Ýma tröllastelpa er aðalpersónan í bók sem fjallar um einelti og er samin í því skyni að berjast gegn því. Bókinni hefur verið dreift í skóla landsins í 10 ár og Olweusar-verkefnið og Regnbogabörn, sem bæði berjast gegn einelti, hafa tekið þátt í dreifingu og notkun bókarinnar.
Dóttir mín kom með gripinn heim þar sem bókinni var dreift í 1. bekk grunnskóla þegar hún hóf nám árið 2008. Ég kvartaði þá yfir því að bókin væri afleitt efni til að fræða börn um einelti því að í henni eru staðalímyndir, um stráka og stelpur og það hverjir lagðir eru í einelti, gagnrýnislaust bornar á borð. Það kom mér því mjög á óvart þegar ég komst að því að ennþá væri verið að dreifa bókinni í skóla landsins í fyrra og í haust.
Það er ekki lítið sem hún Ýma tröllastelpa þarf að takast á við. Ekki er nóg með að hún sé af tröllaættum, og þar af leiðandi stærri og stórgerðari en allir aðrir, hún er líka með kartöflunef, rautt hár, skakkar tennur, með bumbu og svo á hún bara allt of lítil og rifin föt og engan skófatnað. Ofan á allt þetta bætist að hún borðar meira að segja öðruvísi mat en aðrir krakkar. Það má því segja að hún hafi flest það til að bera sem ekki fellur að staðalímynd hinnar fullkomnu stúlku.
Einelti er ein tegund ofbeldis og á undanförnum árum hefur umræða um ofbeldi breyst mjög mikið í samfélaginu. Það er reyndar ekki langt síðan skýringa á ofbeldi var leitað í hegðun og útliti fórnarlamba ofbeldis. Í dag, hins vegar, hélt ég að það væru alkunn sannindi að skýringa og ábyrgðar á ofbeldi ætti að leita hjá þeim sem beita ofbeldinu, gerendum, en ekki hjá þolendum þess.
Í bókinni um Ýmu tröllastelpu er öll áherslan á fórnarlömb ofbeldisins. Ýma er allt öðruvísi en allir aðrir og strákurinn sem lagður er í einelti í sögunni er lítill gleraugnaglámur, Krissi. Allir gerendurnir eru „eðlilegir“, þeir skera sig ekki úr hópnum. Hins vegar eru það fórnarlömbin sem eru í raun gerð ábyrg fyrir eineltinu og allur fókus bókarinnar er á þeim. Gerendurnir eru hins vegar ekki nefndir með nafni.
Einelti er vandmeðfarið vandamál sem misvel gengur að ráða við. Það hjálpar varla mikið til þegar ekki er vandað betur til fræðsluefnis um málefnið en raun ber vitni. Grundvallarforsenda í baráttu gegn einelti hlýtur að vera sú að allir aðilar átti sig á því að það er gerandinn en ekki þolandinn sem ber ábyrgð á eineltinu og að skýringa á einelti ber ekki að leita í fari eða útliti þess sem lagður er í einelti.
Þessi orð eru rituð í tilefni af því að ég rakst á auglýsingu um það að skólastjórafélagið er að fara að halda ráðstefnu um einelti nú í lok september. Ég tel að það hljóti að vera umhugsunarefni fyrir þá sem þar þinga af hverju þessu efni hefur verið dreift í skóla landsins í 10 ár.
Kristín Pálsdóttir, varafulltrúi í fræðslunefnd Mosfellsbæjar.