Fulltrúi Íbúahreyfingarinnar gerði heiti máls í fundarboði að umræðuefni á fundi bæjarstjórnar í dag, 21. desember en nafn erindis skiptir miklu þegar kemur að því að rekja mál og kynna sér í fundargerðum Mosfellsbæjar. Ef ekki er valið rétt heiti er nær ógerningur að leita þau uppi.
Í fundargerð dagsins í dag var mál sem bar heitið: Krikahverfi, deiliskipulagsbreytingar 2012. Það sem stóð hins vegar til að ræða voru athugasemdir sem íbúar í Krikahverfi gerðu við tillögur að deiliskipulagsbreytingum í hverfinu á því herrans ári 2016 og svör Mosfellsbæjar við þeim. Eins og sjá má er titill málsins þannig að engum dytti í hug að leita að því undir heiti máls sem felur í sér ártalið 2012.
Það var formaður skipulagsnefndar, Bryndís Haraldsdóttir, sem tók að sér að svara. Málið væri auðleyst. Fólk ætti bara að slá inn leitarorðið Krikahverfi. En hvað gerist þá? Undirrituð gerði tilraun á ytri vef Mosfellsbæjar og valdi 2 nefndir, þ.e. bæjarstjórn og bæjarráð. Undir bæjarstjórn fannst ekkert og undir bæjarráð nokkur gömul mál og ekkert frá árinu 2016.
Nú stærir Mosfellsbær sig af því að hafa mótað lýðræðisstefnu. En brjóta þessar tálmanir á leit að upplýsingum ekki í bága við hana? Sé lýðræðisstefnan skoðuð kemur í ljós ar þar er gerð krafa um gegnsæi í stjórnsýslu sem felst m.a. í góðu aðgengi íbúa að upplýsingum um þau mál sem eru til umræðu í nefndum og ráðum. Í stefnunni er meira að segja kveðið á um að fundargerðir skuli vera lýsandi fyrir efni funda en því er öðru nær í Mosfellsbæ og svo hefur lengi verið.
Auðvitað er til fyrirmyndar að móta lýðræðisstefnu en hún þarf að vera virk því annars er hún einskis nýt. Fulltrúar Íbúahreyfingarinnar hafa margsinnis bent á að endurskoða þurfi hvernig mál er fram sett í fundargerðum bæjarins en í stað þess bara að ganga í málið velur D- listi að safna liði í vörn og verja vond vinnubrögð með kjafti og klóm, eins og gerðist á fundinum í dag.
Íbúar mega sem sagt áfram una því að geta ekki með einföldum hætti kynnt sér þau mál sem eru á döfinni á vettvangi bæjarmála í Mosfellsbæ. Lýðræðisstefnan verður því áfram lítið annað en hjómið eitt.
Sigrún H Pálsdóttir