Yfirlýsing frá Íbúahreyfingunni í Mosfellsbæ vegna fréttatilkynningar frá Mosfellsbæ:
Í dag sendi kynningarfulltrúi Mosfellsbæjar út fréttatilkynningu um áframhaldandi meirihlutasamstarf Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs í Mosfellsbæ. Í tilkynningunni er greint frá hugmyndum meirihlutans um aðkomu minnihlutans að stjórn bæjarins og látið að því liggja að vegna afstöðu Íbúahreyfingarinnar hafi ekki getað orðið af samstarfi.
Hugmyndir meirihlutans fólust meðal annars í því að öll framboð í bæjarstjórn myndu leggja fram sameiginlega fjárhagsáætlun. Íbúahreyfingin tók vel í þá hugmynd og lagði til á grundvelli hennar að mynduð yrði samstjórn allra framboða um rekstur bæjarins því fjárhagsáætlun væri grundvallarplagg hvað varðar stefnumörkun í rekstri sveitarfélagsins. Næðist ekki samstaða um samstjórn lýsti Íbúahreyfingin sig engu að síður jákvæða gagnvart hugmyndum meirihlutans með ákveðnum breytingum. Ekki var tekið vel í hugmyndir Íbúahreyfingarinnar af hálfu Sjálfstæðisflokksins og því strönduðu viðræður um samvinnu.