Nokkrum dögum fyrir jól komst innanríkisráðuneytið að þeirri niðurstöðu að sú ákvörðun Mosfellsbæjar að gangast í ábyrgð vegna skulda Helgafellsbygginga hf. hafi ekki verið í samræmi við lög. Þetta kemur fram í meðfylgjandi áliti sem ráðuneytið hefur sent Mosfellsbæ um erindi sem ráðuneytinu barst frá Kristínu Pálsdóttur, íbúa í Mosfellsbæ. Erindi Kristínar, sem starfar með Íbúahreyfingunni í Mosfellsbæ, er dagsett í febrúar 2011 og hefur málsmeðferð ráðuneytisins því tekið hart nær tvö ár.
Niðurstaða ráðuneytisins er áfellisdómur yfir þeim vinnubrögðum sem kjörnir fulltrúar Mosfellinga hafa orðið uppvísir að í þessu máli en sumarið 2008 og haustið 2009 samþykktu fulltrúar allra flokka í bæjarstjórn umrædda gerninga Haraldar Sverrissonar, bæjarstjóra og oddvita Sjálfstæðisflokksins. Jón Jósef Bjarnason, bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar, hefur skilgreint gerningana sem skipulagt lögbrot til að til að fegra bókhald sveitarfélagsins fyrir síðustu kosningar og aðferð til að fela hugmyndafræðilegt gjaldþrot þeirrar stefnu einkavæðingar sem sveitarfélagið hrinti í framkvæmd við uppbyggingu íbúðahverfa.
Upp komst um málið fyrir tilstuðlan Íbúahreyfingarinnar sem fékk einn mann kjörinn í sveitarstjórnarkosningunum 2010. Fólk sem starfar með Íbúahreyfingunni tók eftir því þegar ársreikningur sveitarfélagsins fyrir árið 2009 lá fyrir að Mosfellsbær var í ábyrgð fyrir skuldum einkafyrirtækis. Það þótti undarlegt. Í beinu framhaldi tók fólk að velta fyrir sér hvort pottur væri brotinn. Nú er ljóst að svo er.
Nýfengin niðurstaða ráðuneytisins er í samræmi við niðurstöðu lögfræðiálits sem Mosfellsbær lét vinna árið 2011 eftir að ráðuneytið óskaði eftir skýringum sveitarfélagsins á sjálfskuldarábyrgðinni. Allt frá því lögfræðiálitið lá fyrir hafa kjörnir fulltrúar þeirra flokka sem ábyrgð bera á málinu verið á harðaflótta undan henni. Í stað þess að viðurkenna mistökin undanbragðalaust hefur klassísk samtryggð afneitun orðið ofan á.
Brátt reynir á kjörna fulltrúa í Mosfellsbæ á ný í þessu máli. Á mið vikudaginn verður málið tekið fyrir á bæjarstjórnarfundi. Hver verða viðbrögð bæjarfulltrúa? Mosfellingar eiga rétt á skýrum svörum. Með hvaða hætti mun bæjarstjórn bregðast við þeirri staðreynd að innanríkisráðuneytið hefur nú úrskurðað að gerningar sveitarfélagsins í Helgafellsbyggingamálinu hafi ekki verið í samræmi við lög? Ætla ráðamenn í Mosfellsbæ að reyna að sópa skítnum undir teppið eða ætla þeir að horfast í augu við misgjörðir sínar og axla ábyrgð? Hvort verður ofan á, auðmýkt eða forherðing?
Fyrir hönd Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ, Þórður Björn Sigurðsson, varabæjarfulltrúi