1. sæti. Sigrún H. Pálsdóttir,  verkefnisstjóri og leiðsögumaður.

1. sæti. Sigrún H. Pálsdóttir, verkefnisstjóri og leiðsögumaður.

Við vitum öll að besta veganesti barnanna okkar út í lífið er góð menntun. Góð menntun er hins vegar ekki sjálfgefin því hún þarf rétta umgjörð og skiptir þar miklu að ráðandi stjórnmálaöfl haldi vöku sinni og sjái til þess að húsnæði sé fyrir hendi og skapi aðstæður fyrir metnaðarfullt innra starf.

Nú blasir við að sitjandi bæjarstjórnarmeirihluta í Mosfellsbæ hefur látið hjá líða að reisa skólamannvirki í takt við áætlanir um fjölgun íbúa. Grunnskólarnir eru ofsetnir og ljóst að fyrirhyggjuleysi hefur verið alls ráðandi, sbr. þriggja ára fjárhagsáætlun 2013-2015 en þar er ekki gert ráð fyrir fé í uppbyggingu skóla. Stóra kosningamálið í Mosfellsbæ er því skólamannvirki.

Það er ekki spurning að þetta mál þarf að leysa en það kostar óheyrilega peninga. Skóli kostar 2,4 milljarða miðað við 450 nemendur, sem er ráðlögð stærð, og í Mosfellsbæ þarf að reisa tvo skóla til að anna eftirspurn.

Nú hefur bæjarstjórinn oft stært sig af því að efnahagur sveitarfélagsins sé góður miðað við mörg önnur sveitarfélög sem farið hafa yfir 150% viðmið Sambands íslenskra sveitarfélaga um skuldir af reglulegum tekjum. Í Mosfellsbæ eru skuldirnar um 130%, – eða hvað?

Á óskalista framboðanna fyrir þessar kosningar eru tveir skólar og eitt fjölnota íþróttahús. Þessi verkefni kosta varlega áætlað hátt í 6 milljarða eða álíka mikið og sem nemur áætluðum tekjum sveitarfélagsins fyrir rekstrarárið 2014.

Og hvað þýðir það fyrir framtíðarskuldastöðu Mosfellsbæjar? Svarið er einfalt. Á næsta kjörtímabili er fátt annað til ráða en að skuldir fari yfir framangreint viðmið Sambands íslenskra sveitarfélaga sem þýðir að Mosfellsbær verður í framtíðinni í flokki þeirra sveitarfélaga sem nú þegar hafa reist slík mannvirki og skulda yfir 150% af reglulegum tekjum.

Ljóst er að vandinn er uppsafnaður og áleitin sú spurning af hverju var ekki var unnið að uppbyggingunni jafnt og þétt. Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið við völd í 12 ár. Ætli það sé skýringin? Hefði meirihlutinn unnið eftir raunhæfum langtímaáætlunum hefðu skuldir vissulega verið hærri en í staðinn sætu Mosfellingar ekki uppi með hátt í 800 nemendur í hvorum skóla og þjónustu við börnin sem komin er langt yfir þolmörk, sbr. stærð bekkja, skort á aðstöðu í frístundaseli og minnkandi þjónustu við börn með hegðunar- og námsvanda.

Það lítur beinlínis út fyrir að hagsmunum grunnskólabarna hafi hér verið fórnað fyrir sæmilega vel útlítandi rekstrarreikning. Fjárútlátin framundan eru þó af þeirri stærðargráðu að skuldir Mosfellsbæjar geta vart talist minni en þeirra sveitarfélaga sem farið hafa yfir 150% viðmiðið.

Það voru foreldrar sem vöktu athygli á því hvert stefndi og kröfðust þess að fá að vera með í ráðum. Í kjölfarið upphófst samráðsferli þar sem láðist að geta þess að Mosfellsbær gerði fyrir ári samning við Landsbankann um að reisa skóla í Helgafellshverfi. Allt tal um samráð um staðsetningu skóla á austursvæði virðist því hjómið eitt.

Svona vinnubrögð og samskiptahættir við íbúa eru ekki boðlegir. Framundan er það vandasama verkefni að fjármagna uppbyggingu skólamannavirkja og ákveða staðsetningu þeirra. Það verður að vinna málið faglega og í samstarfi foreldra og skóla og mun Íbúahreyfingin svo sannarlega ekki láta sitt eftir liggja þegar kemur að því á næsta kjörtímabili.

 Sigrún H. Pálsdóttir leiðir lista Íbúahreyfingarinnar

Greinin birtist í Mosfellingi 8. maí 2014

 

Pin It on Pinterest

Share This