í öll hús í Mosfellsbæ. Í greininni segir:

Niðurfelldar kröfur lögaðila: Íbúahreyfingin hefur beðið í 6 mánuði eftir rökstuðningi fyrir því að listinn yfir þessa aðila sé ekki birtur. Nú bíðum við ekki lengur, listann má sjá hér að neðan:

Listi yfir afskriftir hjá lögaðilum

Auk þess var afskrifað hjá 29 einstaklingum, samtals 935.402 kr. Þar af 485.189 vegna hitaveitu að tillögu OR, 214.992 vegna leikskólagjalda, 177.790 vegna mötuneytis/frístundar grunnskóla, 28.125 vegna hundaeftirlitsgjalds. Svo eitthvað sé nefnt.

Birting ofangreindra upplýsinga vakti hörð viðbrögð bæjarstjórnar Mosfellsbæjar. Í kjölfar birtingarinnar var tekin ákvörðun um að óska eftir því við lögmenn bæjarins að fram færi lögfræðileg skoðun á því hvort að með birtingunni hafi verið brotið gegn reglum Mosfellsbæjar um meðferð mála, ákvæðum sveitarstjórnarlaga og ákvæðum annarra laga sem kveða á um vernd persónuupplýsinga.

Eftir að minnisblað lögmanna bæjarins barst var tekin ákvörðun um að upplýsa innanríkisráðuneytið um málið og óska jafnframt leiðsagnar ráðuneytisins um framhald þess, meðal annars á grundvelli þess að birting umræddra upplýsinga hafi ekki verið í samræmi við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

Í lögunum er hugtakið persónuupplýsingar skilgreint svo:

Sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar um hinn skráða, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi.

Þegar þær upplýsingar sem birtar voru í fréttablaði Íbúahreyfingarinnar eru teknar til skoðunar kemur í ljós að ekki er hægt að rekja þær beint eða óbeint til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi. Aftur á móti má rekja þær til tiltekinna fyrirtækja, sem varla eru persónur. Því væri forvitnilegt að lesa um hvernig lögmenn Mosfellsbæjar komast að sinni niðurstöðu. En þá þyrfti bærinn vitaskuld að birta minnisblaðið.

Af fenginni reynslu geri ég þó ekki ráð fyrir því að Mosfellsbær hafi frumkvæði að birtingu minnisblaðsins. Ég afréð því að skrifa bæjarstjóra tölvupóst og óskaði eftir afriti af minnisblaðinu til opinberrar birtingar.

Þórður Björn Sigurðsson

Greinin birtist á bloggi Þórðar, http://blog.eyjan.is/tbs/, 11.11.2011.

Pin It on Pinterest

Share This