Það hefur lengi loðað við Mosfellsbæ að hér eru fáir vinnustaðir og atvinnutækifæri. Fyrir bæjarsjóð er þetta erfið staða þar sem bærinn verður af skatttekjum sem hann ella hefði fengið, auk þess sem af því hlýst óhagræði fyrir íbúa að sækja vinnu í önnur sveitarfélög.
Um tólf ára skeið hafa Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri grænir (frá 2006) sýnt af sér alvarlegan dómgreindarbrest í atvinnumálum í Mosfellsbæ sem lýst hefur sér í því að fyrir kosningar hefur sá fyrrnefndi gripið til þess ráðs að lofa kjósendum tröllaukinni atvinnuuppbyggingu, s.s. hnjáliðaskiptasjúkrahúsi með 1000 manns í vinnu, gagnaveri sem ekki er hægt að reisa á suðvesturhorninu sökum brennisteinsmengunar frá jarðvarmavirkjunum, kirkju- og menningarhúsi í miðbænum sem kirkjan átti svo ekki fyrir, íþrótta- og skólamannvirkjum í einkaframkvæmd og heilu íbúðahverfunum sömuleiðis. Á kjörtímabilinu átti svo að stofna villidýrasafn.
Ekkert af þessu hefur gengið eftir og ýmist Mosfellsbær eða bankarnir þurft að yfirtaka skuldbindingar einkafyrirtækja sem orðið hafa gjaldþrota s.s. vegna sundlaugar við Lágafell, uppbyggingar í Helgafellslandi og víðar.
Er eitthvað vit í þessu? Varla.
Atvinnuuppbygging er alvarlegt mál því fyrirtæki geta skapað sveitarfélaginu miklar tekjur. Það er því óskiljanlegt að með þau sé farið af slíkri léttúð.
Það sem hér virðist á skorta er faglega unnin atvinnustefna sem þýðir að Mosfellsbær þarf að byrja á því að að setja á fót atvinnumálanefnd, eins og tíðkast í öðrum sveitarfélögum. Í öðru lagi þarf að fá fólk með reynslu og þekkingu á atvinnuuppbyggingu til að koma að stefnumótunarstarfi nefndarinnar og síðast en ekki síst að stofna til samráðs við fólk og starfandi fyrirtæki í Mosfellsbæ um frekari uppbyggingu atvinnulífs.
Við fyrstu sýn virðist rökrétt að hlúa betur að því sem fyrir er og vinna með og út frá því sem hér er til staðar nú þegar.
Íbúahreyfingin telur að aðeins þannig verði mótuð raunhæf atvinnustefna sem færir bæjarsjóði auknar tekjur og Mosfellingum lífsgæði til framtíðar.
Sigrún H Pálsdóttir
Greinin birtist í Mosfellingi 22. maí 2014.