Greinar frá íbúum

Hér fyrir neðan má nálgast greinar frá íbúum

Áskorun til sveitarstjórnarfólks í Mosfellsbæ

Ein af niðurstöðum Rannsóknarskýrslu Alþingis er að spilling sé mun víðtækari en áður hefur verið viðurkennt á Íslandi. Skýrsluhöfundar benda á að sterkasta vopn atvinnulífsins til að hafa áhrif á stjórnmálamenn sé í gegnum fjárveitingar til flokka og einstaklinga innan stjórnmálaflokkanna. Skýrslan fjallar hins vegar ekki sérstaklega um sveitarstjórnarstigið enda ekki viðfangsefni hennar. Hins vegar er ljóst að sveitarstjórnarstigið er mjög viðkvæmt fyrir spillingu og hagsmunatengslum.

Það hlýtur því að vera eðlileg krafa kjósenda nú fyrir kosningar að sveitarstjórnarmenn skili hreinskilnu uppgjöri á hagsmunatengslum sínum. Þetta á ekki síst við í þeim sveitarfélögum sem fóru offari í uppbyggingu hverfa sem nú standa sem hálfkaraðir minnisvarðar um oflæti góðærisins svokallaða.

Þegar skoðaðar eru þær upplýsingar sem aðgengilegar eru um styrkjasamband flokka og atvinnulífs skýrist samhengi hlutanna. Á lista ríkisendurskoðunar yfir lögaðila sem styrktu Sjálfstæðisflokkinn árið 2007 sést að af þeim 272 fyrirtækjum sem eru á listanum virðist sem 113 starfi í tengslum við verktöku og byggingariðnað. Þetta eru styrkir til flokksins á landsvísu en engar upplýsingar liggja fyrir um framlög til flokksdeilda né einstaklinga.

Ég bý í einu af þeim sveitarfélögum sem voru í fararbroddi „uppbyggingarinnar“, Mosfellsbæ. Í grein Ara Skúlasonar, í Fréttablaðinu 12. febrúar 2009, telur hann að hátt í þúsund lóðir og íbúðir séu tilbúnar eða í byggingu þar. Þetta er ansi há tala fyrir 8000 manna bæjarfélag og samsvarar um 40% fjölgun. Hér er því búið að leggja í tilgangslausan kostnað við óraunhæfa gatnagerð og lagnaframkvæmdir sem lendir að lokum á okkur skattborgurunum.

Haraldur Sverrisson, formaður skipulags- og byggingarnefndar og núverandi bæjarstjóri lýsir  þeirri hugmyndafræði sem fylgt var í Mosfellsbæ í Morgunblaðinu 7. maí 2006:

„Með þessu móti er tryggt að fjármagn fylgir frá landeigendum til að standa undir uppbyggingu á nauðsynlegri þjónustu í hverfunum og sá kostnaður lendir ekki á íbúum sveitarfélagsins. Auk þess fríar bæjarfélagið sig þeirri miklu áhættu sem fylgir uppkaupum. Jafnframt er tryggt mikið framboð af fjölbreyttum lóðum í bæjarfélaginu sem stuðlar að því að jafnvægi myndast milli framboðs og eftirspurnar sem leiðir jafnframt til lægra lóðaverðs. Sú leið sem hér hefur verið kynnt um uppbyggingu íbúðahverfa í Mosfellsbæ hefur vakið mikla athygli. Ljóst er að hér er um nýja hugmyndafræði að ræða sem önnur sveitarfélög munu vafalaust nýta sér.“

Þau atriði sem ég hnýt um í þessum texta er í fyrsta lagi að einkaaðilar eigi að „standa undir nauðsynlegri þjónustu í hverfunum“og að „kostnaðurinn lendir ekki á íbúum sveitarfélagsins“. Þá „fríar bæjarfélagið sig þeirri miklu áhættu sem fylgir uppkaupum“. Í dag vitum við hvaðan peningarnir til „uppbyggingarinnar“ komu og við vitum líka hverjir eru að borga kostnaðinn, það er almenningur. Það er líka sérstakt að skilgreina hlutverk sveitarfélags þannig að það eigi að fría sig ábyrgð á uppbyggingu samfélagsins.

Það er ljóst að traust á stjórnmálamönnum er í lágmarki. Í Mosfellsbæ á að láta eins og ekkert hafi í skorist. Engin gagnrýnin opinber umræða hefur átt sér stað um góðærisárin og sömu menn verma efstu sæti lista flokkanna fjögurra og í síðustu kosningum. Hér á t.d., samkvæmt fjárhagsáætlun, að veita 132 milljónum í golfskála á næstu þremur árum, á meðan skólakerfið og fleiri grunnstofnanir mega sæta niðurskurði. Allir flokkar skrifuðu sameiginlega undir fjárhagsáætlun bæjarins og þannig axla flokkarnir í minnihluta ábyrgð á þessari og fleiri ákvörðunum með meirihlutanum. Reyndar hefur bæst við framboð Íbúahreyfingarinnar, sem er óháð framboð íbúa, sem hefur hleypt smá lífi í umræður um að sveitarstjórnir þurfi líka að líta í eigin barm.
Sveitarstjórn Mosfellsbæjar setti Íslands- eða kannski Evrópumet í tilgangslausri uppbyggingu á síðustu árum. Ástæðan fyrir því að bærinn er ekki í sömu sporum og Álftanes er sú að ábyrgðinni af þessum framkvæmdum var varpað yfir á byggingaraðila og kaupendur húsnæðis sem margir standa frammi fyrir alvarlegum fjárhagsvanda og milljarðarnir sem notaðir voru í uppbyggingu, sem engum nýtist, bætast nú í skuldabagga íslensks almennings. Þegar einkaaðilar eiga að bera ábyrgðina en standa ekki undir því lendir kostnaðurinn alltaf á almenningi. Við erum búin að læra það.

Hvaðan kom þessi óeðlilega krafa um uppbyggingu sem keyrð var í gegnum skipulagsferlið, oft í trássi við vilja íbúa? Með tilliti til þess sem að framan er sagt og niðurstöður rannsóknarskýrslunnar um spillingu, er það eðlileg krafa kjósenda í Mosfellsbæ að þeir sem kosnir voru í sveitarstjórn Mosfellsbæjar árið 2006 opinberi fjármál sín og hagsmunatengsl sem og fjármál sinna flokksfélaga. Ég skora á frambjóðendur til sveitarstjórnar 2006 og 2009 að gera grein fyrir því frá hverjum þeir þáðu styrki, áður en við göngum inn í kjörklefann næsta laugardag.

Kristín I. Pálsdóttir íbúi í Mosfellsbæ

Skilaboð fra oddvita

Kæru íbúar.

Öll höfum við fylgst með því sem hefur verið að gerast í þjóðfélaginu undanfarið með undrun og óbragð í munninum. Var þetta virkilega svona og er þetta virkilega svona enn? Hvað getum við gert til þess að breyta þessu?

Fyrir mér er ein af megin ástæðunum fyrir undangenginni atburðarás, sérhagsmunagæsla stjórnmálaflokka. Stjórnmálamanna sem með gjörðum eða aðgerðaleysi hafa unnið gegn almannahagsmunum til þess að verja sérhagsmuni lítilla hópa. Það hefur komið í ljós að stjórnvöld  sögðu ósatt um óumflýjanlegt hrun bankanna, sem þau sjálf eiga stóra sök á. Þessi ósannindi hafa  orsakað eignatjón hjá almenningi sem vart verður metið nema í þúsundum milljarða króna en þeir sem höfðu upplýsingarnar gátu lagfært sína stöðu. Í kjölfar bankahrunsins horfum við svo uppá að eigendur fyrirtækja sem höfðu keyrt þau í þrot fá að halda þeim en skuldir felldar niður, skattastefnu sem dýpkar kreppuna engar lýðræðisumbætur, ekkert stjórnlagaþing,  enn er ráðið og skipað í mikilvægar samninganefndir eftir flokkskírteinum án þess að huga að hæfni.

það hefur ekkert breyst!

Ég get ekki hugsað mér að styðja neinn af þeim flokkum sem höfðu boðað lista til bæjarstjórnar í Mosfellsbæ vegna tengsla þeirra við landsmálaflokka. Ég er í raun öskureiður út í þá og merki að svo er um fleiri. Mig langar að kjósa venjulega Mosfellinga í bæjarstjórn. Fólk sem hefur pólitískan landsmálaflokk hvergi í forgangsröðinni hjá sér, en um það var ekkert val. Þetta var í raun kveikjan að Íbúahreyfingunni í Mosfellsbæ. Margt af fólkinu á listum landsmálaflokkana er vænsta fólk sem ég mundi treysta fullkomlega til þess að þjóna bæjarbúum vel, en fyrir mér eru stjórnmálaflokkarnir sem það kýs að bjóða sig fram í óyfirstíganlegur þröskuldur fyrir mitt atkvæði.

En eru flokkarnir ekki að breytast?

Ég sé engar augljósar breytingar aðrar en breytta orðræðu. Við lestur umsagnar sem fulltrúar allra  flokka í bæjarstjórn Mosfellsbæjar skrifaðu undir um persónukjör og má sjá hér http://www.althingi.is/pdf/umsogn.php4?lthing=138&malnr=102&dbnr=138&nefnd=a , er nokkuð ljóst að þeir ætla ekki að opna á vald fólksins. Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ vill að íbúarnir fái að kjósa um þau mál sem þeir óska eftir að kjósa um. Í stærri málum sem ætla má að skipti íbúana verulegu máli ætti sjálfgefið að vera íbúakosning. Ég tel það hvorki flókið né kostnaðarsamt að setja upp rafrænt kerfi sem gæfi öllum íbúum kost á að nýta sér þetta vald. Mosfellsbær gæti verið öðrum sveitarfélögum fyrirmynd að þessu leiti. Sum mál tækju eflaust lengri tíma, stjórnsýslan yrði að vera mun opnari og gagnsærri, en er ekki krókur betri en kelda og höfum við ekki lært lexíuna um að rasa ekki um ráð fram af því sem gerst hefur undanfarið?

Við hjá Íbúahreyfingunni í Mosfellsbæ viljum aðskilja framkvæmdavaldið frá bæjarstjórninni að svo miklu leiti sem hægt er. Við viljum því ráða faglegan bæjarstjóra, við teljum öruggt að til þess þurfi hvorki samning um ofurlaun né dýran starfslokasamning, þess hefur aldrei þurft. Þetta er stjórnunarstarf eins og hvert annað og mikið af hæfu fólki sem getur sinnt því vel.

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ gefur kjósendum Mosfellsbæjar val um að kjósa venjulega Mosfellinga sem hafa engra hagsmuna að gæta í landsmálaflokkum en vill gagnsæja stjórnsýslu og aukið lýðræði.

Jón Jósef Bjarnason

íbúi í Mosfellsbæ,
skipar 1. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar

Áheyrslur Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ er ákjósanlegur valkostur fyrir Mosfellinga í komandi kosningum.  Íbúahreyfingin mun beita sér fyrir auknu íbúalýðræði og umræðu um málefni bæjarins.  Til að mynda viljum við að tiltekinn hluti íbúa geti kallað fram íbúakosningu um einstök mál að undangenginni hlutlausri og faglegri kynningu.  Ákvörðun um byggingu menningarhúss er gott dæmi um mál sem íbúar ættu að fá að kjósa um.

Íbúahreyfingin hyggst beita sér fyrir faglegri og gegnsærri stjórnsýslu.  Við viljum að skipað verði í nefndir á faglegum forsendum og að virkar siðareglur fyrir kjörna fulltrúa verði viðhafnar.

Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ boðar valddreifingu.  Við viljum skilja á milli framkvæmdavalds (bæjarstjóra) og löggjafarvalds (kjörinna fulltrúa).  Á þeim forsendum hugnast okkur að bæjarstjóri verði ráðinn á faglegum forsendum og á hóflegum kjörum fremur en að oddvitar lista séu bæjarstjóraefni.  Að sama skapi þurfa skýrar reglur um verkaskiptingu milli kjörinna fulltrúa og embættismanna að vera til staðar.  Íbúahreyfingin vill ekki að fulltrúar í bæjarstjórn sitji lengur en tvö kjörtímabil.

Íbúahreyfingin boðar ábyrga fjármálastefnu á erfiðum tímum þar sem áhersla á velferð allra íbúa og almannahag verði ávallt í forgangi.

Íbúahreyfingin leggur áherslu á lýðræðislegri Mosfellsbæ og skorar á bæjarbúa að gera slíkt hið sama í sveitarstjórnarkosningunum þann 29. maí næstkomandi.

Þórður Björn Sigurðsson,
íbúi í Mosfellsbæ,
skipar 2. sæti á lista Íbúahreyfingarinnar

Pin It on Pinterest

Share This