Nýverið vatt sér að mér kona í miðbæ Mosfellsbæjar og spurði mig augljóslega reið og vonsvikin: Hvernig gat þetta eiginlega gerst? Mér varð svara fátt en vissi um leið hvað hún átti við. Ég spyr mig sjálfa að því sama. Já, hvernig gat þetta gerst? Á undanförnum árum hefur mikið verið byggt í Mosfellsbæ. Íbúafjöldi hefur tvöfaldast á 20 árum og samhliða því hafa ný íbúðahverfi risið og uppbygging haldið áfram í miðbænum. Það skiptir máli að vel takist til þegar miðbæir eru annars vegar. Ásýnd og innviðir hafa mikla þýðingu og skýrir það kannski hörð viðbrögð konunnar. Það sem hún sá olli henni sárum vonbrigðum. Og ég er sama sinnis. 

Við öflun efnis í litla grein leitaði ég á náðir Mr. & Mrs. Gúggel. Bók danska arkitektsins Jan Gehl, Mannlíf á milli húsa (1971), reyndist líka vera óbrigðult hjálpartæki og svo auðvitað ræður og bókanir í bæjarstjórn sem við í Íbúahreyfingunni lögðum til málanna í viðleitni okkar til að koma í veg fyrir að einmitt þetta gerðist. 

Textinn í greininni er að mestu settur fram í formi spurninga og er tilgangurinn að vekja fólk til umhugsunar um skipulagsmál í Mosfellsbæ og þá miklu samfélagslegu ábyrgð sem sveitarstjórn ætti að axla. Spurningarnar fela að hluta til í sér svör en það ætti ekki að rýra gildi þeirra. 

Miðbær Mosfellsbæjar.

Mannlíf og skipulag

Er miðbærinn miðpunktur mannlífs í Mosfellsbæ? Er hann fjölskylduvænn? Staður stórra og smárra viðburða í bæjarfélaginu? Er torgið í miðbænum sú miðja þar sem bæjarbúar mætast í daglegu amstri og taka tal saman? Umlykja stofnanir, þjónustufyrirtæki og fjölsóttar verslanir almenningsrými (Public Space)?

Snoturt einmana torg fyrir utan hringiðu daglegs lífs.

Vellíðan og skipulag

Líður þér vel að koma í miðbæinn? Fyllist þú stolti þegar þú ferð þangað með gesti? Eða er miðbærinn niðurdrepandi, fullur af steinsteypu, malbiki, bílum, bensínstöðvum og skyndibitastöðum með víðáttumiklum bílastæðum?

Gildi fagurfræði í skipulagi

Er eitthvað fyrir augað í miðbæ Mosfellsbæjar? Eitthvað sem laðar fólk að? Leggja ferðamenn lykkju á leið sína til að skoða og upplifa miðbæinn? Er fegurð og aðdráttarafl miðbæja kannski bara afstætt og einstaklingsbundið? Og ef svo er, hvað skýrir að milljónir ferðamanna fjölmenna ár hvert í miðborgir sem eru rómaðar fyrir fegurð? 

Hagsmunir og skipulag

Hvað gerðist í miðbæ Mosfellsbæjar? Hverjir voru settir framar í forgangsröðina, fjárfestar eða íbúar? Af hverju var miðbærinn ekki skipulagður með hliðsjón af fyrirliggjandi rýnivinnu íbúa? Hvað varð um “græna miðbæinn” þeirra? Hvers vegna var skipulagið ekki unnið af einurð og einlægni, með hag beggja að leiðarljósi? Er það ófrávíkjanleg regla að hagsmunir íbúa og fjármagns geti ekki farið saman?

Blikastaðaland, verður það næsta skipulagsverkefni í Mosfellsbæ?

Skipulagið og framtíðin

Hvaða stóra skipulagsverkefni er næst á dagskrá í Mosfellsbæ? Endurtekur sagan sig í Blikastaðalandi? Verða einungis hagmunir fjárfesta og byggingarfyrirtækja settir í fyrirrúm? Eiga almannahagsmunir að vera afgangsstærð í skipulagsvinnu? Hefur nýfrjálshyggjan kannski yfirtekið skipulagsvaldið í Mosfellsbæ?

Þegar litið er yfir skipulagssögu Mosfellsbæjar undanfarin 20 ára sést að þetta er rauði þráðurinn. Íbúar hafa í sumum tilvikum verið spurðir álits en tillögur þeirra hafa horfið sporlaust. Auglýstur áhugi á framlagi íbúa bara verið til þess að tikka í samráðsboxið. Ásýnd bæjarfélagsins og innviðir hafa liðið fyrir þessi vinnubrögð. Ekki bara í miðbænum.

Sigrún Pálsdóttir,
í stjórn Íbúahreyfingarinnar

Pin It on Pinterest

Share This