Íbúahreyfinginn hefur verið mjög virk í bæjarmálum frá því hún hlaut kosningu fyrir rúmu ári síðan. Þó hún láti sér öll mál varða, hefur hún sérstaklega beitt sér fyrir gagnsæi en við í Íbúahreyfingunni teljum að gagnsæi sé forsenda þess að íbúarnir hafi möguleika til aukinna áhrifa og valda. Sú barátta heldur áfram þar til málum verður þannig fyrir komið að þau samrýmast tillögu okkar um gagnsæi sveitarfélaga, en við höfum flutt eftirfarandi tillögu í bæjarstjórn.
“Bæjarstjórn Mosfellsbæjar ályktar að öll gögn í umsjón sveitarfélagsins, stofnanna þess og fyrirtækja í eigu hans að hluta eða öllu leiti skulu hér eftir vera opin og aðgengileg almenningi án hindrana, nema brýnar ástæður séu til annars. Skilgreindar verða skýrar viðmiðunarreglur um hvað teljast ástæður til hindrana með tilliti til persónuverndar, öryggissjónarmiða og annara ríkari hagsmuna. Undantekningar skulu vera vel rökstuddar og skal ekki hindra aðgang meira en til að mæta þeim rökum. Mosfellsbær, stofnanir hans og fyrirtæki í hans eigu að hluta eða öllu leiti skulu þegar eins fljótt og auðið er birta skrá yfir þau gögn og gagnasöfn sem þær ráða yfir og gera gögn þeirra aðgengileg á því formi sem þau eru nú á. Jafnframt skal skrá gagnasöfn sem ekki er opnaður aðgangur að, tilgreina efnistök þeirra, ástæður fyrir hindrunum á aðgengi og hvenær þeim hindrunum verði aflétt. Til lengri tíma skal leitast við að gera gögnin aðgengileg á stöðluðu, tölvutæku formi sem tekur tillit til allra þátta sem kveðið er á um í skilgreiningu opinna gagna. Mosfellsbær og stofnanir hans skulu einnig gera úttekt á því hvort starfsemi þeirra gefi ástæðu til að safna sérstaklega gögnum umfram það sem þegar er gert í þeim tilgangi að auka gagnsæi á starfsemi sína eða á samfélagið almennt.”
Sambærileg tillaga var flutt af Íbúahreyfingunni á þingi Sambands Íslenskra Sveitarfélaga á Akureyri í haust, þingið vísaði málinu til lýðræðisnefndar.
Bæjarstjórn Mosfellsbæjar vísaði málinu til lýðræðisnefndar en þrátt fyrir ítrekaðar óskir fulltrúa Íbúahreyfingarinnar, hefur tillagan ekki verið tekin á dagskrá þar.
Tillagan felur í sér kúvendingu á aðgangi að upplýsingum sveitarfélagsins, þ.e. Í stað þess að allt sé lokað nema það sem sérstaklega hefur verið opnað almenningi, er allt opið nema sérstaklega sé lokað og þá fylgi rök s.s. persónuverndarsjónarmið, en við teljum ekki að viðskiptahagsmunir nægi til gagnaleyndar þar sem farið er með opinbert fé.
Við hvetjum íbúa Mosfellsbæjar til þess að taka þátt í starfi Íbúahreyfingarinnar, breytingar koma ekki af sjálfum sér.
Jón Jósef Bjarnason,
bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar,
jonb@ibuahreyfingin.is
Greinin birtist í Mosfellingi 24. febrúar 2011