Ein leið til að efla lýðræði á sveitarstjórnarstigi er að fjölga bæjarfulltrúum. Við það eykst þátttaka íbúa í mótun nærumhverfisins og starf nefnda bæjarfélagsins styrkist.
Á Íslandi hafa sveitarstjórnir lengi verið fámennar þar sem meðalfjöldi bæjarfulltrúa er 6,6. Á öðrum Norðurlöndum eru fulltrúar að meðaltali mun fleiri, eða 25,7 í Danmörku og allt að 44 í Svíþjóð. Sveitarfélög á Norðurlöndum eru reyndar með fleiri verkefni á sinni könnu en á Íslandi en þessi sláandi munur skýrist þó ekki af því. Munurinn skýrist heldur ekki af íbúafjölda innan sveitafélaganna þar sem t.d. sveitarfélög með innan við 500 íbúa í Noregi eru með 11 – 15 bæjarfulltrúa.
Mosfellsbær er sjöunda stærsta sveitarfélagið á Íslandi og er með 7 bæjarfulltrúa og er Garðabær eina sveitarfélagið af svipaðri stærð með jafn fáa fulltrúa, eða leyfilegan lágmarksfjölda í sveitarfélagi af þessari stærð. Þegar íbúar Mosfellsbæjar verða 10.000 er skylt að fjölga bæjarfulltrúum í 11. Átta sveitarfélög með færri en 8.000 íbúa eru með 9 fulltrúa og eitt, Fljótsdalshérað, er með 11.
Sveitarfélögum á Íslandi hefur fækkað úr 124 í 76 frá árinu 1998. Samhliða þessari þróun hafa völdin færst á færri hendur. Árið 1998 voru kjörnir fulltrúar 756 en árið 2009 voru þeir komnir niður í 512 og hefur því fækkað um ríflega þriðjung á 11 árum.
Helstu rök fyrir því að halda sveitarstjórnum fámennum eru þau að það sé of dýrt að vera með fjölmennar sveitarstjórnir. Sjálfri finnst mér þau rök léttvæg. Ef velja á stjórnarfar samkvæmt kostnaðaráætlun einni saman lægi beint við að einræði væri besta stjórnarformið.
Sú staðreynd að sveitarstjórnarstigið er sérstaklega viðkvæmt fyrir spillingu er góð ástæða fyrir því að fjölga bæjarfulltrúum. Fámennar sveitarstjórnir hjálpa fjórflokknum að einoka valdið og gera sjálfstæðum íbúaframboðum, og öðrum sem vilja hafa áhrif á samfélagið, án þátttöku í stjórnmálaflokkum, erfiðara að komast til áhrifa. Þetta þýðir að sjónarmið færri íbúa eiga fulltrúa í stjórnkerfinu.
Nú eru konur um 40% kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum og væri spennandi að sjá hvaða áhrif fjölgun fulltrúa hefði á það hlutfall.
Lýðræðisnefnd Mosfellsbæjar er nú að skila af sér tillögum. Þrátt fyrir að fjölgun fulltrúa í bæjarstjórn sé augljóslega kjörin leið til að efla lýðræðið, hefur ekki verið látið svo lítið að ræða það á fundum nefndarinnar, þrátt fyrir óskir fulltrúa Íbúahreyfingarinnar.
Flest mál sem sveitarstjórnir fjalla um eru í sjálfu sér ekki flokkspólitísk og fæst þeirra hafa snertifleti við stefnuskrár landsmálaflokka. Í Mosfellsbæ tíðkast að stjórnarmeirihlutinn virði skoðanir minnihlutans að vettugi og loki á gagnrýna umræðu. Lýðræðið byggist á skoðanaskiptum um þau mikilvægu málefni sem til umfjöllunar eru hverju sinni og því fleiri sjónarmið sem koma fram, því betra því stjórnsýslan á að sinna öllum íbúum. Til að svo megi verða þarf að fjölga fulltrúum.

Kristín I. Pálsdóttir

Pin It on Pinterest

Share This