2. umræða um fjárhagsáætlun 7. desember 2017
Eins og bæjarstjóri hefur rakið er margt jákvætt í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar 2017. Ýmis þörf verkefni hafa einnig fengið brautargengi milli umræðna. Þar á meðal eru nokkrar tillögur Íbúahreyfingarinnar og þökkum við meirihlutanum fyrir það.
Sýnileiki verkefna í fjárhagsáætlun
Íbúahreyfingin gerði fjárframlög til náttúruverndar að sérstöku umræðuefni við fyrstu umræðu um fjárhagsáætlun 9. nóvember. Tildrög þess voru að nánast ómögulegt er að greina hve miklu fé Mosfellsbær ver í verkefni sem heyra undir þann málaflokk. Bókhaldslykilinn náttúruvernd eða ígildi hans er hvergi að finna í fjárhagsáætlun og ekki er heldur hægt að greina slík verkefni undir öðrum skyldum bókhaldslyklum. Við hljótum að geta verið sammála um að gegnsæi sé besta leiðin til að mæla afköst í hverjum málaflokki fyrir sig og gildir það um náttúruvernd eins og aðra bókhaldsliði.
Til að auka gegnsæi í náttúruverndarmálum telur Íbúahreyfingin mikilvægt að framvegis verði gerð grein fyrir ráðstöfun fjár í þágu náttúruverndar í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar og verður tillaga þess efnis lögð fram á næsta fjárhagsári.
Nefndum sveitarfélagsins er ætlað að vinna umsagnir um fjárhagsáætlun. Samkvæmt samþykkt umhverfisnefndar á nefndin að “hafa umsjón og eftirlit með náttúruvernd, skógrækt og landgræðslu skv. náttúruverndarlögum og lögum um landgræðslu”. Ennfremur “að fara yfir tillögur forstöðumanna að fjárhagsáætlun hvers árs hvað varðar þá liði sem falla undir verksvið nefndarinnar og gæta þess í ákvörðunum sínum að halda áætlanir þegar að framkvæmdum kemur.” Ég spyr: Hvernig á umhverfisnefnd að sinna því hlutverki þegar upplýsingar um náttúruverndarverkefni umhverfissviðs vantar í fjárhagsáætlun? Fjallað var um fjárhagsáætlun á fundi umhverfisnefndar 17. nóvember. Ég mæli eindregið með að bæjarfulltrúar skoði fylgigögnin sem þar voru til kynningar. Ef meta ætti hver staða náttúruverndar er í Mosfellsbæ á grundvelli þeirra mætti ætla að málaflokkurinn væri munaðarlaus.
Í þessu samhengi er vert að benda á að athugasemdir Íbúahreyfingarinnar eru tæknilegs eðlis og lúta að gegnsæi og framsetningu verkefna í fjárhagsáætlun sem hvorutveggja skiptir verulegu máli þegar kemur að því að útdeila fé.
Það að ekki skuli vera hægt að lesa það út úr fjárhagsáætlun hvaða verkefni verið er að vinna í þágu náttúruverndar þýðir þó ekki að Mosfellsbær sitji alfarið auðum höndum í umhverfismálum.
Verkefni í þágu náttúruverndar
Í fylgiskjali sem nefnist ‘jarðvegsskipti og gatnagerð í fjárhagsáætlun 2017’ og bæjarstjóri kynnti í bæjarráði 13. október sl. er gert ráð fyrir 8 milljónum kr. í viðhald og endurbætur á göngustíg meðfram Varmá en áin og bakkar hennar er á náttúruminjaskrá. Framkvæmdir á svæðinu þurfa að vera í samræmi við náttúruverndarlög og eru þær að hluta unnar í þeim tilgangi að vernda ána og bakkana, auk þess að viðhalda og endurbæta göngustíginn. Þetta verkefni heyrir samt undir gatnagerð í fjárhagsáætlun.
Íbúahreyfingin hefur lagt til að unnin verði leiðbeinandi handbók um framkvæmdir á verndarsvæðum. Fordæmalaus uppbygging er framundan í Mosfellsbæ og mikilvægt að náttúra Mosfellinga haldi verndar- og verðgildi sínu. Þess vegna þessi tillaga. Umhverfissvið hefur tekið vel í hafa og vonandi á hún eftir að hafa bætandi áhrif. Verkefnið lætur lítið yfir sér en leggur samt grunn að því að framkvæmdaaðilar átti sig á hvaða verðmæti þeir eru með í höndunum.
Fleiri verkefni s.s. aðgerðir til að draga úr ört vaxandi útbreiðslu lúpínu og skógarkerfils og kortlagning gróðurþekju- og jarðvegsrofs á vatnsverndarsvæðum og á vatnasviði fallvatna í Mosfellsbæ eru meðal þess sem Íbúahreyfingin hefur lagt til að ráðist verði í á næsta fjárhagsári.
Einnig meiri kynningu og bætt aðgengi að friðlýstum svæðum og gerð fræðsluefnis til að vekja athygli á náttúruvernd. Umhverfissvið gaf út mjög vandaðan bækling í þágu vatnsverndar á árinu og mikilvægt að halda áfram á sömu braut og dreifa til íbúa. Í ljósi þess að Mosfellsbær hefur hug á því að byggja upp ferðaþjónustu og selja lóðir undir hótel er heldur ekki seinna vænna að huga að frekari stígagerð s.s. í kringum Úlfarsfell.
Verkefni á sviði félagsþjónustu
Á sviði félagsþjónustu lagði Íbúahreyfingin til að svigrúm fjölskyldusviðs til veita styrki til hjálparsamtaka eins og Kvennaathvarfsins og Stígamóta yrði aukið annað árið í röð og er sú tillaga nú hluti af fjárhagsáætlun. Mosfellsbær er í samstarfi við Lögreglustjóraembættið á höfuðborgarsvæðinu um aðgerðir gegn heimilisofbeldi. Verkefnið nefnist Saman gegn ofbeldi og eru sveitarfélögin háð þjónustu samtakanna í því verkefni. Háskóli Íslands hefur gert úttekt á því í nokkrum sveitarfélögum og hefur það reynst vel. Þess vegna aukið framlag.
Íbúahreyfingin óskaði líka eftir að breyting á reglum um fjárhagsaðstoð yrði gerð afturkræf en hún fól í sér að fjárhagsaðstoð til ‘einstaklinga sem búa með öðrum en foreldrum’ var lækkuð úr 75% í 50%. Mótrök fjölskyldusviðs eru að tilgangurinn með lækkuninni sé að gera öllum jafn hátt undir höfði. Það eru góð og gild rök en þegar til þess er litið að fjárhagsaðstoðin er langt undir neysluviðmiði Velferðarráðuneytisins finnst Íbúahreyfingunni ekki réttmætt að lækka framlagið til þessa hóps. Betur færi á því að hækka fjárhagsaðstoð til jafns við Reykjavíkurborg, þ.e. að 100% aðstoð í Mosfellsbæ fari úr 162 þúsund kr. á mánuði í 181 þúsund kr. en það mál mun bíða umræðu næsta fjárhagsári.
Verkefni á sviði fræðslumála
Á sviði fræðslumála lagði Íbúahreyfingin til að tekjuviðmið niðurgreiðslu á leikskólagjöldum yrði hækkað. Fræðslusvið lagði síðan til mjög góða útfærslu á þeirri tillögu sem leiðir til umtalsverðrar lækkunar á leikskólagjöldum fyrir tekjuminni foreldra og er Íbúahreyfing mjög sátt við það. Tillaga fræðslusviðs gerir ráð fyrir að leikskólagjöld lækki að meðaltali um 15,5%. Lækkunin ætti því að skipta máli fyrir tekjuminni greiðendur en hún er orðin hluti af fjárhagsáætlun.
Aðgæslu þörf
Það eru bjartir tímar framundan í Mosfellsbæ og mikil uppbygging í kortunum. Sjaldan hefur samt verið jafn rík þörf á því að við séum meðvituð um hvert stefnir og að við sjáum til þess að mál þróist á þann veg sem Mosfellingar vilja. Bæjarbúar þurfa að vera með í ráðum og bæjarstjórn sömuleiðis að gæta hagsmuna þeirra í nútíð og framtíð.
Íbúahreyfingin gerði náttúruvernd að sérstöku umræðuefni í umræðum um fjárhagsáætlun þessa árs. Það á sínar ástæður. Við þurfum einfaldlega að gera allt sem í okkar valdi stendur til að vernda náttúru sveitarfélagsins fyrir ágangi á tímum uppbyggingar.
Að lokum þessi viðbótartillaga við 2. umræðu fjárhagsáætlunar:
Tillaga M-lista Íbúahreyfingarinnar um meiri sýnileika náttúruverndarverkefna í fjárhagsáætlun
Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerir að tillögu sinni að fjármálastjóra og umhverfissviði verði falið að endurskoða í sameiningu framsetningu á náttúruverndarverkefnum í fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar og þá sér í lagi bókhaldslyklana sem notaðir eru til að skilgreina útgjaldaliðina. Tilgangurinn er að gera áætlunina gegnsærri og tryggja að þessi mikilvægi þáttur í starfsemi umhverfissviðs og umhverfisnefndar týnist ekki.
Sigrún H Pálsdóttir