IMG_1060Þessa dagana eru starfsmenn Mosfellsbæjar í óða önn að ljúka við drög að fjárhagsáætlun en hún segir til um í hvaða verkefni tekjum bæjarsjóðs og skattpeningum íbúa verður varið á næsta fjárhagsári. Kjörnir fulltrúar í nefndum og ráðum hafa enn ekki fengið að skoða herlegheitin en það stendur til að kynna þau í lok mánaðar. Annatími er því framundan hjá pólitíkusum í Mosfellsbæ.

Íbúahreyfingin hefur haft ýmislegt við framkvæmdina á þessu árlega verkefni að athuga og telur að lýðræðislegra væri að fastanefndir hefðu stefnumarkandi hlutverki að gegna og kæmu að vali á verkefnum strax í upphafi vinnunnar en ekki þegar að því er að mestu lokið eins og nú er.

Fjárhagsáætlun er unnin í umboði bæjarráðs og samkvæmt ákvæði í samþykkt um stjórn Mosfellsbæjar um verkefni ráðsins, gr. 31, hafa embættismenn tillögurétt við gerð hennar. Fastanefndir hafa samkvæmt sömu samþykkt þó aðeins umsagnarrétt um drögin.

Þegar málið er skoðað er þetta eina samþykkt um stjórn sveitarfélags á höfuðborgar-svæðinu sem hefur að geyma ákvæði þar sem lýðræðislega kjörnir fulltrúar eru settir skör lægra en embættismenn þegar kemur að því að hafa áhrif á hvernig fjármunum sveitarfélags er ráðstafað. Hverju það sætir er í raun stjórnsýslulegt rannsóknarefni. Líklegasta skýringin er þó sú að bæjarfulltrúar þess meirihluta sem stóð
að samþykktinni hafi verið að útvíkka sitt vald umfram það sem þeim bar á kostnað fastanefndanna því eins og málum er háttað er bæjarstjóri, og oddviti meirihlutans, yfirmaður starfsliðs sveitarfélagsins og lýtur það hans stjórn en það gera fastanefndirnar ekki.

Í sveitarfélögum á Norðurlöndum er löng hefð fyrir vel skipulagðri og öflugri stjórnsýslu þar sem kjörnir fulltrúar sinna stefnumörkun og eftirliti með stjórnsýslunni en koma ekki að daglegum rekstri og ákvörðunum en þannig er því háttað þar sem stjórnsýsla er veik og mörk óljós á milli stjórnsýslu og kjörinna fulltrúa. Á Íslandi þykir jafnvel sjálfsagt að æðsti yfirmaður stjórnsýslunnar sé jafnframt kjörinn fulltrúi sem á þá að hafa eftirlit með sjálfum sér. Álíka starfshættir áttu stóran þátt í Hruninu. Hér er því komið næsta stjórnsýslulega úrlausnarefnið, að þessu sinni samstarfsverkefni milli löggjafans og sveitarfélaganna. 

Það þarf varla að taka fram að öflug stjórnsýsla sem setur fram tillögur við gerð fjárhagsáætlunar er mikilvæg hverju sveitarfélagi en það að fastanefndir hafi lítið sem ekkert um verkefnavalið að segja er hins vegar umhugsunarefni í samfélagi sem kennir sig við lýðræði.

Íslensk stjórnmál einkennast oftar en ekki af meirihlutaræði. Við þannig aðstæður mega sjónarmið minnihlutans sín lítils. Við í Íbúahreyfingunni segjum að stjórnmál eigi að snúast um málefni en ekki flokka og fylkingar. Vinnan framundan í fjárlagagerðinni verður prófsteinn á hvort verður ofan á.

Sigrún Pálsdóttir, bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar

Pin It on Pinterest

Share This