Grein eftir Kristínu I. PálsdótturÍ síðasta Mosfellingi birtist grein eftir undirritaða um meinta ólöglega sjálfskuldarábyrgð Mosfellsbæjar á láni til Helgafellsbygginga og á sömu síðu var grein frá meirihluta í bæjarstjórn um sama mál þar sem ákveðins misskilnings virðist gæta.
Íbúahreyfingin, sem dró umrædd viðskipti fram í dagsljósið, er ekki að gagnrýna meðhöndlun á viðskiptapappírum heldur þá staðreynd að Mosfellsbær er í sjálfskuldarábyrgð á 246 milljón króna láni einkafyrirtækis, Helgafellsbygginga. Í grein sinni nefna bæjarfulltrúarnir aldrei orðið sem skiptir hér öllu máli: SJÁLFSKULDARÁBYRGÐ. Sjálfskuldarábyrgð er samkvæmt skilgreiningu skuld sem ábyrgðaraðili ábyrgist sem væri hún hans eigin eða svokölluð óskipt ábyrgð, in solidum.
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum er sjálfskuldarábyrgð sveitarfélaga á skuldum einkaaðila bönnuð með öllu. Um þetta ákvæði segir í áliti lögmannstofunnar Lex, á umræddri sjálfskuldarábyrgð, að ákvæði laganna sé „talið fortakslaust og ófrávíkjanlegt“. Það eru sem sagt engar undantekningar eða svigrúm til túlkunar varðandi ákvæðið. Sú túlkun meirihluta bæjarstjórnar að starfsemi verktakafyrirtækis falli undir „daglegan rekstur“ bæjarfélags er því frekar langsótt.
Þegar skrifað var undir sjálfskuldarábyrgðina var framlengt samkomulag bæjarins við Helgafellsbyggingar en í því er fjallað um hin „tryggu veð“ sem bærinn segist hafa fyrir skuldinni sem „jafngilda skuld landeigenda við bæjarfélagið“, eins og segir í greininni. Þegar samkomulagið er skoðað er ljóst að Helgafellsbyggingar hafa lagt fram einhliða verðmat á veðunum; húseignin að Brekkulandi 1 er metin á 50 milljónir og tvær fjölbýlishúsalóðir metnar á 169 milljónir hvor. Alls 388 milljónir.
Samkvæmt fasteignamati er Brekkuland 1 metið á 33,5 milljónir. Málið vandast heldur þegar mat á umræddum lóðum að Gerplustræti 1-5 og 2-4 er skoðað. Til að fá samanburð skoðaði ég sambærilega eign í hverfinu, Gerplustræti 25-27. Þar eru 24 íbúðir á lóð sem er jafn stór hinum veðsettu lóðum, um 4000m2, fasteignamat þeirrar lóðar er rúmar 53 milljónir. Heildarverðmæti veðanna er því ekki meira en 140 milljónir ef miðað er við fasteignamat. Mesta offramboð lóða sem um getur á landinu er í Mosfellsbæ svo að markaðsvirðið er væntanlegra lægra.
Til að flækja málið enn frekar hafa lóðirnar í Gerplustræti verið skráð eign Mosfellsbæjar síðan árið 2007 og þar sem byggingarréttur er ekki veðhæfur er þar varla um hæft veð að ræða.
Varðandi þátt endurskoðenda Mosfellsbæjar hefur Íbúahreyfingin lagt til „að tekið verði til sérstakrar skoðunar hvers vegna endurskoðendur gerðu engar athugasemdir á ársreikningum varðandi þessi meintu lögbrot fyrrverandi bæjarstjórnar. Draga verður faglega tortryggni endurskoðendanna í efa í ljósi þess að þeir telja sig ekki geta greint hvað teljist til daglegs reksturs, skv. umbeðnu áliti þeirra, en hér er um að ræða viðskipti sem eiga sér enga hliðstæðu í bókhaldi sveitarfélagsins.“
Miðað við hversu leynilega hefur verið farið með málið innan stjórnsýslunnar og þá staðreynd að meirihlutinn hefur tvisvar fellt tillögu Íbúahreyfingarinnar um að fá mat þar til bærra yfirvalda, þ.e. Innanríkisráðuneytisins, á lögmæti téðra gerninga er erfitt að taka undir þá útskýringu að hagsmunir almennings hafi stjórnað för. Líklegra er að hagsmunir meirihlutans í aðdraganda kosninga hafi verið teknir fram yfir.
Íbúahreyfingin lítur svo á að lögbrot geti aldrei flokkast sem hagsmunagæsla fyrir almenning.

Kristín I. Pálsdóttir,
ritari Íbúahreyfingarinnar

Greinin birtist í Mosfellingi 17. mars 2011

Tengdar greinar og annað efni:
Dýrkeypt hugmyndafræði
Birtist í Mosfellingi í febrúar 2011
Frétt á Smugan.is í febrúar 2011
Mosfellsbær í ábyrgð fyrir skuldum einkafyrirtækis Birtist í Mosfellingi í júní 2010
Saga viðskipta Mosfellsbæjar við Helgafellsbyggingar

Pin It on Pinterest

Share This